Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:45:13 (2966)

2003-01-23 12:45:13# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:45]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tek í rauninni undir það sem hæstv. heilbrrh. segir að það er svo sem ekkert við það að athuga að Persónuvernd bæti í kröfur sínar varðandi persónuvernd og við munum taka það til skoðunar í heilbr.- og trn.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur stundum fundist heldur mikið í lagt frá Persónuvernd, heldur miklar kröfur stundum sem hún setur á persónuvernd, þó að við þurfum alltaf að gæta þessa atriðis. Mér er kunnugt um að eitt af þeim atriðum sem Persónuvernd hefur lagt áherslu á að komi inn í frv. er að þessar upplýsingar liggi bara fyrir í ákveðinn tíma og þeim verði eytt eftir tvö ár. Ég man þegar ég las skýrslu nefndarinnar sem undirbjó þetta frv. að þá var slíkt ákvæði í tillögu nefndarinnar. En af einhverjum ástæðum féll það út í endanlegri gerð frv. En í rauninni er sú krafa afar eðlileg.

Mér finnst sú hugmynd mjög áhugaverð sem kom fram á læknadögum um að nota þennan lyfjagagnagrunn enn frekar þannig að hann tryggði þá aðgang lækna að slíkum upplýsingum um sjúklinga sína. Í sjálfu sér á ríkið ekki að skipta sér af því hvaða lyf fólk tekur að öðru leyti en því að ef ríkið borgar þessi lyf þá hlýtur það jafnframt að hafa eftirlit með því að það fjármagn sem sett er til lyfjamála sé nýtt sem allra best. Í þeim tilgangi tel ég eðlilegt að við skoðum þessa hugmynd sem kom fram á læknadögum og ekki síst í ljósi þess að slíkir gagnagrunnar eru þegar teknir til starfa á tveimur Norðurlöndum. Ég legg því til að við í heilbr.- og trn. öflum okkur frekar upplýsinga um þær útfærslur sem Norðurlöndin eða þessi tvö Norðurlönd hafa farið eftir í sínum gagnagrunnum.