Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 973  —  620. mál.




Frumvarp til laga



um vörur unnar úr eðalmálmum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Gildissvið, skilgreiningar og almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til framleiðslu á vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni og til innflutnings, kaupa og sölu á þeim.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Ábyrgðarstimplar: Stimplar sem eru notaðir til að auðkenna vörur unnar úr eðalmálmum. Greinast þeir í nafnastimpla, hreinleikastimpla, staðarmerki og ártöl.
     2.      Nafnastimpill: Stimpill sem er samþykktur, merktur og skráður hjá Löggildingarstofu og auðkennir framleiðanda eða innflytjanda vöru sem unnin er úr eðalmálmum þannig að hægt er að rekja uppruna hennar.
     3.      Hreinleikastimpill: Stimpill sem sýnir skýrlega hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru.
     4.      Eftirlitsstimpill: Opinber stimpill sem staðfestir hreinleika eðalmálma.
     5.      Eðalmálmar: Gull sem inniheldur 375 þúsundhluta eða meira af hreinu gulli, silfur sem inniheldur 800 þúsundhluta eða meira af hreinu silfri, platína sem inniheldur 850 þúsundhluta eða meira af hreinni platínu og palladíum sem inniheldur 500 þúsundhluta eða meira af hreinu palladíum.

3. gr.
Yfirstjórn.

    Viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Notkun ábyrgðarstimpla.
4. gr.
Merkingar á vörum.

    Ábyrgðarstimpla má eingöngu nota á vörur sem unnar eru úr eðalmálmum.
    Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni skulu bera hreinleikastimpil og nafnastimpil og er óheimilt að flytja slíkar vörur inn til landsins, selja þær eða bjóða til sölu nema þær beri slíka stimpla.
    Vörur unnar úr eðalmálmum eða vörur sem líkjast þeim mega ekki bera stimpla sem líkjast svo stimplum samkvæmt lögum þessum að ruglingi geti valdið. Þó mega vörur ávallt bera stimpla sem heimilir eru á Evrópska efnhagssvæðinu.
    Vörur sem ekki teljast unnar úr eðalmálmum skv. 5. tölul. 2. gr. má ekki markaðssetja sem slíkar eða sem vörur úr gulli, silfri, platínu eða palladíum. Ef hlutfall gulls, silfurs, platínu eða palladíums er lægra en fram kemur í 5. tölul. 2. gr. má markaðssetja vöruna sem vöru sem inniheldur gull, silfur, platínu eða palladíum, enda komi skýrt fram að hlutfall þessara málma sé lægra en í eðalmálmum.

5. gr.
Ábyrgð.

    Framleiðandi vöru sem unnin er úr eðalmálmum ber ábyrgð á að varan sé stimpluð í samræmi við lög þessi. Ef um innflutta vöru er að ræða hvílir ábyrgðin á innflytjanda hennar.

6. gr.
Opinber staðfesting.

    Löggildingarstofa getur falið opinberum aðila eða faggiltri prófunarstofu að mæla og staðfesta hreinleika málma sem lög þessi taka til. Hún getur útbúið eftirlitsstimpil sem viðkomandi aðili notar til að staðfesta hreinleika málmanna. Framleiðandi og innflytjandi geta þá óskað eftir slíkri staðfestingu. Vara sem ber slíkan stimpil þarf ekki að bera nafnastimpil.

7. gr.
Vörur frá Evrópska efnahagssvæðinu.

    Hreinleikastimplar sem notaðir eru í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum hreinleikastimplum enda sé opinbert eftirlit með hreinleika eðalmálma sambærilegt eftirliti hér landi. Sama gildir um opinbera eftirlitsstimpla frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nafnastimplar frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum nafnastimplum ef unnt er að rekja hver framleiðandi vörunnar er og hann getur sýnt fram á rétt sinn til að nota nafnastimpilinn.

8. gr.
Undanþágur.

