Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 562  —  366. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Heimilt er Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Borgarbyggð, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit að stofna sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu og Andakílsárvirkjunar er nefnist Orkuveita Reykjavíkur. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Á Reykjavíkurborg 92,22% eignarhluta í fyrirtækinu, Akraneskaupstaður 5,45%, Hafnarfjarðarkaupstaður 0,94%, Borgarbyggð 0,75%, Garðabær 0,47% og Borgarfjarðarsveit 0,17%. Heimilt er að sameina Orkuveitu Reykjavíkur við sambærilega starfsemi annarra sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila eða félaga í þeirra eigu.
    Hver eigandi um sig er í einfaldri hlutfallslegri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Hlutfallsleg einföld ábyrgð hvers eiganda um sig tekur mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju þarf Orkuveita Reykjavíkur að fá fyrir fram samþykki allra eignaraðila. Með höfuðstól er átt við bókfært eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í lok næstliðins árs.
    Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna.

2. gr.

    Tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.

3. gr.

    Stjórn fyrirtækisins er skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs formann og varaformann stjórnarinnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á stjórnarfundum vegur atkvæði formanns tvöfalt.
    Varamenn, jafnmargir, skulu kjörnir á sama hátt og aðalmenn. Kjörtímabil stjórnarinnar er eitt ár í senn, frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur á viðkomandi ári til aðalfundar á næsta ári.
    Aðalfund skal halda í júnímánuði ár hvert. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
     1.      Skýrsla stjórnar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðið starfsár.
     2.      Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
     3.      Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Orkuveitu Reykjavíkur á reikningsárinu.
     4.      Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið starfsár.
     5.      Lýst kjöri stjórnar.
     6.      Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
     7.      Umræður um önnur mál.
    Rétt til setu á aðalfundi eiga borgar- og bæjarstjórar eignaraðila, stjórn og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Borgar- og bæjarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga fara með atkvæðisrétt eignaraðila á aðalfundi og skal atkvæðisréttur vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra. Heimilt er stjórn fyrirtækisins að bjóða öðrum að sitja aðalfund félagsins.

4. gr.

    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fer með málefni fyrirtækisins og annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
    Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun þess og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Forstjóra ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem þeir kunna að óska eða veita ber samkvæmt lögum. Stjórn skal setja forstjóra starfslýsingu.
    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri sér um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
    Einungis stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur veitt prókúruumboð.

5. gr.

    Orkuveita Reykjavíkur tekur við einkarétti Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstaðar, Akranesveitu, Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar og Hitaveitu Borgarness til starfrækslu hita-, vatns- og/eða rafveitu.
    Iðnaðarráðherra veitir Orkuveitu Reykjavíkur einkaleyfi til starfrækslu hita- og rafveitu á þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita þjóna við stofnun fyrirtækisins.
    Orkuveita Reykjavíkur yfirtekur skyldu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga.
    Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Reykjavíkur leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
    Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

6. gr.

    Stjórn sameignarfyrirtækisins setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda.
    Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.
    Orkuveita Reykjavíkur hefur sjálfstætt reikningshald og tekur sjálf við greiðslu fyrir selda orku og öðrum tekjum. Skal tekjunum varið til að standa straum af öllum greiðsluskuldbindingum, svo sem afborgunum áhvílandi skulda, vöxtum og öðrum rekstrarkostnaði. Þá skal tekjunum varið til fullnægjandi viðhalds og endurnýjunar mannvirkja og tækja.
    Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegum arði miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun arðsins skal tekin af aðalfundi.
    Rekstur deilda Orkuveitu Reykjavíkur skal aðgreindur reikningslega og fjárhagslega í samræmi við þarfir Orkuveitu Reykjavíkur og lagaáskilnað. Aðgreiningunni skal þannig háttað að unnt sé að sannreyna raunverulegan kostnað af orkuöflun, flutningi, dreifingu og sölu. Sameiginlegum kostnaði skal skipt á deildir fyrirtækisins samkvæmt áætlun sem staðfest skal af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
    Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi.

7. gr.

    Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skulu þeim boðin störf hjá því, sambærileg þeim er þeir áður gegndu. Umræddir starfsmenn skulu ekki njóta lakari réttinda og starfskjara en þeir nutu í störfum sínum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjun og Hitaveitu Borgarness.

8. gr.

    Stofna skal sameignarfyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur á stofnfundi sem haldinn skal í desembermánuði 2001.
    Allur kostnaður Orkuveitu Reykjavíkur af stofnun sameignarfyrirtækisins og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness greiðist af fyrirtækinu.

9. gr.

    Orkuveita Reykjavíkur skal taka til starfa 1. janúar 2002 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness. Borgarstofnunin Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness skulu lagðar niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórna þeirra.

10. gr.

    Um skyldu Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og slíkan rekstur hafa með höndum. Orkuveita Reykjavíkur skal undanþegin stimpilgjöldum.

11. gr.

    Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur skulu gera með sér sameignarsamning þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið. Til breytinga á sameignarsamningnum þarf samþykki eigenda ¾ eignarhluta fyrirtækisins. Setja skal nánari ákvæði um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur með reglugerðum sem ráðherrar staðfesta. Í reglugerðum skal meðal annars kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 38/1940, um hitaveitu Reykjavíkur, með áorðnum breytingum, falla úr gildi þegar Orkuveita Reykjavíkur tekur til starfa, sbr. ákvæði 9. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit bera áfram, hvert um sig gagnvart kröfuhöfum, ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa fyrir samruna fyrirtækjanna og áður en sameignarfyrirtæki er stofnað um reksturinn.

II.

