Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 619  —  340. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um íslensku friðargæsluna.

     1.      Hversu margir sóttu um að komast á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar, sbr. auglýsingu þar um í september sl.? Hversu margir umsækjendanna voru konur og hversu margir karlar?
    Alls sóttu 238 manns um að komast á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar, þar af 162 karlar og 76 konur.

     2.      Hvenær mun viðbragðslisti íslensku friðargæslunnar liggja fyrir og hversu margir einstaklingar verða á honum?

    Allir umsækjendur hafa fengið skriflegt svar frá utanríkisráðuneytinu. Að undangengnum viðtölum hafa 95 einstaklingar verið valdir til að vera á viðbragðslistanum, þar 59 karlar og 36 konur. Auk þeirra er gert ráð fyrir að þeir lögreglumenn sem gefið hafa kost á sér til friðargæslustarfa verði á viðbragðslistanum en val á lögreglumönnum í friðargæslu fer fram hjá embætti ríkislögreglustjóra. Viðbragðslisti íslensku friðargæslunnar liggur því fyrir. Tekið skal fram að breytingar geta orðið á viðbragðslistanum frá degi til dags ef einstaklingar óska eftir því að vera teknir af listanum og ef nýir bætast við að undangengnum umsóknum. Auk þess er unnið að því að tengja með formlegum hætti íslensku alþjóðabjörgunarsveitina við viðbragðslista íslensku friðargæslunnar. Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin var sett á stofn þann 24. mars árið 2000 með samstarfssamningi utanríkisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins/AVRIK og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og starfar hún í umboði íslenska ríkisins að sérhæfðri neyðaraðstoð á erlendri grundu.

     3.      Hvað felst í því að setja nafn sitt á viðbragðslistann og hvaða skilyrði þarf fólk að uppfylla til þess að komast á hann?

    Einstaklingar sem valdir hafa verið á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar hafa gefið kost á sér til friðargæslustarfa á vegum íslenskra stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að úr þessum hópi verði valdir einstaklingar til að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegum friðargæsluaðgerðum. Miðað er við að þeir einstaklingar sem fá tilboð um að fara til friðargæslustarfa fái 1–3 mánaða fyrirvara á brottför og starfi erlendis í 6–12 mánuði í senn, að jafnaði. Einstaklingar á viðbragðslistanum eru ekki skuldbundnir til að fara í friðargæslustörf bjóðist þeim það. Að sama skapi ábyrgist utanríkisráðuneytið ekki að öllum einstaklingum á viðbragðslistanum gefist kostur á að fara til starfa, enda er það háð aðstæðum á alþjóðavettvangi, samsetningu viðbragðslistans, fjárveitingum o.fl.. Gert er ráð fyrir að einstaklingar á viðbragðslista taki þátt í undirbúningsþjálfun á Íslandi.
    Til að komast á viðbragðslistann þurftu umsækjendur í fyrsta lagi að uppfylla þau skilyrði sem fram komu í auglýsingu utanríkisráðuneytisins. Lágmarkskröfur voru að umsækjendur þurftu að hafa náð 25 ára aldri; hafa háskólapróf, aðra sérmenntun og/eða víðtæka þekkingu og reynslu; búa yfir mjög góðri enskukunnáttu og hæfni í mannlegum samskiptum og þolgæði undir álagi; og kunna öguð og sjálfstæð vinnubrögð. Í öðru lagi var borin saman menntun og starfsreynsla, alþjóðleg reynsla, tungumálakunnátta og önnur atriði sem fram komu á umsóknareyðublaði, þegar valinn var sá hópur sem boðaður var í viðtal. Í viðtölum var m.a. rætt um ástæður umsóknar, litið til framkomu og félagslegra hæfileika umsækjenda og farið nánar yfir tungumálakunnáttu, sérfræðiþekkingu og getu til að standast áreiti og álag. Frekara val á milli umsækjenda mun fara fram í fyrirhugaðri undirbúningsþjálfun þar sem litið verður til frammistöðu umsækjenda.