    Eftirtaldar vörur eru undanþegnar ákvæðum 4. gr. um stimplanotkun:
     1.      Vörur sem eingöngu eru sýnishorn eða eingöngu eru ætlaðar til notkunar á vörusýningu.
     2.      Vörur úr gulli, platínu eða palladíum sem vega minna en 1 gramm og vörur úr silfri sem vega minna en 3 grömm eða vörur sem eru svo smáar að ekki er mögulegt að stimpla þær.
     3.      Vörur sem nota á til tannlækninga eða í öðru lækningaskyni.
     4.      Hljóðfæri.
     5.      Mynt sem er í fullu gildi.
     6.      Vörur sem óumdeilanlega geta talist fornmunir.
    Heimilt er að undanþiggja aðrar vörur en þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. ákvæðum 4. gr. séu merkingar samkvæmt þeirri grein ekki taldar nauðsynlegar til að tryggja vernd neytenda.
    Ef ekki er unnt að stimpla vöru án þess að skaða hana má staðfesta hreinleika hennar með vottorði sem Löggildingarstofa eða aðili á hennar vegum, sbr. 6. gr., gefur út.

III. KAFLI
Eftirlit og gjaldtaka.
9. gr.
Eftirlit Löggildingarstofu.

    Löggildingarstofa skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Skal Löggildingarstofa halda skrá yfir alla nafnastimpla sem hún viðurkennir.
    Löggildingarstofu er heimilt með samningi að fela faggiltri skoðunarstofu, sem hlotið hefur faggildingu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa, að annast á sína ábyrgð markaðseftirlit með vörum sem lögin taka til.

10. gr.
Heimildir Löggildingarstofu.

    Löggildingarstofu og faggiltum skoðunarstofum, sbr. 2. mgr. 9. gr., er heimill aðgangur að starfsstöðvum framleiðenda, innflytjenda og seljenda vara sem unnar eru úr eðalmálmum vegna eftirlits á grundvelli laga þessara.
    Framleiðanda, innflytjanda og seljanda vöru er skylt að kröfu Löggildingarstofu og faggiltra skoðunarstofa, sbr. 9. gr., að veita allar upplýsingar og afhenda vörur til skoðunar eða prófunar, svo og hluti eða gögn sem nauðsynleg eru til að staðreyna að fylgt sé ákvæðum laga þessara.

11. gr.
Úrræði Löggildingarstofu.

    Komi í ljós að vara uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um í lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim getur Löggildingarstofa bannað sölu hennar. Sé um að ræða rökstuddan grun um brot getur Löggildingarstofa bannað sölu á viðkomandi vöru tímabundið.
    Framleiðandi, innflytjandi eða seljandi, eftir því sem við á, skal bera þann kostnað sem hlotist getur vegna aðgerða Löggildingarstofu skv. 1. mgr.
    Sé fyrirmælum Löggildingarstofu samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim ekki hlítt getur Löggildingarstofa fylgt þeim eftir með ákvörðun um dagsektir sem lagðar skulu á viðkomandi framleiðanda, innflytjanda eða seljanda eða fyrirsvarsmenn hans. Slíkar dagsektir mega nema allt að 50.000 kr. á sólarhring. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

12. gr.
Gjaldtaka.

    Fyrir viðurkenningu og skráningu á nafnastimpli, sbr. 2. tölul. 2. gr., skal greiða Löggildingarstofu 10.000 kr. Einstaklingar eða lögaðilar sem flytja inn, framleiða og/eða selja vörur sem falla undir þessi lög skulu greiða Löggildingarstofu 12.000 kr. á ári vegna eftirlits stofnunarinnar samkvæmt lögunum, auk kostnaðar vegna sýnatöku og greiningar sýna. Ef sami einstaklingur eða lögaðili hefur fleiri en eina starfsstöð skal hann greiða gjald vegna hverrar starfsstöðvar. Gjaldið skal greitt 1. febrúar ár hvert fyrir síðasta almanaksár. Ef eftirlitsskyldur aðili hefur starfsemi á gjaldárinu skal gjaldið ákvarðað í hlutfalli við þann tíma sem starfsemin hefur varað á árinu. Aðför má gera til fullnustu kröfum vegna gjaldsins án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar. Gjöld samkvæmt þessari málsgrein skulu renna beint til Löggildingarstofu.
    Leiði eftirlit í ljós að vörur uppfylla ekki skilyrði laga þessara greiðir viðkomandi framleiðandi, innflytjandi eða seljandi allan útlagðan kostnað sem hlýst af nauðsynlegri viðbótarrannsókn, svo sem kostnað við sýnatöku og greiningu sýna, ferðakostnað og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið.
    Sá sem óskar staðfestingar á hreinleika málma, sbr. 6. gr., skal greiða þeim er þjónustuna veitir gjald sem nemur þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna, svo sem vegna tækjakosts og mannafla.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
13. gr.
Viðurlög.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við brotinu samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á lögunum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans.

