Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1033  —  560. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um störf þóknananefndar.

     1.      Hvernig er hlutverk þóknananefndar ríkisins skilgreint?
    Þóknananefnd ákveður laun þeirra sem starfa í nefndum og stjórnum á vegum ríkisins. Í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar árið 1968 um að tveir matsmenn skyldu meta ýmis störf sem væru unnin í þágu ríkisins skipaði fjármálaráðuneytið tvo einstaklinga til þess. Þeim var falið að meta þóknanir fyrir hvers konar nefndastörf, matsstörf, störf að einstökum verkefnum, setudómarastörf, málflytjendastörf o.fl. Í skipunarbréfi segir m.a.: „Gert er ráð fyrir, að eftirleiðis verði allar nefndaskipanir, tilnefningar og dómkvaðningar matsmanna, ráðningar í einstök verkefni, skipun setudómara, ráðningar málflytjenda og þess háttar gerðar með þeim fyrirvara að þóknun fyrir slík störf verði endanlega ákveðin af áður nefndum matsmönnum. Gert er ráð fyrir, að matsmennirnir setji sér sjálfir starfsreglur og viðmiðunarstaðla, en hafi jafnan samráð við ráðuneyti þau, er hlut eiga að máli, áður en endanleg þóknun er ákveðin.“
    Þegar þóknananefnd úrskurðar um laun þeirra sem starfa í nefndum og stjórnum berst erindi frá viðkomandi ráðuneyti sem þá óskar eftir að nefndin ákvarði þóknun fyrir nefnda- eða stjórnarstörf. Þóknananefnd metur í framhaldi af því hæfilega þóknun og tilkynnir viðkomandi ráðuneyti niðurstöðuna. Launaskrifstofa Ríkisbókhalds greiðir síðan þóknunina.
    Ef kveðið er á um nefnd, ráð eða stjórn í lögum er oftast mælt fyrir um að ráðherra skuli ákveða þóknun fyrir setu. Þrátt fyrir það leita ráðherrar yfirleitt til þóknananefndar til að ákveða hver þóknunin eigi að vera.

     2.      Hvað er lagt til grundvallar í mati þóknananefndar á greiðslum fyrir setu í starfsnefndum, stjórnum og ráðum?
    Þóknananefnd ákveður þóknun nefndarmanna og byggir ákvarðanir sínar á svokallaðri nefndareiningu sem nemur 1.222 kr. Í úrskurðum nefndarinnar er kveðið á um hve margar einingar nefndarmenn skuli fá greiddar. Úrskurðir eru gerðir á grundvelli erinda frá viðkomandi ráðuneyti þar sem lýst er umfangi nefndastarfa og vinnuframlagi nefndarmanna. Fjöldi funda og vinnustunda ræður mestu um fjölda eininga. Þá er einnig haft náið samráð við viðkomandi ráðuneyti og einnig litið til mats ráðuneytanna á umfangi nefndarstarfa. Í undantekningartilvikum er einnig tekið mið af tímum utan funda ef þeir eru sérstaklega rökstuddir. Formenn nefnda fá 50% fleiri einingar greiddar en óbreyttur nefndarmaður.

     3.      Hefur verið greitt fyrir þessa vinnu samkvæmt reikningi eða á annan hátt en þóknananefnd kveður á um?
    Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar skal þóknananefnd ákveða greiðslu launa fyrir ofangreind störf. Ekki er annað vitað en þeirri meginreglu sé fylgt. Greiðslur fyrir sérfræðistörf falla ekki undir starfssvið þóknananefndar heldur er það þeirra stofnana og ráðuneyta sem leita eftir slíkri aðstoð að ákveða slíkar greiðslur.

     4.      Hver ákveður annað greiðsluform og hvaða forsendur eru þá lagðar til grundvallar þóknun?
    Sjá svar við 3. spurningu.

     5.      Hvaða nefndir, stjórnir eða ráð eiga í hlut ef greitt hefur verið með öðrum hætti en samkvæmt mati þóknananefndar?
    Sjá svar við 3. spurningu.

     6.      Hvaða fjárhæðir er um að ræða annars vegar samkvæmt mati þóknananefndar og hins vegar samkvæmt öðrum ákvörðunum, sundurliðað eftir nefndum og ráðum og fjölda nefndarmanna?
    Sjá svar við 3. spurningu.

     7.      Hverjar eru heildargreiðslur á árinu 2001 annars vegar fyrir stjórnir og ráð og hins vegar fyrir starfsnefndir?
    Ekki liggur fyrir úttekt á greiðslum vegna ársins 2001 en í skýrslu Ríkisendurskoðunar: Nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins árið 2000, sem gefin var út í febrúar 2002, er að finna yfirlit um greiðslur vegna ársins 2000. Þar kemur fram að heildargreiðslur hafi numið 447 millj. kr.