Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 585  —  373. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz,


Árni R. Árnason, Gunnar Birgisson, Ásta Möller.


1. gr.


    7. gr. laganna orðast svo:
    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Er rekstur stöðvanna heimill einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur eru gerðar um útbúnað sóttvarna- og einangrunarstöðva.
    Ef umsækjandi um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvar uppfyllir allar kröfur og skilyrði sem gerð eru til útbúnaðar og reksturs sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal landbúnaðarráðherra gefa út rekstrarleyfi.
    Eigendur dýra og erfðaefnis greiða gjöld fyrir þjónustu sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt gjaldskrá er landbúnaðarráðherra setur. Við ákvörðun um gjaldskrá skal við það miðað að tekjur sóttvarna- og einangrunarstöðvar standi undir útgjöldum hennar, svo sem almennum rekstrarkostnaði, launakostnaði, leigugjöldum, fóðurkostnaði, lyfjakostnaði og dýralæknisþjónustu, kostnaði við sýnatökur og rannsóknir og opinberum gjöldum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum verði heimilt að starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar að uppfylltum þeim kröfum sem gerðar eru til útbúnaðar og reksturs slíkra stöðva. Ef umsækjandi um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðvar uppfyllir allar kröfur og skilyrði sem gerð eru til útbúnaðar og reksturs sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal landbúnaðarráðherra gefa út rekstrarleyfi. Samkvæmt gildandi lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, er hins vegar einungis kveðið á um að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna.
    Landbúnaðarráðuneytið stofnsetti sóttvarnastöð fyrir nautgripi í Hrísey árið 1973 og sá embætti yfirdýralæknis um rekstur hennar í umboði ráðuneytisins. Sóttvarnastöðin var leigð Landssambandi kúabænda l. janúar 1994 sem síðan hefur annast rekstur hennar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1993 var Svínaræktarfélagi Íslands heimilað að reisa sóttvarnastöð fyrir svín í Hrísey og hefur félagið sjálft annast rekstur stöðvarinnar undir eftirliti yfirdýralæknis. Árið 1990 stofnsetti landbúnaðarráðuneytið einangrunarstöð fyrir hunda, ketti og önnur gæludýr í Hrísey. Fyrstu árin annaðist embætti yfirdýralæknis rekstur stöðvarinnar í umboði ráðuneytisins en síðari ár hefur reksturinn verið í höndum einkaaðila undir eftirliti yfirdýralæknis samkvæmt sérstökum samningi.
    Á 126. löggjafarþingi var lögum um innflutning dýra breytt á þann hátt að ákvæði laganna voru aðlöguð þeirri framkvæmd á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem komist hefur á, eins og rakið var hér að framan, og samkvæmt því getur landbúnaðarráðherra falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 175/2000 kemur m.a. fram að áhersla er lögð á að með þeirri breytingu væri á engan hátt slakað á kröfum um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um.
    Að mati flutningsmanna er framangreind heimild ráðherra hins vegar of matskennd og tryggir ekki að aðilum sem eru í stakk búnir til að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar og uppfylla öll skilyrði laganna verði veitt rekstrarleyfi. Því er hér lagt til að kveðið sé skýrt á um það í lögunum að ef umsækjendur um starfrækslu slíkra stöðva uppfylla þær kröfur og skilyrði sem lögin og reglur settar samkvæmt þeim setja skuli ráðherra veita rekstrarleyfi. Rétt er að leggja áherslu á að með frumvarpinu er á engan hátt slakað á þeim kröfum sem gera skal til þeirra sem reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Hins vegar þykir eðlilegt út frá jafnræðissjónarmiðum að allir sitji við sama borð þegar kemur að rekstri framangreindra stöðva. Enn fremur má benda á sjónarmið um atvinnufrelsi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur sú grundvallarregla að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa nema lög setji atvinnufrelsinu skorður sökum almannahagsmuna. Ráðherra hefur þegar sýnt í framkvæmd að einkaaðilum er fyllilega treystandi til að sjá um rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva og það sjónarmið hefur löggjafinn viðurkennt, sbr. lög nr. 175/2000. Því er með frumvarpinu lagt til að ráðherra skuli veita rekstrarleyfi að öllum skilyrðum uppfylltum í stað þess að honum sé það heimilt samkvæmt gildandi lögum.