14. gr.
Reglugerð.

    Viðskiptaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laganna. Þar má m.a. mæla fyrir um hvernig stimplar samkvæmt lögunum skuli notaðir, gerð þeirra og útlit, kröfur til hreinleika málma, heimild til að blanda saman eðalmálmum og öðrum málmum eða efnum við framleiðslu á vörum og notkun hreinleikastimpla á slíkar vörur, notkun íblöndunarefna og eftirlit.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að settar verði reglur um merkingar og eftirlit með vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni en engar slíkar reglur eru í gildandi löggjöf. Tilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að vernda neytendur með því að tryggja frekar en nú er gert að sú vara sem þeim er boðin sé í samræmi við lýsingu seljenda. Í öðru lagi er frumvarpinu ætlað að tryggja að vörur sem unnar eru úr eðalmálmum á Íslandi fáist markaðssettar í öðrum löndum. Það er krafa í mörgum nágrannaríkja okkar að vörur unnar úr eðalmálmum séu merktar samkvæmt opinberum reglum. Haustið 2000 fór Félag íslenskra gullsmiða þess formlega á leit við viðskiptaráðuneytið að það ynni að lausn á þeim vanda sem skortur á reglum á þessu sviði veldur íslenskum gullsmiðum við útflutning. Í framhaldinu var unnið að þessu frumvarpi í viðskiptaráðuneytinu í samráði við Félag íslenskra gullsmiða og Löggildingarstofu.

II. Löggjöf á Norðurlöndum.

    Löggjöf um eftirlit með eðalmálmum er í gildi annars staðar á Norðurlöndum. Í þeirri löggjöf hafa verið settar reglur til samræmis við alþjóðlegan samning um eftirlit með og merkingar á vörum unnum úr eðalmálmum frá 1972 (Vínarsamningurinn) sem löndin eru aðilar að. Kveða lögin m.a. á um hvað skuli teljast til eðalmálma, hvernig beri að merkja vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni, eftirlit með því að reglum laganna sé fylgt og kröfur sem gerðar eru til innfluttra vara úr eðalmálmum. Við smíði þessa frumvarps var fyrst og fremst höfð hliðsjón af danskri og sænskri löggjöf.

1. Vínarsamningurinn.
    Samningurinn var undirritaður árið 1972 af Austurríki, Finnlandi, Noregi, Portúgal, Svíþjóð, Sviss og Stóra-Bretlandi, sem þá voru öll innan EFTA. Síðar hafa Danmörk, Írland og Tékkland bæst við. Þá eru nokkur ríki áheyrnaraðilar og er búist við að sum þeirra gerist fullgildir meðlimir samningsins innan skamms. Ísland er hvorki aðili að samningnum né áheyrnaraðili.
    Samningurinn kom til framkvæmda árið 1975. Markmið hans er að örva viðskipti með vörur unnar úr eðalmálmum, stuðla að sanngjörnum viðskiptaháttum og vernda hagsmuni neytenda. Með samningnum var komið á sameiginlegum eftirlitsstimpli, sem nefndur er CCM. Aðildarlönd samningsins hafa samþykkt að heimila markaðssetningu á vörum í löndum sínum sem bera þann stimpil án frekari prófana enda séu þær almennt hæfar til sölu í landinu.

