Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1402  —  713. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um fjármálafræðslu í skólum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er fjármálafræðsla lögbundin grein í grunn- eða framhaldsskólum?
     2.      Hvenær var fjármálafræðsla tekin upp í skólum?
     3.      Í hvaða bekkjum grunn- eða framhaldsskóla fer fjármálafræðsla fram?
     4.      Hvaða námsefni er kennt um fjármál annars vegar í grunnskólum og hins vegar framhaldsskólum og til hvaða þátta fjármála nær það námsefni?


    Fjármálafræðsla er ekki lögbundin sem sérstök grein í grunn- eða framhaldsskólum. Sú fræðsla sem fram fer í skólum um þetta efni er að mestu leyti samþætt öðrum greinum. Nánar tiltekið er staðan eins og hér er lýst.

Grunnskóli.
    Í námskrá fyrir grunnskóla frá 1989 var nokkuð komið inn á fræðslu um fjármál heimila í 8. og 9. bekk og var fræðslan felld undir neytendafræði sem er hluti af heimilisfræði.
    Í aðalnámskrá grunnskóla, lífsleikni, sem gefin var út 1999 eru skilgreind námsmarkmið er lúta að fjármálafræðslu. Gert er ráð fyrir kennslu um fjármál í 6.–10. bekk grunnskóla.
    Áfangamarkmið fjármálafræðslu við lok 10. bekkjar í grunnskóla er að nemendur „geti metið eigin tekjur og útgjöld og rekstur heimilis“.
    Dæmi um þrepamarkmið:
    8. bekkur: nemendur geti gert eigin áætlun um sparnað og ávöxtun,
    9. bekkur: nemendur geti gert kostnaðarreikning um fastar greiðslur heimila,
    10. bekkur: nemendur geti reiknað kostnað vegna afborgana af heimilistækjum og skilji reikningsyfirlit, nemendur þekki ýmsar sparnaðar- og ávöxtunarleiðir.
    Kennsluefni getur verið af ýmsum toga en Námsgagnastofnun hefur margbreytilegt efni á boðstólum, bæði bækur og myndefni. Einstakir skólar eða kennarar hafa frjálsar hendur um það hvaða námsefni er notað við kennsluna. Þetta ræður því einnig hvaða áherslu þessi námsþáttur fær í skólum.

Framhaldsskóli.
    Fjármálafræðsla er ekki sérstaklega skilgreind sem námsgrein í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1999. Hins vegar eru hagfræðigreinar skilgreindar sem hluti af kjörsviði félagsfræðibrautar og nemendur á málabraut og náttúrufræðibraut geta einnig valið áfanga í þessu greinum, annaðhvort sem hluta af sínu kjörsviði eða sem frjálst val. Það er því sjálfstæð ákvörðun nemenda á bóknámsbrautum hvort þeir taka áfanga í þessum greinum eða ekki. Samkvæmt eldri námskrá gátu nemendur tekið hagfræðiáfanga í frjálsu vali.
    Á viðskiptabraut, sem er tveggja ára starfsnámsbraut, eru kenndar nokkrar greinar sem tengjast fjármálafræðslu, svo sem bókfærsla, hagnýt verslunarstörf og rekstrarhagfræði. Þetta er óbreytt frá eldri námskrá. Á öðrum starfsnámsbrautum framhaldsskóla er ekki gert ráð fyrir sérstakri fjármálafræðslu. Skyldir þættir fléttast þó inn í kennslu annarra greina, t. d. við áætlanagerð og skyld viðfangsefni.
    Ráðuneytið hefur ekki safnað upplýsingum um hvaða kennslubækur eru notaðar í framhaldsskólum í einstökum greinum og því eru ekki tiltækar upplýsingar um hvaða kennslubækur eru notaðar í þeim greinum sem hér hafa verið nefndar. Hins vegar er hægt að afla þessara upplýsinga ef óskað verður.