    Á stofnfundi skal tilkynnt hverjir hafa verið kjörnir í stjórn og varastjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Hlutverk stjórnar til 1. janúar 2002 er að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness, en eftir það að stjórna fyrirtækinu í samræmi við ákvæði laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðasta sumri undirrituðu Reykjavíkurborg og Akraneskaupstaður viljayfirlýsingu um sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur og Akranesveitu. Viljayfirlýsingin gerir það að verkum að óhjákvæmilegt er að rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur og Akranesveitu verði breytt. Þá hafa verið gerðir samningar milli Reykjavíkurborgar annars vegar og Hafnarfjarðarkaupstaðar og Garðabæjar hins vegar um m.a. aðild þeirra að Orkuveitu Reykjavíkur. Þá undirrituðu Reykjavíkurborg, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit viljayfirlýsingu um sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Borgarness. Aðilar hafa orðið ásáttir um að stefna að stofnun sameignarfyrirtækis um reksturinn undir nafni Orkuveitu Reykjavíkur enda næðist skattalegt jafnræði við önnur orkusölufyrirtæki. Í kjölfar breyttrar eignaraðildar var þess óskað við iðnaðarráðuneytið að lagt yrði fram frumvarp til laga sem heimilaði þessar breytingar. Ástæður þess að nauðsyn ber til að setja sérlög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur eru eftirfarandi:
     1.      Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita og Hitaveita Borgarness eru stofnanir sveitarfélaga og eru sveitarfélögin í ótakmarkaðri ábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra. Samkvæmt 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, má eigi binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Sveitarfélögunum sem verða eigendur sameignarfyrirtækisins væri að óbreyttu óheimilt að ábyrgjast skuldbindingar fyrirtækisins. Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að hver eigandi um sig sé í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.
     2.      Samkvæmt 1. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, skulu bæjarstjórnir í kaupstöðum og bæjum starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er. Rekstur vatnsveitu er því skylduverkefni sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins yfirtekur sameignarfyrirtækið skyldu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga. Hafnarfjarðarkaupstaður og Garðabær reka eigin vatnsveitur. Nauðsynlegt er að kveðið sé á í sérlögum um heimild til handa sameignarfyrirtækinu að undirgangast þær skyldur sem lög um vatnsveitur sveitarfélaga leggja á sveitarfélögin.
     3.      Samkvæmt V. kafla orkulaga, nr. 58/1967, sbr. 30. og 31. gr., er heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur og sveitarfélag getur með samþykki ráðherra framselt einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti einkaleyfið um ákveðið tímabil í senn. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sameignarfyrirtækið taki við einkarétti Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstaðar, Akranesveitu, Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar og Hitaveitu Borgarness til starfrækslu raf- og/eða hitaveitu á þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita og Hitaveita Borgarness þjóna við stofnun sameignarfyrirtækisins. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að sameignarfyrirtækið haldi þeim réttindum sem Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita höfðu áður sem stofnanir sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að kveða á um þennan rétt í sérlögum þar sem hann samræmist ekki að fullu áðurnefndum ákvæðum orkulaga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness verði sameinaðar og að stofnað verði sameignarfyrirtæki um reksturinn.
    Á 122. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipulag raforkumála. Í þingsályktunartillögunni var m.a. lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið ætti eignarhlut í yrði yfirfarið. Í athugasemdum við tillöguna sagði að stefnt yrði að því að breyta stjórnskipulagi fyrirtækjanna þannig að það samræmdist betur viðteknum venjum í efnahagslífinu, m.a. hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra. Jafnframt var lagt til að eigendur orkufyrirtækja mótuðu stefnu um arðsemi og meðferð arðs þannig að eigendur nytu viðunandi arðsemi af eign sinni. Þá sagði í tillögunni að samhliða breytingum á rekstrarformi raforkufyrirtækjanna og innleiðingu markaðssjónarmiða þyrfti að samræma skattaskilyrði fyrirtækjanna. Eðlilegt væri að skattlagning fyrirtækjanna færi að mestu leyti eftir almennum reglum, en þó væri ljóst að a.m.k. fyrningarreglur yrðu með nokkuð öðrum hætti.
    Skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Breytingarnar hafa undantekningalítið verið sama eðlis þótt þær miðist jafnframt að hluta við aðstæður á hverjum stað. Meginefni þeirra felst í því að skilja að náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.
    Hinn 26. nóvember 1999 tók sameiginlega EES-nefndin ákvörðun um að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tilskipun 96/92/EB, um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Ákvörðunin öðlaðist gildi 1. júlí 2000 eftir að öll EES-ríkin höfðu aflétt stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvörðuninni hefur Ísland tvö ár til að leiða ákvæði tilskipunarinnar í íslensk lög.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit veitt heimild til að sameina Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjun og Hitaveitu Borgarness og stofna sameignarfyrirtæki um reksturinn er nefnist Orkuveita Reykjavíkur. Jafnframt að Hafnarfjarðarkaupstaður og Garðabær verði eigendur að fyrirtækinu á grundvelli samninga sem þessi sveitarfélög hafa gert við Reykjavíkurborg. Í greininni er kveðið á um skiptingu eignarhluta í Orkuveitu Reykjavíkur eftir sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness.
    Við ákvörðun á eignarhluta Akraneskaupstaðar var m.a. höfð hliðsjón af mati á hlutfallslegu verðmæti Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og Akranesveitu hins vegar sem unnið var af Deloitte & Touche og endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar.
    Við ákvörðun á eignarhluta Hafnarfjarðarkaupstaðar og Garðabæjar var tekið mið af uppsöfnuðum arði bæjarfélaganna annars vegar og áætluðum framtíðararði hins vegar samkvæmt samningum um rekstur og lögn hitaveitu í þessum bæjarfélögum frá árunum 1973 og 1974.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að eigendur sameignarfyrirtækisins beri einfalda hlutfallslega ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækisins og tekur hlutfallsleg ábyrgð hvers eiganda um sig mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu. Með einfaldri ábyrgð er átt við að ekki verður gengið að einstökum sameigendum fyrr en sýnt hefur verið fram á að fyrirtækinu sé ófært að standa við skuldbindingar sínar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sé heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Kveðið er á um að að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju þurfi Orkuveita Reykjavíkur að leita fyrir fram samþykkis allra eignaraðila. Ákvæði þetta er með svipuðum hætti og heimild stjórnar Landsvirkjunar skv. 14. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun.
    Í greininni er kveðið svo á um að eiganda sé óheimilt án samþykkis sameigenda að ganga úr fyrirtækinu. Af þessu leiðir að eignaraðilar geta hvorki selt eignarhlut sinn né krafist slita á fyrirtækinu nema með samþykki annarra eigenda.
    Rétt þykir að heimili og varnarþing fyrirtækisins sé á meginathafnasvæði þess. Ástæða þykir þó til að taka fram að heimilt sé að stofna útibú annars staðar, t.d. vegna skrifstofu- eða þjónustustarfa. Í þessu sambandi skal tekið fram að í viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar er kveðið á um að höfuðstöðvar hins sameinaða fyrirtækis á Vesturlandi verði á Akranesi.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið á um önnur atriði en nauðsynlegt er vegna stofnunar fyrirtækisins en gert er ráð fyrir að almenn lög um skipulag raforkumála og önnur lög og reglur taki til þess nema annað leiði af ákvæðum frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Í greininni er megintilgangur sameignarfyrirtækisins skilgreindur. Samkvæmt greininni er tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur m.a. vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
    Gert er ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang fyrirtækisins í sameignarsamningi og reglugerðum þess. Tilgangi fyrirtækisins má breyta á eigendafundi krefjist aðstæður þess. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk fyrirtækisins að aðstæðum hverju sinni. Sérstaklega er kveðið á um heimild fyrirtækisins til að reka dótturfélög og gerast eignaraðili í öðrum félögum og fyrirtækjum.

Um 3. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórn fyrirtækisins sé skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórinn í Reykjavík tilnefnir formann og varaformann stjórnarinnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar.
    Á stjórnarfundum skal atkvæði formanns vega tvöfalt. Sá háttur er hafður á til að koma í veg fyrir að eigandi 5,5% í fyrirtækinu öðlist oddaaðstöðu við stjórn þess.
    Varamenn, jafnmargir, skulu kjörnir á sama hátt og aðalmenn.
    Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur á viðkomandi ári til aðalfundar á næsta ári.
    Rétt til setu á aðalfundi eiga borgar- og bæjarstjórar eignaraðila, stjórn og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Í frumvarpinu er ráðgert að borgar- og bæjarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga fari með atkvæðisrétt eignaraðila á aðalfundi. Er sú regla eðlileg í ljósi þess að viðkomandi aðilar teljast framkvæmdastjórar viðkomandi sveitarfélaga. Þá er jafnframt kveðið á um heimild til handa stjórn fyrirtækisins til að bjóða öðrum en þeim sem tilgreindir eru í ákvæðinu að sitja aðalfund fyrirtækisins. Þetta er gert til að stjórnin geti boðið kjörnum fulltrúum sveitarfélaga sem eignaraðild eiga að sitja aðalfundinn. Einnig er líklegt að stjórnin muni vilja nýta ákvæðið til að bjóða starfsmönnum og fulltrúum fjölmiðla að sitja aðalfundinn.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um ráðningu forstjóra. Þá er jafnframt kveðið á um stöðu forstjóra og hlutverk hans innan fyrirtækisins. Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun þess og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Honum ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem þeir kunna að óska eða veita ber samkvæmt lögum. Stjórn skal setja forstjóra starfslýsingu.
    Þá er einnig kveðið á um að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
    Einungis stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur veitt prókúruumboð. Um veitingu prókúruumboðs fer að öðru leyti í samræmi við ákvæði sameignarsamnings.

Um 5. gr.