2. Drög að tilskipun Evrópusambandsins um eðalmálma.
    Unnið hefur verið að tilskipun um eðalmálma hjá Evrópusambandinu. Um er að ræða drög að nýaðferðartilskipun með það að markmiði að samræma löggjöf aðildarríkjanna á þessu sviði. Upphafleg drög framkvæmdastjórnarinnar eru frá 1993 en nýjasta útgáfan er frá 1996. Drögin ná til vara sem unnar eru úr gulli, silfri, platínu og palladíum og er kveðið á um mismunandi styrkleika þessara málma í vörunni. Einnig er í drögunum kveðið á um markaðssetningu þessara vara og frjálst flæði þeirra, kröfur sem þarf að uppfylla í því sambandi og hvernig staðið er að merkingum og eftirliti. Kveðið er á um skyldur stjórnvalda varðandi útgáfu á stimplum og að komið verði á fót eftirliti með þessum vörum. Ekki hefur náðst samkomulag aðildarríkja Evrópusambandsins um þessi drög. Meðal þess sem ríkin greinir á um er eftirlitsþátturinn, þ.e. hvort prófa eigi vörurnar áður en þær eru settar á markað eða hvort beita eigi eftirliti á markaði. Ekki er fyrirsjáanlegt hvort eða hvenær tilskipun verður sett um þetta efni hjá Evrópusambandinu.

III. Efni frumvarpsins.

    Frumvarpið skiptist í fjóra kafla:
    Í I. kafla er gildissviðið afmarkað. Nær frumvarpið til framleiðslu, innflutnings og viðskipta með vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni. Einnig eru helstu hugtök skilgreind og þ.m.t. afmarkað hvað skuli teljast eðalmálmar. Um er að ræða gull, silfur, platínu og palladíum sem hefur ákveðinn hreinleika. Höfð var hliðsjón af danskri og sænskri löggjöf við skilgreininguna en hún er eins og áður segir í samræmi við Vínarsamninginn. Þá er mælt fyrir um að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn samkvæmt lögunum.
    Í II. kafla eru kveðið á um hvernig vörur unnar úr eðalmálmum skuli merktar og hvaða kröfur skuli gera til vara sem fluttar eru inn frá Evrópska efnhagssvæðinu. Stimplar samkvæmt frumvarpinu skiptast í skyldustimpla og valfrjálsa stimpla. Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni verða að bera nafnastimpil sem hefur verið samþykktur, merktur og skráður hjá Löggildingarstofu og hreinleikastimpil. Valfrjálsir stimplar eru staðarmerki og ártöl. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um gerð og útlit þessara stimpla. Vörur sem ekki geta talist unnar úr eðalmálmum samkvæmt skilgreiningum frumvarpsins mega ekki bera stimpla sem rugla má saman við framangreinda stimpla.
    Í III. kafla er mælt fyrir um eftirlit og gjaldtöku. Löggildingarstofu er falið eftirlit með merkingum á vörum unnum úr eðalmálmum en Löggildingarstofa getur falið öðrum opinberum aðila eða faggiltri skoðunarstofu að annast eftirlitið á sína ábyrgð. Löggildingarstofu er ætlað að halda skrá um nafnastimpla sem hún samþykkir. Eftirlit Löggildingarstofu eða faggilts aðila á hennar vegum mun aðallega felast í reglubundnum skoðunum. Þá geta borist kvartanir til Löggildingarstofu sem hún getur þurft að bregðast við.
    Í IV. kafla eru ýmis ákvæði. Þar er að finna refsiákvæði, reglugerðarheimild og gildistökuákvæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Ákvæði þess eiga að ná til vara sem eru unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni. Hugtakið „eðalmálmar“ er skilgreint í 2. gr. Skilgreiningarnar eru í samræmi við gildandi reglur t.d. í Danmörku og Svíþjóð sem byggjast eins og áður segir á Vínarsamningnum. Orðin „í atvinnuskyni“ fela það í sér að ef hlutir eru gerðir úr eðalmálmum og þeir eru ekki ætlaðir til sölu þarf ekki að fara að ákvæðum laganna. Vörur húðaðar með eðalmálmum teljast ekki vörur unnar úr eðalmálmum. Frumvarpið nær til framleiðslu á vörum unnum úr eðalmálmum. Með framleiðanda er átt við þann er vinnur vöruna eða lætur vinna hana í atvinnuskyni. Frumvarpið nær einnig til innflutnings á slíkum vörum enda ljóst að fullnægjandi neytendavernd næst ekki með öðru móti og að tryggja verður að sömu reglur gildi um innlenda og erlenda framleiðslu. Að lokum nær frumvarpið til viðskipta með vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni þar sem ekki má selja slíkar vörur eða bjóða þær til sölu nema skilyrði sem sett eru í frumvarpinu séu uppfyllt.

