Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1198 —  605. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samiðn, Sambandi iðnfélaga, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnueftirlitinu, vinnuverndarhópi Félags íslenskra sjúkraþjálfara, Læknafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna.
    Á 126. löggjafarþingi bárust umsagnir frá fjármálaráðuneyti, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, stéttarfélaginu Vökli, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Vinnueftirliti ríkisins, samgönguráðuneyti, Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, Alþýðusambandi Íslands, Ökukennarafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Samtökum iðnaðarins, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samiðn, Sambandi iðnfélaga, Verkalýðs- og sjómannafélaginu Gretti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Læknafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Tryggingastofnun ríkisins og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
    Með frumvarpinu sem er endurflutt frá 126. löggjafarþingi er lagt til að lögfestar verði meginreglur vinnutímatilskipunar ráðs Evrópusambandsins um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar. Einnig er um að ræða lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, svo sem skyldu vinnuveitanda til að gera eða láta gera áhættumat í vinnuumhverfi. Skal atvinnurekandi fylgja því eftir með því að gera skriflega áætlun um forvarnir og ráðstafanir um öryggi og heilsuvernd starfsmanna á vinnustað. Þá er að finna smávægilega breytingu með hliðsjón af tilskipun ráðsins um vinnuvernd barna og ungmenna. Loks eru lagðar til breytingar er lúta m.a. að dagsektum, stjórn Vinnueftirlits ríkisins og tekjum Vinnueftirlitsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 9. gr.
     a.      1. mgr. orðist svo:
             IX. kafli laganna fær fyrirsögnina Hvíldartími, frídagar og hámarksvinnutími og orðast svo.
     b.      3. tölul. a-liðar (52. gr.) orðist svo: Næturvinnutími: Tímabil sem nær frá miðnætti til klukkan fimm að morgni og er ekki skemmra en sjö klukkustundir. Um nánari afmörkun tímabilsins fer samkvæmt samkomulagi aðila vinnumarkaðarins.

Alþingi, 10. apríl 2002.

Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Pétur H. Blöndal.


Kristján Pálsson.


Jónína Bjartmarz.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.