    Í 21. gr. orkulaga, nr. 58/1967, er iðnaðarráðherra falið að ákveða orkuveitusvæði hverrar héraðsrafmagnsveitu og jafnframt heimilað að veita einkarétt til að reka héraðsrafmagnsveitu á orkuveitusvæðinu, veita raforku um orkuveitusvæðið og selja hana neytendum innan takmarka þess. Iðnaðarráðherra er með sambærilegum hætti veitt heimild í 30. gr. orkulaga til að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði. Í 2. gr. reglugerðar um Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. desember 1998, nr. 793/1998, er kveðið á um að veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur sé lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar svo og nágrannabyggðir eftir því sem borgarstjórn semur um og ráðherra samþykkir. Jafnframt að Orkuveita Reykjavíkur hafi einkarétt til sölu heits vatns, jarðgufu og raforku á orkuveitusvæði sínu, í samræmi við samninga og gildandi lög og reglugerðir hverju sinni. Í reglugerð fyrir Akranesveitu frá 28. desember 2000, nr. 976/2000, er veitusvæðið skilgreint sem lögsagnarumdæmi Akraneskaupstaðar. Jafnframt að veitan selji einnig heitt vatn í Innri-Akraneshrepp og til annarra sveitarfélaga eftir því sem um semst og ekki brýtur í bága við einkarétt annarra. Akranesveita hefur einkarétt til dreifingar og sölu raforku, varmaorku og neysluvatns á veitusvæði sínu á Akranesi. Í frumvarpinu er lagt til að Orkuveita Reykjavíkur yfirtaki rétt Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu og Hitaveitu Borgarness til þessarar starfsemi. Orkuveita Reykjavíkur selur nú rafmagn til notenda í Reykjavík, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi og hluta Garðabæjar. Enn fremur selur Orkuveita Reykjavíkur heitt vatn í smásölu til notenda í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Bessastaðahreppi. Þá selur Orkuveita Reykjavíkur Mosfellsbæ heitt vatn í heildsölu. Orkuveita Reykjavíkur selur vatn til notenda í Reykjavík en vatn í heildsölu til Kópavogs, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar. Orkuveita Reykjavíkur er eigandi Hitaveitu Þorlákshafnar sem selur heitt vatn í Þorlákshöfn og er að hefja sölu á heitu vatni í Grímsnes- og Grafningshreppi. Akranesveita selur heitt vatn, rafmagn og vatn til notenda á Akranesi og heitt vatn í Innri-Akraneshreppi. Einhverjar breytingar kunna að verða á þessum réttindum fyrirtækisins þegar nýtt skipulag raforkumála kemur til framkvæmda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að iðnaðarráðherra geti veitt Orkuveitu Reykjavíkur einkaleyfi til starfrækslu hita- og rafveitu innan sveitarfélaga eftir því sem um semst.
    Til að taka af allan vafa um réttarstöðu þeirra sem við gildistöku laganna reka orkumannvirki á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur er kveðið á um að þeir skuli halda þeim rétti sínum.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að stjórn sameignarfyrirtækisins skuli setja gjaldskrár fyrir fyrirtækið og lagt til að við gerð gjaldskráa skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða. Þetta ákvæði er í samræmi við 28. og 32. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum.
    Gildistaka gjaldskráa fyrir smásölu á rafmagni og hita er háð samþykki iðnaðarráðherra og birtingu í Stjórnartíðindum. Gjaldskrá fyrir vatnssölu mun byggjast á þeim heimildum sem kveðið er á í 7.–9. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.
    Breytingar kunna að verða á þessu fyrirkomulagi þegar nýtt skipulag raforkumála öðlast gildi.
    Í þessari grein frumvarpsins er kveðið á um að rekstur hinna ýmsu deilda Orkuveitu Reykjavíkur skuli aðgreindur reikningslega og fjárhagslega í samræmi við þarfir Orkuveitu Reykjavíkur og lagaáskilnað. Aðgreiningunni skal háttað þannig að unnt sé að sannreyna raunverulegan kostnað af orkuöflun, flutningi, dreifingu og sölu. Sameiginlegum kostnaði skal skipt á hinar ýmsu deildir samkvæmt áætlun sem staðfest skal af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
    Þá er kveðið á um að við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skuli þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttar- eða verndaðri starfsemi. Reikningslegur og fjárhagslegur aðskilnaður og krafan um að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttar- eða verndaðri starfsemi er í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 92/96.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness eigi rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skuli boðin störf hjá því, sambærileg þeim er þeir áður gegndu, enda njóti þeir hjá fyrirtækinu réttinda og starfskjara sem séu ekki lakari en þeir nutu í störfum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjun og Hitaveitu Borgarness. Þeir starfsmenn sem eru félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar geta verið áfram í því félagi en það félag gerir m.a. kjarasamninga á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Um 8. gr.

    Formleg sameining Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness miðast við 1. janúar 2002. Í samræmi við viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar munu ytri ummerki sameiningar miðast við 1. desember 2001. Stofnfund skal halda í desembermánuði árið 2001.

Um 9. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að sameignarfyrirtækið yfirtaki allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness. Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita skulu lagðar niður frá og með 1. janúar 2002 og fellur þá jafnframt niður umboð stjórna þeirra.

Um 10. gr.

    Flest fyrirtæki landsins sem annast dreifingu og sölu á heitu vatni, rafmagni og vatni eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og bera eigendurnir ótakmarkaða ábyrgð á rekstri þeirra. Í 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á undanþegin skattskyldu. Í frumvarpsgreininni er lagt til að skattaleg staða Orkuveitu Reykjavíkur haldist óbreytt þrátt fyrir breytt rekstrarform. Með þessu er tryggt að fyrirtækið njóti sömu skattalegu stöðu og önnur raforkufyrirtæki. Þetta ákvæði frumvarpsins byggist á 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum.
    Á næstunni munu verða breytingar á skipulagi raforkumála. Í tengslum við þær breytingar verður skattaleg staða raforkufyrirtækja tekin til skoðunar. Hugsanlegt er að þessi skoðun leiði til breytinga á því skattalega fyrirkomulagi sem nú er. Ákvæðinu er ætlað að standa þar til þessi skoðun hefur farið fram.

Um 11.–12. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Samkvæmt 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, bera Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit hvert um sig ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu og Hitaveitu Borgarness. Í frumvarpinu er kveðið svo á um að sameigendur beri einfalda hlutfallslega ábyrgð á skuldbindingum sameignarfyrirtækisins. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja ótakmarkaða ábyrgð Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar hvers um sig að því er varðar skuldbindingar sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara. Gilda ákvæði laga þessara um einfalda hlutfallslega ábyrgð sameigenda því ekki um slíkar skuldbindingar.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stofna skuli sameignarfyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur á stofnfundi sem haldinn skal í desembermánuði 2001. Í 9. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að sameignarfyrirtækið taki til starfa 1. janúar 2002 og yfirtaki þá allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness. Gera má því ráð fyrir að stofnfundur verði haldinn nokkru áður en sameignarfyrirtækið tekur til starfa. Þetta er gert svo að ráðrúm gefist til að ganga frá ráðningu forstjóra og starfsmanna sameignarfyrirtækisins áður en það tekur við rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að tilkynnt verði um kjör stjórnar á stofnfundi fyrirtækisins og að hún starfi að því að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness.



Fylgiskjal I.


Um Orkuveitu Reykjavíkur og Akranesveitu.


I. Um Orkuveitu Reykjavíkur.

Lýsing á fyrirtæki.

    Orkuveita Reykjavíkur er sjálfstætt þjónustufyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar. Orkuveitan dreifir rafmagni, heitu vatni til húshitunar, köldu vatni til brunavarna og neysluvatni til notenda í Reykjavík og nágrenni. Á þjónustusvæði fyrirtækisins býr meira en helmingur íslensku þjóðarinnar. Fyrirtækið kappkostar að veita viðskiptavinum sínum bestu mögulega þjónustu.
    Orkuveitan annast dreifingu á raforku til notenda í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Meginhluti raforkunnar er keyptur frá Landsvirkjun en nokkur hluti hennar er unninn í eigin orkuverum. Orkuveitan vinnur jarðvarma beint úr jörðu í Mosfellsbæ og Reykjavík, en einnig jarðgufu í Nesjavallavirkjun. Orkuveitan annast dreifingu á heitu vatni til notenda í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi, en auk þess er Mosfellsbæ selt heitt vatn í heildsölu. Orkuveitan aflar kalds vatns úr borholum í Heiðmörk og dreifir því til notenda í Reykjavík. Auk þess selur Orkuveitan Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ kalt vatn í heildsölu.