Um 2. gr.

    Í greininni eru hugtökin „ábyrgðarstimplar“, „nafnastimpill“, „hreinleikastimpill“, „eftirlitsstimpill“ og „eðalmálmar“ skilgreind. Hugtakið „ábyrgðarstimplar“ er yfirhugtak og nær bæði til skyldustimpla og valfrjálsra stimpla. Skyldustimplarnir eru „nafnastimpill“ og „hreinleikastimpill“ og eru þeir stimplar sérstaklega skilgreindir. Valfrjálsir stimplar eru hins vegar staðarmerki og ártöl. Nafnastimpil verður að fá samþykktan hjá Löggildingarstofu. Ekki eru gerðar kröfur til þess sem sækir um slíkan stimpil en með notkun hans ábyrgist sá sem fyrir honum er skráður að varan sé í samræmi við merkingar á henni. Fram kemur að hreinleikastimpill verður að sýna skýrlega hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, palladíum eða platínu er í viðkomandi vöru. Í flestum tilvikum verður það gert með því að skrá með tölum hlutfall eðalmálma. Þess má þó geta að t.d. í Danmörku er viðurkennt að nota megi orðið „sterling“ þegar um silfur er að ræða. Er eðlilegt að sama regla gildi hér. Staðarmerki gefur til kynna hvar varan er framleidd og ártal hvenær. Um eftirlitsstimpil er mælt í 6. gr. frumvarpsins og vísast nánar til athugasemda við þá grein. Gert er ráð fyrir að um gerð og útlit framangreindra stimpla verði mælt í reglugerð.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er fjallað um notkun ábyrgðarstimpla. Segir í 1. mgr. að slíka stimpla megi eingöngu nota á vörur unnar úr eðalmálmum og er notkun slíkra stimpla á aðrar vörur því óheimil. Þá segir í 2. mgr. að allar vörur unnar úr eðalmálmum skuli bera hreinleikastimpil og nafnastimpil. Óheimilt er að framleiða vöru eða flytja hana inn án þess að merkja hana með slíkum stimplum. Þá er óheimilt að selja vöru unna úr eðalmálmum eða bjóða hana til sölu nema hún beri slíka stimpla. Þetta eru því skyldustimplar en notkun á staðarmerkjum og ártölum er valkvæð. Notkun annarra stimpla er heimil svo lengi sem þeim verður ekki ruglað saman við þá stimpla sem fjallað er um í frumvarpinu, sbr. 3. mgr. Samkvæmt ákvæðinu gildir það sama um vörur sem líkjast vörum unnum úr eðalmálmum. Með því er leitast við að komast hjá ruglingi og að unnt sé að blekkja neytendur. Skv. 4. mgr. er bannað að markaðssetja vörur sem ekki eru unnar úr eðalmálmum sem slíkar vörur enda væri þá verið að blekkja neytendur. Leitast er við að tryggja að framsetning við markaðssetningu sé með þeim hætti að neytendur viti hvaða eiginleika vara hefur.

Um 5. gr.

    Samkvæmt greininni ber framleiðandi vöru sem unnin er úr eðalmálmum í atvinnuskyni ábyrgð á því að hún sé stimpluð í samræmi við lögin. Ef um innflutning er að ræða ber innflytjandi vörunnar ábyrgð á því að varan sé stimpluð í samræmi við lögin. Innflytjandinn ber ábyrgð á því að bera erlenda stimpla sem eru á innfluttri vöru undir Löggildingarstofu eða ef varan ber ekki skyldustimpla að stimpla hana eða láta stimpla hana. Í flestum tilvikum mun framleiðandi eða innflytjandi vera skráður fyrir nafnastimpli en ekki er þó útilokað að annar sem hefur skráðan nafnastimpil stimpli vöruna. Hann ábyrgist þá að varan sé í samræmi við lýsingu á henni samkvæmt stimplum. Þá getur Löggildingarstofa komið á fyrirkomulagi opinberrar merkingar, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í því felst að framleiðandi eða innflytjandi sem ekki hefur skráðan nafnastimpil getur fengið opinberan stimpil á vöruna sem staðfestir hreinleika hennar.

