Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 644  —  263. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um truflanir á fjarskiptum vegna raflína.

     1.      Hvar á landinu koma fram truflanir á fjarskiptum vegna virkra rafgirðinga (landsvæði eða býli)?
    Frá því að Póst- og fjarskiptastofnun var komið á fót í apríl 1997 hafa stofnuninni ekki borist kvartanir um truflanir á fjarskiptum vegna rafgirðinga, þrátt fyrir að rafgirðingar séu í notkun víðs vegar um landið.
    Hugsanleg ástæða þess að stofnuninni hafa ekki borist neinar kvartanir af þessu tagi frá því að henni var komið á fót kann að vera sú að þegar truflanir komi fram á talsímaþjónustu beini símanotendur kvörtunum sínum til þess aðila sem veitir þjónustuna. Þó er algengt að almenningur leiti til stofnunarinnar vegna samskipta sinna og rekstrarleyfishafa í fjarskiptaþjónustu. Starfsmenn fjarskiptafyrirtækjanna verða fyrstir varir við truflanir sem verða í stofnkerfum þeirra og ekki er líklegt að þeir beini formlegum erindum til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna slíkra tilvika, þó að líklegt sé að stofnuninni bærust upplýsingar um þrálátar staðbundnar truflanir. Samkvæmt upplýsingum frá Landssíma Íslands hefur verulega dregið úr truflunum í fjarskiptakerfum af þessum sökum, sennilega fyrst og fremst vegna þess að betur er gengið frá girðingunum en áður var gert.

     2.      Í hve mörgum tilfellum koma truflanirnar fram vegna veikra fjarskiptasendinga?
    Styrkur merkis á línum í jarðstrengjum er staðlaður í þeim enda línunnar þar sem merkið er matað inn í línuna. Eftir því sem merkið verður veikara með aukinni fjarlægð frá upphafsstað er meiri hætta á að truflun hafi áhrif á fjarskiptin. Á talsímalínum þarf hins vegar að vera fyrir hendi ákveðinn lágmarksstyrkur í fjarenda þar sem símtæki er tengt og dregur það nokkuð úr áhrifum hugsanlegra rafmagnstruflana. Nokkuð öðru gegnir um þráðlausar sendingar þar sem merki sem tekið er á móti eru oft mjög dauf og þess vegna viðkvæm fyrir truflun. Vaxandi hluti stofnneta fjarskiptaneta byggist á ljósleiðaratækni sem er ekki næm fyrir truflunum í rafsegulsviði sem kynnu að stafa af rafgirðingum. Ljósleiðaranet Landssímans, Línu.nets og Fjarska er nú líklega u.þ.b. 4.500 km á landinu öllu og því ljóst að verulegur hluti fjarskiptasendinga er ónæmur fyrir rafgirðingum.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki svör við því í hversu mörgum tilfellum truflanir koma fram vegna veikra fjarskiptamerkja þar sem kvartanir vegna truflana af þessum völdum hafa ekki borist.

     3.      Í hve mörgum tilfellum koma fram truflanir vegna legu strengjanna, staðsetningar á jarðskautum rafgirðinganna eða styrks viðnámsins? Sundurliðun óskast.
    Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki borist neinar kvartanir um framangreindar truflanir og hefur því ekki upplýsingar um tíðni slíkra tilfella sé um slíkt að ræða.

     4.      Hvernig hagar Landssíminn upplýsingum til bænda um legu jarðstrengja?
    Ef Landssíminn leggur jarðstrengi yfir eignarland bænda er það alltaf gert í samráði við viðkomandi bónda og reynt að taka tillit til sjónarmiða hans um legu strengjanna. Almennt er lega þeirra merkt með staurum sem sýna hvar jarðstrengurinn er staðsettur nema bóndinn óski sérstaklega eftir að ekki séu settir merkistaurar þar sem þeir væru til óþæginda fyrir hann. Hann fær síðan uppgefið hvert hann eigi að snúa sér til að fá nánari upplýsingar. Nú er hins vegar unnið að því að koma nánari upplýsingum um staðsetningu lagna í sveitarfélagi til viðkomandi sveitarstjórna.

     5.      Hvernig koma truflanir vegna rafgirðinga fram í fjarskiptum gegnum símstrengi, hvaða óþægindum valda truflanirnar í daglegum samskiptum fólks og atvinnu?
    Áhrif truflana geta verið ýmiss konar. Á koparlínu í talsímaþjónustu eru áhrifin aðallega brak og brestir sem verða til þegar spennupúls fer út á girðingu. Á fjölsímakerfum í strengjum, t.d. PCM-kerfum, kunna áhrifin að vera fleiri bitavillur sem hafa í för með sér truflanir bæði á talsíma og gagnaflutningi. Ef truflanir koma inn á strengina síðasta kaflann heim til notenda heyrast venjulega stöðugir smellir með misjafnlega miklum styrk. Ef truflunin kemur hins vegar inn á strengi þar sem fjölrásabúnaðurinn er getur afleiðingin orðið að sambandslaust verður við alla notendur á svæðinu.
    Telja verður að veruleg óþægindi séu ekki fyrir hendi nema í alverstu tilfellum.

     6.      Verða íbúar þeirra svæða/býla sem búa við truflanir á fjarskiptasendingum fyrir auknum útgjöldum vegna þessa?
    Fjarskiptayfirvöld hafa engar upplýsingar um að rekja megi beinan kostnað notenda á einhverju svæði til truflana frá rafgirðingum. Það má hins vegar reikna með talsverðum kostnaði fjarskiptafyrirtækja sem kvartanir beinast til og stafar af vinnu við að staðsetja truflanavaldinn.

     7.      Hvernig eru fjarskiptalagnir sem lagðar eru um lönd bænda varðar (skermaðar)?
    Fjarskiptalagnir í sveitum eru ekki neitt sérstaklega varðar eða skermaðar hvorki til að verjast utanaðkomandi truflunum né skemmdum af völdum utanaðkomandi áverka.
    Fjarskiptastrengir eru hins vegar alltaf þannig byggðir upp að áhrif af völdum utanaðkomandi rafsviðs eru gerð eins lítil og kostur er. Strengir í dreifbýli eru flestir plægðir niður á 60–80 cm dýpi og ekki er beitt neinum sérstökum aðferðum til að hlífa strengjunum umfram það nema þar sem sérstakar ástæður kalla á það.

     8.      Hvaða aðgerðir eru í undirbúningi til að koma í veg fyrir áframhaldandi truflanir á fjarskiptum gegnum símalínur?
    Ekki er vitað til að neinna sérstakra aðgerða sé þörf eins og er. Rafmagnseftirlit ríkisins gaf út leiðbeiningar um uppsetningu rafgirðinga og frágang meðan það var og hét. Þar sem truflanir koma frá rafgirðingum og raflínum eru það yfirvöld á sviði rafmagnsmála sem bera ábyrgð á því að komið sé í veg fyrir truflanir sem stafa af biluðum búnaði. Það er því tæplega ástæða til að setja nýjar reglur heldur leggja áherslu á að einstakir girðingareigendur, sem hafa ekki hirt um að hafa vírinn vel einangraðan og/eða verið með bilaðan spennugjafa, aftengi girðinguna þar til úrbætur hafi verið gerðar. Að öðru leyti skal tekið fram að það er hagur fjarskiptafyrirtækjanna að bæta þjónustuna við viðskiptavini sína og því hefur stórfelld uppbygging fjarskiptaneta átt sér stað á undanförnum árum.