Lýsing á vöru/framleiðslu.
    Orkuveita Reykjavíkur kappkostar að veita framleiðslu sinni til viðskiptavina, með háu þjónustustigi og öryggi bæði hvað varðar afhendingu og gæði vörunnar.
    Orkuveita Reykjavíkur aflar og dreifir vistvænni orku á sem hagkvæmastan hátt í sátt við umhverfið. Starfsemi fyrirtækisins tekur mið af skynsamlegri nýtingu orkulinda í samræmi við lög og reglur um mat á umhverfisáhrifum. Orkuveita Reykjavíkur er til fyrirmyndar í umgengni á eigin umráðasvæðum og vinnur þar að uppgræðslu lands og friðun dýralífs. Stefna Orkuveitunnar er að sjá viðskiptavinum sínum fyrir ódýrri vistvænni orku sem framleidd er á hagkvæman hátt úr endurnýjanlegum íslenskum orkulindum. Þannig mun fyrirtækið stuðla að aukinni notkun hreinnar innlendrar orku og um leið leggja sitt af mörkum til framfara í landinu.

Rafmagn.
    Orkuveitan tryggir viðskiptavinum sínum næga orku með fullnægjandi gæðum og nauðsynlegu afhendingaröryggi. Orku er aflað með vinnslu í eigin orkuverum og viðskiptum við aðra orkuframleiðendur. Við uppbyggingu og rekstur raforkuvirkis er tekið mið af fjárhagslegum markmiðum fyrirtækisins og þjóðfélagslegum afleiðingum af ófullnægjandi orkuafhendingu. Raforkukerfið er þannig úr garði gert og rekið að flutningsgeta þess og gæði raforkunnar sé fullnægjandi miðað við þarfir viðskiptavina og fullnægi gildandi kröfum eins og þær eru á hverjum tíma. Fyrirtækið tryggir viðskiptavinum sínum fullnægjandi afhendingaröryggi raforkunnar að teknu tilliti til kostnaðar sem hlýst af skerðingu á afhendingu raforkunnar.
    Verulegur hluti unninnar raforku er seldur Landsvirkjun, en hluti hennar er nýttur til eigin þarfa. Orkuveitan dreifir raforku til notenda í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ.

Neysluvatn.

    Orkuveitan selur Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ kalt vatn í heildsölu. Hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur er að fullnægja vatnsþörf viðskiptavina og tryggja nægjanlegt vatn til slökkvistarfa.
    Allt vatn til neytenda er tekið úr lokuðum borholum sem eru frá 10 til 100 metra djúpar. Vatnstökusvæðin (brunnsvæðin) eru eftirfarandi: Gvendarbrunnasvæði, Jaðarsvæði, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Vatnið er ekki hreinsað á nokkurn hátt en mjög strangar kröfur eru gerðar til gæða þess. Sýnishorn af vatninu eru rannsökuð reglulega og stenst það gæðakröfur íslenskra staðla sem og erlendar kröfur (skv. reglugerðum WHO og evrópskum og bandarískum stöðlum). Samþykktarmörk um gæði neysluvatns eru gefin í reglugerð nr. 319/1995, um neysluvatn.
    Orkuveita Reykjavíkur hefur sem markmið að geta á hverjum tíma fullnægt vatnsþörf viðskiptavina sinna og annarra sem reiða sig á þjónustu hennar, til brunavarna svo og til iðnaðar og neyslu. Áhersla er lögð á gæði, magn og afhendingaröryggi vatnsins. Markmið Orkuveitunnar er að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað sé í sem bestu lagi.

Heitt vatn.
    Orkuveitan leitast við að tryggja viðskiptavinum sínum nægt heitt vatn með nauðsynlegu afhendingaröryggi og fullnægjandi gæðum, innan skilgreindra vikmarka. Við uppbyggingu veitukerfisins, endurnýjun þess og rekstur er notuð nýjasta og besta tækni og hagkvæmustu vinnuaðferðir. Rekstur veitukerfisins og uppbygging þess miðast við að truflanir á orkuafhendingu verði sem minnstar þrátt fyrir bilanir í því.

Gæðastefna Orkuveitu Reykjavíkur.
    Orkuveitan leggur höfuðáherslu á gæði þeirrar vöru og þjónustu sem fyrirtækið lætur af hendi. Starfsmenn Orkuveitunnar vita að gæði, áreiðanleiki og arðsemi í rekstri tryggir árangursríkt starf.
    Orkuveitan gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að vernda auðlindir þjóðarinnar og tryggja eins og kostur er sjálfbæra nýtingu þeirra.
    Starfrækt er gæðaráð sem samhæfir og stjórnar aðgerðum á sviði gæðamála. Áhersla er lögð á að starfsmenn þekki og tileinki sér gæðastefnu fyrirtækisins.
    Stefna Orkuveitu Reykjavíkur er:
          Að vera traust og ábyrgt fyrirtæki, sem veitir viðskiptavinum sínum aðgang að nægri orku og vatni með fullnægjandi gæðum og afhendingaröryggi.
          Að veita viðskiptavinum sínum hraða, sveigjanlega og hagkvæma þjónustu.
          Að uppfylla kröfur um hollustu, öryggi og umhverfi.
          Að vinna eftir ströngum reglum við kaup á vörum og þjónustu.
          Að á virkjunarsvæðum og öðrum viðkvæmum svæðum séu að öllu jöfnu ekki notuð efni eða verklag sem rýrt geti gæði vatnsins og gilda strangar reglur um frávik.
          Að öll meginstarfsemi fyrirtækisins taki mið af kröfum alþjóðlega staðalsins ISO–9001.