     4.      Hvernig fer þjálfun væntanlegra friðargæsluliða fram og hver mun hafa yfirumsjón með henni?

    Gert er ráð fyrir að þjálfun væntanlegra friðargæsluliða verði tvíþætt. Annars vegar fái allir einstaklingar á viðbragðslistanum ákveðna grunnþjálfun hérlendis og hins vegar fái einstaklingar á leið til starfa sérhæfða þjálfun hjá viðkomandi alþjóðastofnunum eða samstarfsþjóðum, eins og verið hefur.
    Gert er ráð fyrir að grunnþjálfunin hérlendis verði þrískipt. Í fyrsta lagi verður fjallað á fræðilegan hátt um friðargæslu á vegum alþjóðastofnana, þróun friðargæslustarfsins, þátt frjálsra félagasamtaka, mannréttindamál, mannúðarmál og neyðaraðstoð og fleiri málefni tengd friðargæslu. Markmið undirbúningsnámskeiðsins er að allir umsækjendur fái heildarmynd af friðargæslu alþjóðasamfélagsins og þeim ólíku störfum sem þar eru unnin af ólíkum stofnunum. Gert er ráð fyrir að fyrirlesarar verði bæði innlendir og erlendir og að námskeiðið taki 1–2 daga. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að verðandi friðargæsluliðar fái ákveðna öryggisþjálfun um hegðun á átakasvæðum sem embætti ríkislögreglustjóra er ætlað að sinna. Í þriðja lagi er stefnt að því að veita viðeigandi sálrænan undirbúning og mun utanríkisráðuneytið leita til fagaðila í því skyni. Við undirbúning þessa hefur utanríkisráðuneytið kannað hvernig sambærilegum námskeiðum er háttað á Norðurlöndunum og í Þýskalandi, og haft samráð við þjálfunardeildir viðkomandi alþjóðastofnana. Stefnt er að því að undirbúningurinn hérlendis verði í samræmi við viðurkennda þjálfunarstaðla.
    Þjálfun erlendis mun, eins og hingað til, fara fram á vegum viðkomandi alþjóðastofnana eða samstarfsþjóða. Þannig munu friðargæsluliðar sem sendir eru til starfa á vegum ÖSE fá sérhæfða þjálfun á þeirra vegum, friðargæsluliðar á vegum NATO fá viðeigandi þjálfun hjá þeim o.s.frv. Þá er í skoðun hvort þátttaka íslensku friðargæslunnar í almannavarnaæfingunni Samverði 2002, þar sem m.a. er æfð samvinna borgaralegra sérfræðinga og herliðs, komi til greina.

     5.      Hversu margir starfsmenn í utanríkisráðuneytinu starfa að málefnum friðargæslunnar?
    Umsjón með íslensku friðargæslunni er í höndum sérstakrar einingar á alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Einn starfsmaður sinnir íslensku friðargæslunni sérstaklega, í nánu samráði við skrifstofustjóra, þá starfsmenn sem sinna málefnum Sameinuðu þjóðanna, NATO og ÖSE, og fastanefndir Íslands hjá þessum alþjóðastofnunum. Auk þess sér almenn skrifstofa utanríkisráðuneytisins um bókhald, launagreiðslur, tryggingar og fleiri umsýsluþætti vegna starfsmanna í friðargæslu. Gert er ráð fyrir að á árinu 2003 fáist fjárveiting til ráðningar annars starfsmanns til að sinna íslensku friðargæslunni, sjá svar við 6. lið.