Um 6. gr.

    Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins hefur Löggildingarstofa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Í 6. gr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að Löggildingarstofa framkvæmi ekki sjálf prófanir og mælingar á efnisinnihaldi við eftirlit heldur feli þær öðrum opinberum aðila eða faggiltri prófunarstofu. Þá er í greininni gert ráð fyrir að viðkomandi aðili geti stimplað vörur með opinberum stimpli sem gæti þá komið í stað nafnastimpils. Slíkur stimpill mundi vera opinber viðurkenning á hreinleika málmanna. Framleiðandi og innflytjandi vöru geta þá óskað eftir slíkum stimpli gegn greiðslu fyrir þjónustuna. Löggildingarstofu er falið að meta hvort þörf er á slíkum opinberum stimpli hér á landi.

Um 7. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um viðurkenningu á stimplum sem notaðir eru hjá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Það skilyrði er sett að eftirlitið í viðkomandi löndum sé sambærilegt við eftirlit hér á landi. Er þetta ákvæði í samræmi við reglur sem gilda á EES-svæðinu um frjálsa vöruflutninga.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. eru taldar vörur eða vöruflokkar sem ekki heyra undir lögin. Ýmist er um það að ræða að viðkomandi vörur eru ekki viðskiptalegs eðlis, vörurnar eru þess eðlis að mjög erfitt er að koma við merkingu eða verðmæti þeirra mjög takmarkað. Í flestum tilvikum á að vera auðvelt að greina hvort vara fellur undir viðkomandi flokk en frá því eru þó undantekningar. Þannig er í 6. tölul. mælt fyrir um að vörur sem óumdeilanlega geta talist fornmunir séu undanþegnar. Um vafatilvik getur verið að ræða og kann þá Löggildingarstofa að þurfa að kalla til sérfræðinga við matið. Í 2. mgr. er að finna heimild fyrir ráðherra til að undanþiggja fleiri vörur stimpilskyldu skv. 4. gr. Við mat á því hvort rétt sé að mæla fyrir um slíka undanþágu verður að hafa hagsmuni neytenda af merkingum í huga. Eðlilegt getur verið að undanþiggja vörur ákvæðum 4. gr. sem eru hliðstæðar þeim vörum sem undanþegnar hafa verið samkvæmt frumvarpinu eða sambærileg rök eiga við um. Í 3. mgr. er veitt heimild til að votta hreinleika málma skriflega. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu frumvarpsins sem ber að túlka þröngt. Við það ber að miða að varan skaðist ef hún er merkt með stimplum. Útgefandi vottorðs væri Löggildingarstofa eða annar opinber aðili eða faggilt prófunarstofa sem starfar á vegum Löggildingarstofu, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er Löggildingarstofu falið eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Er eðlilegt að fela Löggildingarstofu framkvæmdina í ljósi hlutverks hennar samkvæmt öðrum lögum, sbr. t.d. lög nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, og lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Eins og greinir í almennum athugasemdum felst hlutverk Löggildingarstofu fyrst og fremst í að halda skrá um viðurkennda stimpla og reglubundnu eftirliti með sýnatöku og prófunum á þeim til að ganga úr skugga um að vörur uppfylli skilyrði laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Skv. 2. mgr. getur Löggildingarstofa falið faggiltri skoðunarstofu á sína ábyrgð að annast eftirlitið.

Um 10. gr.

    Í greininni eru Löggildingarstofu veittar nauðsynlegar heimildir til að hún geti rækt hlutverk sitt. Sama á við um faggiltar skoðunarstofur. Ber Löggildingarstofu að gæta meðalhófs við eftirlitið og tryggja með því að sem minnst röskun verði hjá eftirlitsskyldum aðilum vegna eftirlitsins.