Ágrip af sögu vatnsveitu, rafvæðingar og húshitunar í Reykjavík.
1909 Vatnsveitan tekur til starfa 16. júní og var þá mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í frá landnámi. Vatnið var í fyrstu sótt í Elliðaárnar, en sú ráðstöfun var til bráðabirgða, og þann 2. október 1909 var opnuð leiðsla frá Gvendarbrunnum. Afköst virkjunarinnar voru reiknuð 38,5 l/sek.
1916 Tekinn í notkun 1000 m3 vatnsgeymir á Rauðarárholti, sem bætti nokkuð úr vatnsskortinum sem farið var að bera á.
1920 Rafmagnsstjórn Reykjavíkur tekur til starfa.
1921 Framkvæmdum lokið við Elliðaárvirkjun á vormánuðum. Stöðin vígð 27. júní.
1923 Afköst veitunnar liðlega tvöfölduð, með lögn víðrar trépípu frá Gvendarbrunnum að Rauðhólum og annarri grennri pípu að 150 m3 geymi á Hraunbrún (norðan núverandi Skeiðvallar).
1925 Rafmagnsveitunni falin umsjá Elliðaánna.
1928 Borað eftir heitu vatni við Þvottalaugarnar í Laugardal.
1930 3 km löng leiðsla lögð úr Þvottalaugunum að Austurbæjarskóla. Geymarýmið tvöfaldað á Rauðarárholti.
1933 Elliðaárvirkjun stækkuð úr 1032 í 1720 kW. Lög um Sogsvirkjun samþykkt. Boranir hefjast að Reykjum í Mosfellssveit.
1934 Ný aðalæð er tekin í notkun frá Rauðhólum að geymunum á Rauðarárholti.
1937 Ljósafossvirkjun vígð 25. október, ákveðið að rafvæða heimilin, rafeldun „kjörorðið“.
1939 Hafist handa við að leggja 15 km langa leiðslu frá Reykjum til Reykjavíkur og samtímis var byrjað á lögnum í bæjarkerfinu. Fyrsti hitaveitugeymirinn á Öskjuhlíð var reistur árið 1940.
1941 Mikil og skyndileg fjölgun sem varð á veitusvæðinu með komu breskra hermanna veldur vatnsskorti.
1944 Virkjanir tefjast vegna heimsstyrjaldarinnar, en á sama tíma eykst eftirspurn eftir raforku. Stækkun Ljósafossvirkjunar lauk, og urðu afköst hennar 16.500 kW, en dugðu rétt fyrir þeirri eftirspurn sem þegar var orðin.
1946 Hitaveita Reykjavíkur verður að sér fyrirtæki þegar fjárhagur vatns- og hitaveitu var aðskilinn. Samkvæmt nýjum lögum á ríkið eignaraðild að Sogsvirkjun. Framkvæmdir við olíu- og kolakynta gufuaflstöð við Elliðaárstöð hafnar.
1948 Gufuaflstöðin tekin í notkun. Framleiðslugeta 7.500 kW í fyrstu. Nýtt vatnsból var virkjað við Gvendarbrunna og ný aðalæð lögð þaðan til borgarinnar. Virkjun þessi tvöfaldaði næstum því flutningsgetu aðveituæðanna.
1949 Boranir hefjast í kringum Laugaveg ofanverðan og Laugarnes. Ríkið gerist meðeigandi að Sogsvirkjun. Í júlí var undirritaður samningur um eignaraðild að virkjunum við Sog, eftir því sem virkjunarframkvæmdum miðaði áfram. Við lok framkvæmda á hvor aðili 50%. Fyrstu umferðarljós í Reykjavík við Skólavörðustíg og Bankastræti.
1957 Framkvæmdir við virkjun Efra-Sogs hefjast. Ríkið og Reykjavíkurbær kaupa saman öflugan jarðbor, gufuborinn Dofra. Við það náðist betri árangur og fleiri heimili fengu hitaveitu. Einnig hjálpaði til að farið var að nota dælur í borholum.
1958 Ný dælustöð byggð við vatnsbólið sem virkjað var 1948 og við það hækkaði þrýstingurinn í veitukerfinu til muna og afkastagetan jókst um þriðjung í góðu vatnsári.
1959 Varastöð við Elliðaár stækkuð, kemur að gagni fyrir Hitaveitu Reykjavíkur.
1960 Steingrímsstöð fullbyggð. Félagsheimili starfsmannafélagsins við Elliðaár byggt og vígt.
Minnsta úrkomuárið sem mælst hefur í Reykjavík á árunum 1931–1988 og kom þá í ljós í fyrsta sinn að Gvendarbrunnar voru fullnýttir í úrkomulitlum árum.
1963–64 Þriðju vélasamstæðu bætt við í Írafossstöð.
1964–65 Varaaflstöðin við Elliðaár stækkuð. Nýrri vélasamstæðu 12.000 kW bætt við.
1965 Landsvirkjun stofnuð. Sameign ríkisins og Reykjavíkurborgar, eignarhlutur hvors um sig 50%. Eignarhlutur í Sogsvirkjun, ásamt varaaflstöð við Elliðaár lagðar til Landsvirkjunar. Rafmagnsveitan sá um rekstur Sogsvirkjunar til ársloka 1965. Rafmagnsveitan á og rekur Elliðaárstöð eins og fyrr, en meginverkefnið er rekstur og stækkun dreifikerfisins og tengsl við notendur. Tekinn í notkun 10.000 m3 geymir á Litlu-Hlíð og gerði hann mögulegt að nýta flutningsgetu aðalæðanna utan mestu álagstíma að nóttu til og um helgar og miðla til dreifikerfisins á virkum dögum þegar álagið var mest.
1966 Vatnsból við Bullaugu tekin í notkun og kom það að miklum notum á sjöunda áratugnum á meðan verið var að undirbúa nýju vatnsbólin í Heiðmörk.
1967 Borun hefst á jarðhitasvæði við Elliðaár.
1969 Rafmagnsveitan undirbýr byggingu nýs húsnæðis á mótum Suðurlandsbrautar, Grensásvegar og Ármúla. Fyrsti áfangi bækistöðvar við Ármúla tekinn í notkun 1972.
1970–71 Álagsstýrikerfi tekið í notkun, sem stjórnar rofinni orkunotkun á rafhitun og götulýsingu.
1972 Uppbygging hefst á nýju aðveitukerfi með 132 kV rekstrarspennu. Fullnaðarvirkjun Bullaugna var lokið. Boran á vinnsluholum í Heiðmörk hefst og stóð með hléum til ársins 1984. Samningur gerður um hitaveitu í Kópavogi.
1973 Stjórnkerfi aðveitustöðva tekið í notkun, einn fyrsti tölvustýrði kerfisráður hjá dreifiveitu í Evrópu. Samningur gerður við Hafnarfjarðarkaupstað um rekstur hitaveitu.
1974 Samningur gerður við Garðahrepp um rekstur hitaveitu.
1978 Miðlunarstíflan við Elliðavatn endurbyggð. Ný aðveitustöð byggð við Barónsstíg. Stjórn veitustofnana sett á laggirnar. Framkvæmdir við dælustöðvar á Jaðarssvæðinu hefjast.
1980 Nýjar dælustöðvar í Heiðmörk teknar í notkun. Ný 1000 mm æð frá Heiðmörkinni var tekin í notkun.
1983 Laxárvirkjun sameinuð Landsvirkjun, eignarhlutur Reykjavíkurborgar verður 44,525%.
1984 Skrifstofa Rafmagnsveitu flytur í nýtt húsnæði að Suðurlandsbraut 34.
1986 Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað að ráðast í virkjun Nesjavalla, að undangengnum miklum rannsóknum á svæðinu.
1990 Nesjavallavirkjun tekin í notkun.
1993 Eignar- og arðsréttur Kópavogs í Hitaveitu Reykjavíkur keyptur.
1997 Nýtt stjórnkerfi fyrir aðveitu og dreifikerfi. Hlutverk stjórnkerfisins er að vakta og fjarstýra raforkukerfinu.
1998 Raforkuvinnsla hefst á Nesjavöllum.
Lögð háspennulína frá Nesjavöllum að Korpu.
1999 Orkuveita Reykjavíkur tekur til starfa.
2000 Vatnsveita Reykjavíkur sameinast Orkuveitunni. Hitaveita Þorlákshafnar keypt.
2001 Ákveðið að sameina Orkuveitu Reykjavíkur og Akranesveitu. Samið um að Hafnarfjarðarkaupstaður og Garðabær eignist hlut í Orkuveitu Reykjavíkur.

II. Um Akranesveitu.

Lýsing á fyrirtæki.
    Akranesveita tók til starfa 1. janúar 1996. Þá voru sameinuð í eitt fyrirtæki Rafveita Akraness, Vatnsveita Akraness, dreifikerfi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar á Akranesi og í Innri-Akraneshreppi.
    Jafnframt var ákveðið að tæknideild og áhaldahús Akraneskaupstaðar sameinuðust Akranesveitu og að ákveðnir rekstrarþættir sem tæknideildin og áhaldahúsið höfðu annast yrðu framvegis á hendi veitunnar.
    Akranesveita tók að sér í umboði Akraneskaupstaðar framkvæmd á samningi dags. 8. 12. 1995 milli Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) og Akraneskaupstaðar sem m.a. gerði ráð fyrir að Akraneskaupstaður tæki að sér að annast framkvæmdastjórn, fjármálastjórn, tæknilega ráðgjöf og þjónustu fyrir HAB.
    Á árinu 2000 voru í starfi hjá Akranesveitu 44 starfsmenn sem skiluðu 29,5 ársverkum.
    Á haustmánuðum árið 2000 var unnið að skipulagsbreytingum hjá Akraneskaupstað og fyrirtækjum hans. Niðurstaða þeirra skipulagsbreytinga var að framkvæmdastjórn og fjármálalegi hluti veitunnar var fluttur yfir til Akraneskaupstaðar, jafnframt var tæknideild Akranesveitu sameinuð embætti byggingarfulltrúa hjá Akraneskaupstað.

Rafveita Akraness.
    „Rafveitan á Akranesi“ var sameignarfélag sem stofnað var 1926 af áhugamönnum um byggingu og rekstur rafstöðvar til almenningsþarfa á Akranesi.
    Það var síðan á aðalfundi rafveitunnar í júní 1945 að Akraneskaupstað var boðið að taka við rekstri veitunnar að uppfylltum nokkrum skilyrðum er vörðuðu skuldaskil o.fl. Bæjarstjórn gekk að tilboðinu þann 7. ágúst 1945.
    Það er síðan í lok árs 1995 að bæjarstjórn Akraness samþykkir að Rafveita Akraness verði hluti af Akranesveitu.
    Rafveita Akraness og síðar Akranesveita keypti/kaupir rafmagn af Rarik.

