Ferill 729. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1264  —  729. mál.


                   

Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar (EKG, KHG, GHall, SI, HjÁ, HGJ).



1. gr.

    4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar ná ekki til opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum eða krókaaflamarksbáta undir 15 brúttótonnum, sbr. 6. gr.

2. gr.

    Í stað orðanna „opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum“ í 6. gr. laganna kemur: opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum undir 15 brúttótonnum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

         

Greinargerð.


    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er lagt til að heimilt verði að veita bátum allt að 15 brúttótonnum leyfi til veiða í atvinnuskyni með krókaaflamarki, en til þessa hafa slík leyfi verið bundin við báta undir 6 tonnum. Samkvæmt lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, hafa framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur lagt inn á sérstakan reikning 8,4% af hráefnisverði afla sem þeir taka við af opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum. Af því renna 37,5% til Lífeyrissjóðs sjómanna, 56,5% til greiðslu slysa- og örorkutryggingar skipverja og 6% til Landssambands smábátaeigenda. Af afla stærri báta er á sama hátt greitt 8,0% af hráefnisverði, þ.e. 6% greiðast inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og 2% inn á greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa. 92% fjárhæðar á greiðslumiðlunarreikningi renna til Lífeyrissjóðs sjómanna en 8% til samtaka sjómanna og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þykir rétt að krókaaflamarksbátar, þótt þeir verði allt að 15 brúttótonn að stærð, falli í hóp þeirra fyrrnefndu. Frumvarpinu er ætlað að tryggja það.