Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:01:33 (2824)

2003-01-21 14:01:33# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Maður undrar sig á málflutningi allflestra þingmanna hér sem virðast greinilega vera komnir á álvagninn. Umræðan hér snýst um atvinnuuppbyggingarstefnu, eða pólitík, og eins og kunnugt er er það ekki í anda okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að stuðla að stóriðjuuppbyggingu. Þjóðgarðar, glæsilegir þjóðgarðar, eru líka atvinnuskapandi tækifæri fyrir þjóðina (Gripið fram í: Hvað vinna margir ...?) fyrir margra hluta sakir, (Gripið fram í: Og prjóna vettlinga. ) bæði út af lífríkinu og líka fyrir tekjur af túristum. En eins og menn vita er ferðaiðnaðurinn önnur stærsta atvinnugrein okkar.

Ég skil heldur ekki, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. geta talað, sérstaklega landsbyggðarþingmenn, eins og að þessi ákvörðun, ef af verður, hafi engin áhrif á atvinnulífið á landsbyggðinni. Annað segja menn sem standa í atvinnurekstri úti á landi. Hækkandi vextir sem afleiðing af ákvarðanatökunni, ef af verður, eru íþyngjandi fyrir grunnatvinnulífið. Styrking krónunnar er þegar farin að valda vandræðum, það vitum við. Og að draga úr opinberum framkvæmdum, t.d. vegagerð, er mjög alvarlegt mál að horfast í augu við fyrir landsbyggðina, og ekki síður höfuðborgarsvæðið þar sem veruleg vandræði eru. Þess vegna er brýnt að kalla á það, virðulegi forseti, hverjar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða ef af þessum framkvæmdum verður. Má búast við að mótvægisaðgerðirnar leiði til þess að e.t.v. töpum við hundruðum og kannski þúsundum starfa í atvinnugreinum þjóðarinnar sem eru í gangi til þess að fá þessi nokkur hundruð störf í staðinn? Þetta eru allt hlutir sem verður að svara.

Síðan í öllum atganginum við þetta verður að krefja ríkisstjórnina svara um hvort verið sé að draga úr mengunarvarnakröfum varðandi fyrirhugað álver við Reyðarfjörð. Það hefur komið fram í fréttum að áformað sé að notast við þurrhreinsibúnað í stað vothreinsibúnaðar sem kallar á tvo reykháfa upp á tugi metra, 80--100 metra.