Vatnsveita Akraness.
    Vatnsveita var lögð á Akranesi snemma á fimmta áratugnum. Veitan var rekin með sjálfstæðum fjárhag, en í tengslum við bæjarsjóð allt til 1995 þegar veitan var færð undir rekstur Akranesveitu.

Andakílsárvirkjun.
    Árið 1942 var sameignarfélagið Andakílsárvirkjun stofnað af sýslunefndum Mýra- og Borgarfjarðarsýslna og Akraneskaupstað. Árið 1947 hófst síðan rekstur Andakílsárvirkjunar.
    Akraneskaupstaður átti 33,33% í Andakílsárvirkjun, sveitarfélög í Mýrasýslu 33,33% og sveitarfélög í Borgarfjarðarsýslu 33,33% þar til árið 1996 að Akraneskaupstaður verður einn eigandi virkjunarinnar eftir að hafa keypt út aðra eignaraðila.
    Andakílsárvirkjun selur Rafmagnsveitum ríkisins nær alla orkuframleiðslu sína.
    Á árinu 2000 störfuðu að meðaltali um 2,5 starfsmenn hjá virkjuninni í jafnmörgum stöðugildum.

Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar.

    Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar var stofnuð 23. mars 1979 af Akraneskaupstað og Hitaveitu Borgarfjarðar (Borgarneshreppur, Andakílshreppur og Bændaskólinn að Hvanneyri).
    Virkjun Deildartunguhvers í Reykholtsdal sér Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar fyrir heitu vatni. Vatnið er flutt í aðveitulögn allt til Akraness eða um 60 km leið. Á leiðinni eru 4 dælustöðvar og 2 miðlunartankar. Jafnframt er samningur við eigendur jarðhitaréttinda í Bæjarsveit um nýtingu á borholum þar.
    Á fundi eigenda HAB þann 8. desember 1995 var samþykktur nýr stofnsamningur og nýjar samþykktir fyrir veituna.
    Eigendur veitunnar og eignarhlutar eru sem hér segir:
    Akraneskaupstaður    53,7%
    Andakílshreppur    4,3%
    Borgarbyggð    21,3%
    Ríkissjóður    20,7%
    Í framhaldi af breytingum á samþykktum HAB breyttist rekstrarform veitunnar, hún er í dag að mestu leyti heildsöluaðili sem selur stærstan hluta af vatni sínu til Akranesveitu og Hitaveitu Borgarness. Orkuveita Reykjavíkur yfirtekur 53,7% eignarhluta Akraneskaupstaðar.
    Í dag starfar enginn fastráðinn starfsmaður við veituna, lausráðinn starfsmaður er í hlutastarfi í Deildartungu.
    HAB gerði þjónustusamninga við Akraneskaupstað og Borgarbyggð um stjórnun og rekstur veitunnar.


Fylgiskjal II.


VILJAYFIRLÝSING.

    Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akraness lýsa hér með yfir að Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita, Andakílsárvirkjun og 53,7% eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði sameinuð frá og með 1. desember 2001. Aðilar eru sammála um eftirfarandi:
          Eignarhlutur Reykjavíkurborgar í sameinuðu fyrirtæki verði um 95,0% og eignarhlutur Akraneskaupstaðar verði um 5,0% og er þar byggt á sameiginlegri matsskýrslu Deloitte & Touche hf. og Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar.
          Bæjarstjórn Akraness skipi einn fulltrúa í stjórn og einn til vara í hinu sameinaða fyrirtæki.
          Sama þjónusta og gjaldskrá verði á Akranesi og í Reykjavík.
          Starfsmönnum fyrirtækjanna verð tryggð áframhaldandi störf hjá sameinuðu fyrirtæki. Í þeirri vinnu sem framundan er við úrvinnslu málsins verður rætt við þá starfsmenn sem breytingar þessar snerta og haft samráð við þá um þau atriði sem að þeim snúa.
          Höfuðstöðvar orkuveitunnar á Vesturlandi verði á Akranesi og að vinnuflokkar verði gerðir út þaðan.
          Á grundvelli framangreinds verði gert nánara samkomulag um útfærslu einstakra atriða.
    Ástæða þess að ákveðið hefur verið að sameina rekstur þessara fyrirtækja er að framundan eru breytingar í orkumálum sem nauðsynlegt er að bregðast við auk þess sem Hvalfjarðargöng hafa sameinað Reykjavík og byggð norðan Hvalfjarðar í eitt atvinnusvæði. Aðilar eru sammála um að ef um semst geti önnur sveitarfélög orðið aðilar að fyrirtækinu. Markmið breytinganna eru eftirfarandi:
          Að sameinað fyrirtæki verði stærra og öflugra í breyttu samkeppnisumhverfi.
          Að hagræðing verði í rekstri.
          Að skapa ný sóknarfæri í sölu orku á veitusvæði fyrirtækisins.
          Að efla rekstraröryggi veitukerfa og auka þjónustu.

Akranesi, 26. júní 2001.


F.h. Akraneskaupstaðar,
með fyrirvara um samþykki
bæjarstjórnar Akraness:
F.h. Reykjavíkurborgar, með fyrirvara um samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur:
_____________________________ ______________________________
Gísli Gíslason, bæjarstjóri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri.
_____________________________ ______________________________
Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar Akraness. Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Fylgiskjal III.

Borgarstjórinn í Reykjavík, f.h. borgarstjórnar Reykjavíkur vegna Orkuveitu Reykjavíkur, og bæjarstjórinn í Hafnarfirði, f.h. bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, gera með sér eftirfarandi

SAMNING
um lögn og rekstur hitaveitu í Hafnarfirði

1. gr.

    Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, með fyrirvara um samþykki iðnaðarráðherra, veitir hér með Orkuveitu Reykjavíkur einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitu sem annist dreifingu og sölu heits vatns í Hafnarfirði með þeim skilmálum sem nánar segir í samningi þessum. Framsalið er gert á grundvelli 31. greinar orkulaga nr. 58/1967.
    Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar í Krísuvík.
    Einkaleyfi Orkuveitu Reykjavíkur veitir ekki einkarétt til dreifingar á gufu.

2. gr.

    Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tryggir, að Orkuveita Reykjavíkur fái án endurgjalds, óhindraðan aðgang til lagnar og viðhalds dreifikerfis um götur, leigulóðir og eignalönd ef með þarf, þ.m.t. aðstaða fyrir vinnuflokka og efnisgeymslu meðan á framkvæmdum stendur. Kostnaðarauki, er stafar af því, að slíkt leyfi fáist ekki, eða ef breyta þarf lögnum vegna húsa eða mannvirkja, sem standa í götustæði, greiðist af bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
    Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tryggir einnig, að Orkuveita Reykjavíkur fái án endurgjalds nauðsynlegar lóðir fyrir dælustöðvar og miðlunargeyma.
    Bætur til annarra en bæjarstjórnar Hafnarfjarðar fyrir jarðrask á löndum greiðist af Orkuveitu Reykjavíkur. Reynist nauðsynlegt að kaupa landspildur vegna lagna Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar, greiðir bæjarsjóður Hafnarfjarðar kaupverð.

3. gr.

    Orkuveita Reykjavíkur mun tryggja, að rekstraröryggi veitunnar og þjónusta í Hafnarfirði verði með svipuðum hætti og í Reykjavík.

4. gr.

    Sama gjaldskrá um sölu á heitu vatni og greiðslu á stofngjöldum mun gilda á hverjum tíma í Hafnarfirði og í Reykjavík.

5. gr.

    Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og eignir skulu undanþegin öllum opinberum gjöldum til bæjarsjóðs Hafnarfjarðar með sama hætti og til borgarsjóðs Reykjavíkur hverju sinni.

6. gr.

    Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skal heimilt að tilnefna fulltrúa, er sé tengiliður hennar við Orkuveitu Reykjavíkur. Skal hann hafa aðgang að upplýsingum um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og reikningum hennar.
    Hann skal hafa tillögurétt um þau málefni, er snerta Hafnarfjörð sérstaklega og koma á framfæri við Orkuveituna óskum og viðhorfum bæjarstjórnarinnar.
    Hvor aðili um sig getur óskað eftir viðræðum milli fulltrúa stjórnar Orkuveitunnar annars vegar og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hins vegar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur í Hafnarfirði.

7. gr.

    Með samningi þessum er felldur úr gildi samningur borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 1973 um lögn og rekstur hitaveitu í Hafnarfirði. Samkvæmt 8. gr. þess samnings átti Hafnarfjörður rétt til arðs frá Hitaveitu Reykjavíkur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í stað þess réttar og uppsafnaðs arðs fyrri tíma eignast Hafnarfjörður 1% í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. fylgiskjal I með samningi þessum.

8. gr.

    Samningur þessi er ótímabundinn en heimilt er hvorum aðila að segja honum upp með 15 ára fyrirvara eftir gildistöku samningsins og miðast uppsagnarfresturinn við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögnin hefur borist gagnaðila.
    Komi til uppsagnar samningsins skulu eignir Orkuveitu Reykjavíkur innan bæjarmarka Hafnarfjarðar svo sem dreifikerfi, hús, dælustöðvar og hlutdeild í aðfærsluæðum utan bæjarmarka metnar af til þess bærum aðilum. Skal einn matsmanna tilnefndur af hvorum aðila og nái þeir ekki samkomulagi skal oddamaður tilnefndur af héraðsdómi Reykjavíkur. Niðurstaða meiri hluta matsmanna telst bindandi kaupsamningur fyrir báða. Skal matið miðast við endurstofnverð og hlutfall aldurs af áætluðum líftíma eignanna. Komi til uppsagnar skal semja sérstaklega um lagningu dreifikerfis í ný hverfi.

9. gr.

    Samningur þessi hefur í för með sér að Orkuveita Reykjavíkur verður framvegis ekki borgarstofnun og því er nauðsynlegt að breyta henni í félag. Borgarstjórn Reykjavíkur tekur ákvörðun um hvaða rekstrarform verður valið og mun félagið yfirtaka réttindi og skyldur borgarstjórnar Reykjavíkur skv. samningi þessum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er ljóst að fleiri sveitarfélög kunna að eignast hlut í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. fylgiskjal II (viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Akraness, dags. 26. júní 2001) og III (samningur við Garðabæ, dags. í dag).

10. gr.

    Samningur þessi tekur gildi 1. desember 2001 enda hafi þá eftirtöldum skilyrðum verið fullnægt.
     1.      Að samningurinn hafi verið samþykktur í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
     2.      Að samningurinn hafi verið samþykktur af iðnaðarráðherra, sbr. 1 gr.
     3.      Að rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið breytt og nauðsynlegar breytingar gerðar á lögum og reglugerðum sem af því kunna að leiða.

11. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. fellur samningurinn úr gildi ef óviðráðanlegar aðstæður (force majeure) hindra starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur að dómi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ef slíkar aðstæður skapast á hvorugur aðili bótarétt á hendur hinum.
    Mati borgarstjórnar skv. 1. mgr. má skjóta til dómstóla til breytingar eða staðfestingar.

12. gr.

    Rísi mál út af samningi þessum eða öðru samkomulagi aðila er á samningi þessum byggist skal reka það fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

13. gr.

    Af samningi þessum eru gerð tvö samhljóða frumrit, sitt handa hvorum aðila.

Reykjavík, 21. september 2001


F.h. borgarstjórnar Reykjavíkur, F.h. bæjarstjórnar Hafnarfjarðar,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Magnús Gunnarsson.
Vottar:


              
Fylgiskjal IV.


Borgarstjórinn í Reykjavík, f.h. borgarstjórnar Reykjavíkur vegna Orkuveitu Reykjavíkur, og bæjarstjórinn í Garðabæ, f.h. bæjarstjórnar Garðabæjar, gera með sér eftirfarandi

SAMNING
um lögn og rekstur hitaveitu í Garðabæ

1. gr.

    Bæjarstjórn Garðabæjar, með fyrirvara um samþykki iðnaðarráðherra, veitir hér með Orkuveitu Reykjavíkur einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitu sem annist dreifingu og sölu heits vatns í Garðabæ með þeim skilmálum sem nánar segir í samningi þessum. Framsalið er gert á grundvelli 31. greinar orkulaga nr. 58/1967.
    Einkaleyfi Orkuveitu Reykjavíkur veitir ekki einkarétt til dreifingar á gufu.

2. gr.

    Bæjarstjórn Garðabæjar tryggir, að Orkuveita Reykjavíkur fái án endurgjalds, óhindraðan aðgang til lagnar og viðhalds dreifikerfis um götur, leigulóðir og eignalönd ef með þarf, þ.m.t. aðstaða fyrir vinnuflokka og efnisgeymslu meðan á framkvæmdum stendur. Kostnaðarauki, er stafar af því, að slíkt leyfi fáist ekki, eða ef breyta þarf lögnum vegna húsa eða mannvirkja, sem standa í götustæði, greiðist af bæjarstjórn Garðabæjar.
    Bæjarstjórn Garðabæjar tryggir einnig, að Orkuveita Reykjavíkur fái án endurgjalds nauðsynlegar lóðir fyrir dælustöðvar og miðlunargeyma.
    Bætur til annarra en bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir jarðrask á löndum greiðist af Orkuveitu Reykjavíkur. Reynist nauðsynlegt að kaupa landspildur vegna lagna Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar, greiðir bæjarsjóður Garðabæjar kaupverð.

3. gr.

    Orkuveita Reykjavíkur mun tryggja, að rekstraröryggi veitunnar og þjónusta í Garðabæ verði með svipuðum hætti og í Reykjavík.

4. gr.

    Sama gjaldskrá um sölu á heitu vatni og greiðslu á stofngjöldum mun gilda á hverjum tíma í Garðabæ og í Reykjavík.

5. gr.

    Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og eignir skulu undanþegin öllum opinberum gjöldum til bæjarsjóðs Garðabæjar með sama hætti og til borgarsjóðs Reykjavíkur hverju sinni.

6. gr.

    Bæjarstjórn Garðabæjar skal heimilt að tilnefna fulltrúa, er sé tengiliður hennar við Orkuveitu Reykjavíkur. Skal hann hafa aðgang að upplýsingum um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og reikningum hennar.
    Hann skal hafa tillögurétt um þau málefni, er snerta Garðabæ sérstaklega og koma á framfæri við Orkuveituna óskum og viðhorfum bæjarstjórnarinnar.
    Hvor aðili um sig getur óskað eftir viðræðum milli fulltrúa stjórnar Orkuveitunnar annars vegar og bæjarstjórnar Garðabæjar hins vegar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur í Garðabæ.

7. gr.

    Með samningi þessum er felldur úr gildi samningur borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Garðabæjar frá 22. mars 1974 um lögn og rekstur hitaveitu í Garðabæ. Samkvæmt 8. gr. þess samnings átti Garðabær rétt til arðs frá Hitaveitu Reykjavíkur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í stað þess réttar og uppsafnaðs arðs fyrri tíma eignast Garðabær 0,5% í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. fylgiskjal I með samningi þessum.

8. gr.

    Samningur þessi er ótímabundinn en heimilt er hvorum aðila að segja honum upp með 15 ára fyrirvara eftir gildistöku samningsins og miðast uppsagnarfresturinn við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögnin hefur borist gagnaðila.
    Komi til uppsagnar samningsins skulu eignir Orkuveitu Reykjavíkur innan bæjarmarka Garðabæjar svo sem dreifikerfi, hús, dælustöðvar og hlutdeild í aðfærsluæðum utan bæjarmarka metnar af til þess bærum aðilum. Skal einn matsmanna tilnefndur af hvorum aðila og nái þeir ekki samkomulagi skal oddamaður tilnefndur af héraðsdómi Reykjavíkur. Niðurstaða meiri hluta matsmanna telst bindandi kaupsamningur fyrir báða. Skal matið miðast við endurstofnverð og hlutfall aldurs af áætluðum líftíma eignanna. Komi til uppsagnar skal semja sérstaklega um lagningu dreifikerfis í ný hverfi.