Um 11. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um úrræði Löggildingarstofu. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um úrræði þegar fyrir liggur að brotið hefur verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Í öðru lagi er mælt fyrir um möguleg úrræði þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um brot. Ber Löggildingarstofu að grípa til tímabundinna úrræða sem miðast við að unnt sé að kanna frekar hvort brotið hafi verið gegn lögunum og koma í veg fyrir frekari brot á meðan á þeirri athugun stendur. Verður Löggildingarstofa að vinna eins hratt og kostur er þegar þessari heimild er beitt og takmarka þannig hugsanlegt tjón sem eftirlitsskyldur aðili kann að verða fyrir. Skv. 2. mgr. fellur kostnaður vegna aðgerða skv. 1. mgr. á hinn eftirlitsskylda aðila.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um dagsektarúrræði Löggildingarstofu. Hámark dagsekta er 50.000 kr. á sólarhring. Við mat á fjárhæð ber að taka mið af eðli brots.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er annars vegar mælt fyrir um gjald fyrir skráningu nafnastimpla. Gjaldið innheimtist við skráningu og greiðist af þeim er óskar skráningar. Því er ætlað að standa undir kostnaði Löggildingarstofu vegna móttöku umsóknar og skráningar stimpilsins. Hins vegar er innheimt árlegt gjald sem er ætlað að standa undir beinu eftirliti Löggildingarstofu með eftirlitsskyldum aðilum. Þá segir að greiða beri fyrir kostnað vegna sýnatöku og greiningar á sýnum. Misjafnt getur verið hvort og hve mörg sýni nauðsynlegt er að taka við eftirlit og er því eðlilegt að innheimta sérstaklega fyrir þessum kostnaði. Hafi eftirlitsskyldur aðili fleiri en eina starfsstöð, svo sem fleiri en eina verslun eða fleiri en eitt verkstæði, verður að greiða gjald vegna hverrar starfsstöðvar fyrir sig. Því greiðir t.d. söluaðili sem hefur tvær verslanir 24.000 kr. samkvæmt frumvarpinu. Hins vegar kann einn og sami aðilinn að hafa með höndum innflutning, framleiðslu og sölu á vörum unnum úr eðalmálmum. Fari öll starfsemin fram frá einni starfsstöð greiðast samkvæmt frumvarpinu eingöngu 12.000 kr.
    Við eftirlit kann að koma fram að vörur uppfylla ekki skilyrði laga þessara. Getur þá verið nauðsynlegt að framkvæma ítarlegra eftirlit og frekari prófanir. Viðkomandi eftirlitsskyldum aðila ber þá að greiða allan kostnað vegna frekar eftirlits sem stendur í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um töku þjónustugjalds. Löggildingarstofa kann að fela opinberum aðila eða faggiltri prófunarstofu að mæla og staðfesta hreinleika eðalmálma, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Þjónustugjaldaheimildin nær því til Löggildingarstofu eða þeirra sem hún felur að annast þjónustuna.

Um 13.–15. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vörur unnar úr eðalmálmum.

    Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði reglur um merkingar og eftirlit með vörum sem unnar eru úr eðalmálmun í atvinnuskyni, öðru nafni gull- og skartgripasmíði. Fer Löggildingarstofa með eftirlit með framkvæmd laganna og er heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum að annast á sína ábyrgð markaðseftirlit með vörum sem frumvarpið nær til. Í frumvarpinu er lögð til gjaldtaka sem standa á undir kostnaði við eftirlitið. Áætlað er að um 50–70 aðilar verði eftirlitsskyldir samkvæmt lögunum og að árlegar tekjur af eftirlitsgjöldum nemi því um 0,6–0,8 m.kr. á ári. Þar til viðbótar koma tekjur af gjöldum fyrir viðurkenningu og skráningu á nafnastimplum auk gjalds fyrir sýnatöku. Samkvæmt áætlun viðskiptaráðuneytisins verður stofnkostnaður ríkissjóðs 1 m.kr. í upphafi og árlegur kostnaður við umsýslu, þjálfun og erlend samskipti o.fl. er nemur 0,5 m.kr. sem eftirlitsgjaldinu er ekki ætlað að standa undir.
    Samtals mun frumvarpið því hafa í för með sér 1 m.kr. tímabundin útgjöld vegna stofnkostnaðar og 0,5 m.kr. árlegan rekstrarkostnað.