     6.      Hver er ráðgerður kostnaður íslenska ríkisins við friðargæsluna næstu tvö ár og hvernig skiptist hann?

    Fjárveiting til friðargæslu á árinu 2002 nemur 208,7 millj. kr. samkvæmt fjárlögum 2002, þar af renna 135,5 til íslensku friðargæslunnar og 73,2 millj. kr. til marghliða friðargæsluverkefna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir að um 125,5 millj. kr. af fjárveitingunni til íslensku friðargæslunnar verði kostnaður af útsendingu allt að 20 starfsmanna (laun, ferðakostnaður o.fl.) og að annar kostnaður nemi 10,0 millj. kr. (námskeiðahald, alþjóðasamstarf og önnur umsýsla). Taka ber fram að fyrirhugaðri aukningu fjárveitinga til íslensku friðargæslunnar á árinu 2002 að upphæð 45,0 millj. kr. var frestað í meðferð fjárlaga. Það mun valda því að efling þátttöku Íslands í friðargæslu á næsta ári verður hægari en áður var áætlað. Verði afgangur af rekstri íslensku friðargæslunnar á árinu 2001 mun hann koma til hækkunar á fjárheimild næsta árs og renna til þess að fjölga starfsmönnum örar en núverandi fjárveiting heimilar.
    Fjárveiting til friðargæslu á árinu 2003 er áætluð 305,5 millj. kr. samkvæmt ríkisstjórnarákvörðun frá 7. nóvember árið 2000. Sú ákvörðun gerir ráð fyrir eflingu þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu þannig að á árinu 2003 geti allt að 25 íslenskir friðargæsluliðar verið að störfum erlendis í senn. Gert er ráð fyrir að 245,5 millj. kr. af fjárveitingunni renni til íslensku friðargæslunnar en 60,0 millj. kr. til marghliða friðargæsluverkefna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Af fjárveitingunni til íslensku friðargæslunnar er gert ráð fyrir að áætlaður kostnaður af útsendingu starfsmanna nemi 225,0 millj. kr., kostnaður við ráðningu starfsmanns 6,0 millj. kr. og annar kostnaður nemi 14,5 millj. kr.
    Tekið er fram að breyting hefur verið gerð á framsetningu fjárveitinga til friðargæslu í fjárlögum 2002. Búinn hefur verið til sérstakur liður, 03-401-187 íslenska friðargæslan, vegna kostnaðar af útsendingu íslenskra sérfræðinga til þátttöku í fjölþjóðlegum friðargæsluaðgerðum. Framlög til marghliða friðargæsluverkefna á vegum Sameinuðu þjóðanna eru áfram á sama fjárlagalið, 03-401-185 Friðargæsla.

     7.      Er ráðgert að efna til samstarfs með Norðurlandaþjóðunum um friðargæslu?

    Við undirbúning að stofnun íslensku friðargæslunnar var haft samráð við önnur Norðurlönd, einkum þá aðila í Noregi og Danmörku sem starfa að útsendingu borgaralegra sérfræðinga til friðargæslu. Í gildi er samningur á milli Íslands og Noregs um útsendingu hjúkrunarsveitar með norska hernum til aðgerða á vegum NATO. Almenn afstaða utanríkisráðuneytisins er að náið samstarf við Norðurlöndin um friðargæslu, hvað varðar útsendingu starfsfólks, stefnumótun og þjálfun, sé æskilegt. Möguleikar á því að efna til nánara samstarfs eru ávallt í skoðun.

     8.      Hvernig er verksvið íslensku friðargæslunnar skilgreint innan þeirra alþjóðastofnana og samtaka sem í hlut eiga, svo sem Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins?
    Verksvið íslensku friðargæslunnar hefur verið skilgreint á þann hátt að borgaralegir sérfræðingar á hennar vegum geti starfað að hefðbundinni friðargæslu, uppbyggingarstarfi, mannúðarmálum og neyðaraðstoð, á vegum viðeigandi alþjóðastofnana. Verksviðið er því vítt og spannar allt frá löggæslu og hjúkrunarstörfum til verkfræðilegrar uppbyggingar, fjölmiðlastarfs og brýnna mannúðarverkefna, svo dæmi sé nefnd. Íslenska friðargæslan hefur verið kynnt á vettvangi alþjóðastofnana sem skrá yfir allt að 100 borgaralega sérfræðinga sem búa yfir reynslu og þekkingu til friðargæsluverkefna. Stefnt er að því að á árinu 2003 geti íslensk stjórnvöld sent allt að 25 einstaklinga til friðargæslustarfa erlendis, svo sem lækna og hjúkrunarfólk, lögreglumenn, björgunarstarfsmenn, verkfræðinga og tæknimenn, lögfræðinga, fjölmiðlamenn og fleiri borgaralega sérfræðinga, m.a. íslensku alþjóðabjörgunarsveitina, eftir því sem þarfir alþjóðastofnana krefjast.