9. gr.

    Samningur þessi hefur í för með sér að Orkuveita Reykjavíkur verður framvegis ekki borgarstofnun og því er nauðsynlegt að breyta henni í félag. Borgarstjórn Reykjavíkur tekur ákvörðun um hvaða rekstrarform verður valið og mun félagið yfirtaka réttindi og skyldur borgarstjórnar Reykjavíkur skv. samningi þessum. Bæjarstjórn Garðabæjar er ljóst að fleiri sveitarfélög kunna að eignast hlut í Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. fylgiskjal II (viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Akraness, dags. 26. júní 2001) og III (samningur við Hafnarfjörð, dags. í dag).

10. gr.

    Samningur þessi tekur gildi 1. desember 2001 enda hafi þá eftirtöldum skilyrðum verið fullnægt.
     1.      Að samningurinn hafi verið samþykktur í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Garðabæjar.
     2.      Að samningurinn hafi verið samþykktur af iðnaðarráðherra, sbr. 1 gr.
     3.      Að rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið breytt og nauðsynlegar breytingar gerðar á lögum og reglugerðum sem af því kunna að leiða.

11. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. fellur samningurinn úr gildi ef óviðráðanlegar aðstæður (force majeure) hindra starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur að dómi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ef slíkar aðstæður skapast á hvorugur aðili bótarétt á hendur hinum.
    Mati borgarstjórnar skv. 1. mgr. má skjóta til dómstóla til breytingar eða staðfestingar.

12. gr.

    Rísi mál út af samningi þessum eða öðru samkomulagi aðila er á samningi þessum byggist skal reka það fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

13. gr.

    Af samningi þessum eru gerð tvö samhljóða frumrit, sitt handa hvorum aðila.

Reykjavík, 21. september 2001


F.h. borgarstjórnar Reykjavíkur, F.h. bæjarstjórnar Garðabæjar,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.     Ásdís Halla Bragadóttir.


Vottar:




Fylgiskjal V.


Fylgiskjal I með samningum Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og Garðabæjar, dags. 21. september 2001.


    Samkomulag er um að Hafnarfjörður eigi framvegis 1% af Orkuveitu Reykjavíkur en Garðabær ½%. Byggjast þessir eignarhlutar á endurreikningi á arðshluta fyrri ára, sbr. töflur 1, 2, 3 og 4 með fylgiskjali þessu. Jafnframt er samkomulag um að virði arðshlutdeildar sveitarfélaganna til framtíðar sé metin tvöfalt á við uppsafnaðan arð. Uppsafnaður arður Hafnarfjarðar með verðbótum og vöxtum nemur samtals 110,969 m.kr. en Garðabæjar 57,539 m.kr. Samkvæmt ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur árið 2000 er eigið fé Orkuveitunnar 33923 m.kr.
    Hlutdeild Hafnarfjarðar verður 110,969 x 3 /33923 = 0,98%, sem verður 1%.
    Hlutdeild Garðabæjar verður 57,539 x 3 /33923 = 0,51%, sem verður 0,5%.

Reykjavík, 21. september 2001


    F.h. Reykjavíkurborgar, F.h. Hafnarfjarðarbæjar,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Magnús Gunnarsson.

F.h. Garðabæjar,

Ásdís Halla Bragadóttir.

              
                   

Fylgiskjal VI.


VILJAYFIRLÝSING.

    Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Borgarbyggðar lýsa hér með yfir að Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Borgarness og 21,3% eignarhlutur Borgarbyggðar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði sameinuð frá og með 1. janúar 2002 í Orkuveitu Reykjavíkur sf. Aðilar eru sammála um eftirfarandi:
          Eignarhlutur Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur sf. verður 0,75% og er þar byggt á matsskýrslu Deloitte & Touche hf., dags. 10. 12. 2001.
          Sama gjaldskrá og þjónusta verði í Borgarnesi og í Reykjavík. Á öðrum svæðum í Borgarbyggð verður leitast við að veita góða þjónustu á hagstæðu verði.
          Starfsmönnum fyrirtækjanna verði tryggð áframhaldandi störf hjá sameinuðu fyrirtæki. Í þeirri vinnu sem framundan er við úrvinnslu málsins verður rætt við þá starfsmenn sem breytingar þessar snerta og haft samráð við þá um þau atriði sem að þeim snúa.
          Á grundvelli framangreinds verði gert nánara samkomulag um útfærslu einstakra atriða.
    Ástæða þess að ákveðið hefur verið að sameina rekstur þessara fyrirtækja er að framundan eru breytingar í orkumálum sem nauðsynlegt er að bregðast við auk þess sem Hvalfjarðargöng hafa aukið mjög samskipti byggðar á höfuðborgarsvæðinu og byggðar norðan Hvalfjarðar og í Borgarfirði. Markmið breytinganna eru eftirfarandi:
          Að sameinað fyrirtæki verði stærra og öflugra í breyttu samkeppnisumhverfi.
          Að hagræðing verði í rekstri.
          Að skapa ný sóknarfæri í sölu orku á veitusvæði fyrirtækisins.
          Að efla rekstraröryggi veitukerfa og auka þjónustu.
          Orkuveitan mun í framhaldi sameiningar leggja áherslu á að kannaðir verði möguleikar þess að veita þjónustu í hinum dreifðari byggðum Borgarbyggðar.
          Kannað verði í framhaldi sameiningar með aðkomu Orkuveitunnar að rekstri vatnsveitu í Borgarbyggð. Stefnt er að því að ákvarðanir um slíkt liggi fyrir á árinu 2002.

Borgarnesi, 10. desember 2001


F.h. Borgarbyggðar,
með fyrirvara um samþykki
bæjarstjórnar Borgarbyggðar:
F.h. Reykjavíkurborgar, með fyrirvara um samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur:
_____________________________ ______________________________
Stefán Kalmansson, bæjarstjóri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri.
_____________________________ ______________________________
Guðrún Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar. Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.




Fylgiskjal VII.


VILJAYFIRLÝSING.

    Borgarstjórn Reykjavíkur og hreppsnefnd Borgarfjarðarsveitar lýsa hér með yfir að Orkuveita Reykjavíkur og 4,3% eignarhlutur Borgarfjarðarsveitar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði sameinuð frá og með 1. janúar 2002 í Orkuveitu Reykjavíkur sf. Aðilar eru sammála um eftirfarandi:
          Eignarhlutur Borgarfjarðarsveitar í Orkuveitu Reykjavíkur sf. verður 0,17% og er þar byggt á matsskýrslu Deloitte & Touche hf., dags. 10. 12. 2001.
    Ástæða þessarar aðgerðar er að framundan eru breytingar í orkumálum, sem nauðsynlegt er að bregðast við auk þess sem Hvalfjarðargöng hafa aukið mjög samskipti byggðar á höfuðborgarsvæðinu og byggðar norðan Hvalfjarðar og í Borgarfirði. Markmið breytinganna eru eftirfarandi:
          Að sameinað fyrirtæki verði stærra og öflugra í breyttu samkeppnisumhverfi.
          Að hagræðing verði í rekstri.
          Að skapa ný sóknarfæri í sölu orku á veitusvæði fyrirtækisins.
          Að efla rekstraröryggi veitukerfa og auka þjónustu.
          Orkuveitan mun í framhaldi sameiningar leggja áherslu á að kannaðir verði möguleikar þess að veita þjónustu í hinum dreifðari byggðum Borgarfjarðarsveitar.

Borgarnesi 10. desember 2001


F.h. Borgarfjarðarsveitar,
með fyrirvara um samþykki
hreppsnefndar Borgarfjarðarsveitar:
F.h. Reykjavíkurborgar, með fyrirvara um samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur:
_____________________________ ______________________________
Ríkharð Brynjólfsson, oddviti. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri.
______________________________
Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.




Fylgiskjal VIII.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavíkur.

    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina hvaða reglur eiga að gilda um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.