Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 10:38:29 (2948)

2003-01-23 10:38:29# 128. lþ. 64.4 fundur 415. mál: #A tóbaksvarnir# (EES-reglur) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Ég fagna þessu frv. og tel að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla heilsu í landinu og draga úr tóbaksnotkun og þetta er hluti af því.

Þetta segir okkur einnig að við erum að fara að tilmælum Evrópusambandsins, þ.e. tilskipun 2001/37/EB. Þetta er númerið á tilskipuninni sem segir að hún var samþykkt fyrir síðustu áramót um merkingar á tóbaki. Ég vil minna á að við urðum einnig að beygja okkur undir tilskipanir Evrópusambandsins árið 1989 og 1990 en við vorum með fyrir þó nokkuð mörgum árum mjög eftirtektarverðar merkingar á tóbakspökkum og pakkningum sem eftir var tekið víða um heim og margir öfunduðu okkur af að vera með mjög stórar myndir og skýrar og greinilegar aðvaranir á pökkunum. Þá var sú vinna sem hefur verið í gangi nú hjá Evrópusambandinu ekki komin eins langt og hér á landi. Tóbaksvarnir höfðu þá ekki náð sama sessi og nú er heldur hafði markaðurinn frekar fengið að ráða. Við urðum því að beygja okkur undir það að taka í burtu þær myndir sem voru á pökkunum og minnka aðvörðunarorðin. Þess vegna fagna ég því að við getum þó farið langleiðina með það sem við höfðum þó komist hér áður varðandi merkingarnar.

Löngu er viðurkennt að þau efni sem eru í tóbaksreyk og í tóbaki eru heilsu manna hættuleg. Gera þarf nokkurn greinarmun á efnasamsetningu tóbaksblaða og tóbaksjurtarinnar, efnum sem bætt er í tóbak við vinnslu, efnasamböndum í tóbaksreyknum sem myndast við brunann þegar reykt er og efnasamböndum í tóbaki sem myndast við blöndun við líkamsvessa. En allt eru þetta hættuleg efni á sinn hátt og við munum örugglega fara betur yfir það í heilbr.- og trn. Sum þessara efna eins og nikótínið og fleiri efni eru hreinlega banvæn, geta verið það við inntöku þannig að full ástæða er til að vara sérstaklega við þeim. Eins eigum við að vara við því að merkingar á tóbakspakkningum gefi til kynna að varan sé ekki eins óholl og hún í rauninni er með því að bæta við orðum eins og ,,light`` eða léttar sígarettur eða ,,slim`` eða gefa eitthvað til kynna að einhvers konar hollusta sé í því að nota viðkomandi vöru.

Því fagna ég að í þetta sinn skuli tilskipun Evrópusambandsins vera í þá átt að efla tóbaksvarnir og styrkja okkur eitthvað á þeirri leið sem við vorum búin að ná fyrir þó nokkrum árum.