Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 962  —  523. mál.




Svar



iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um frumvarp um þróunarsjóð tónlistariðnaðarins.

     1.      Hvar er statt frumvarp um þróunarsjóð tónlistariðnaðarins sem nefnd á vegum ráðherra vann og skilaði af sér í árslok 2000?
    Fjölmargir, sem að tónlistarmálum koma, hafa vakið athygli iðnaðarráðuneytisins á því að til þess að íslensk tónlist nái tilætluðum árangri á erlendum mörkuðum þurfi ríkisvaldið að styðja hana beint og óbeint. Markaðssetning tónlistar sé ákaflega kostnaðarsöm og sérhæfð grein sem íslenskir tónlistarmenn eða umboðsmenn þeirra ráði ekki við á fullnægjandi hátt. Einnig hefur verið bent á að víða erlendis tíðkist að styðja myndarlega við þessa starfsemi enda sé ávinningurinn sérstaklega mikill þegar vel tekst til. Þessu til stuðnings hefur verið bent á velgengni Bjarkar Guðmundsdóttur.
    Á grundvelli þessa skipaði iðnaðarráðherra starfshóp árið 1996 og annan árið eftir til að kanna rekstrarumhverfi framleiðenda tónlistar hér á landi og hvort þörf væri á sérstöku útflutningsátaki fyrir greinina. Í greinargerðum beggja hópanna kemur fram að nauðsynlegt sé að stefna að því að íslenskur tónlistariðnaður fái opinbera og almenna viðurkenningu sem atvinnugrein með ótakmarkaða vaxtarmöguleika og að brýnt sé að veita tónlist sem ætluð er alþjóðlegum markaði opinbera fyrirgreiðslu og stuðning. Að fengnu þessu áliti var frumvarp til laga um þróunarsjóð tónlistariðnaðarins samið.
    Með frumvarpinu var lagt til að stofnaður yrði sérstakur sjóður í eigu ríkisins, sem nefndist þróunarsjóður tónlistariðnaðarins. Lagt var til að starfssvið hans yrði þríþætt:
     1.      Að styðja við innviði tónlistariðnaðarins og efla samstarf rétthafa, þ.e. útgefenda, flytjenda og höfunda.
     2.      Að styrkja verkefni sem lúta að þróun og markaðssetningu íslenskrar tónlistar sem ætluð er alþjóðlegum markaði.
     3.      Að hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra sem hyggja á markaðssókn erlendis.
    Gert var ráð fyrir að sjóðnum yrði heimilt að veita styrki sem næmu allt að helmingi kostnaðar við einstök verkefni. Forsenda styrkveitinga skyldi vera að fagleg undirbúningsvinna hefði átt sér stað. Ekki var um að ræða háar styrkupphæðir því að hver styrkur átti aldrei að vera hærri en 100.000 evrur á þriggja ára tímabili. Þessi upphæð miðaðist við svokallaða de minimis reglu ESB. Lagt var til að fimm manna stjórn annaðist úthlutun úr sjóðnum en tekjur hans yrðu m.a. árlegt framlag úr ríkissjóði sem í upphafi var lagt til að yrði 50 millj. kr.
    Frumvarpið var fullgert í mars árið 2000.

     2.      Hefur frumvarpið verið lagt fyrir ríkisstjórn?
    Frumvarpið var lagt fyrir ríkisstjórn í mars 2000.

     3.      Var frumvarpið unnið í samvinnu við menntamálaráðuneytið?
    Frumvarpið var ekki unnið með beinni aðkomu menntamálaráðherra. Málið hafði aftur á móti verið lengi í vinnslu og efni þess var mjög mörgum kunnugt, þ.m.t. embættismönnum menntamálaráðuneytisins.