Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:42:12 (2971)

2003-01-23 13:42:12# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Við skulum hafa í huga að í umræðunni um stjórn fiskveiða og breytingar á lögum um stjórn fiskveiða varaði stjórnarandstaðan ávallt við þeirri leið sem farin var með því að úthluta svokölluðum byggðakvótum eða byggðapottum og vildi fara allt aðrar leiðir. Það er núna að koma í ljós að ágallar úthlutunarinnar eru augljósir. Það er úlfúð úti um allar jarðir vegna þess hvernig að þessu er staðið. Spá svartsýnustu manna er því að rætast hvað þetta varðar. Þetta er ófær leið. Þessi byggðakvótaleið er í raun og veru leið stjórnvalda til þess að lina þjáningarnar meðan byggðunum blæðir út. Það er áhyggjuefni. Úlfúðin er gríðarleg.

Ég vil benda á, virðulegi forseti, að í umræðunni um öll þessi fiskveiðistjórnarmál hefur stjórnarandstaðan rétt fram sáttarhönd. Það var sameiginleg sáttarhönd sem rétt var út á sínum tíma. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna gengu á fund sjútvrh. og yfirvalda og báðu um að hafin yrði vinna sem gæti lagt grunn að nýju fiskveiðistjórnarkerfi sem meiri sátt væri um. Í þá sáttarhönd var ekki tekið, því miður.

Það er alveg augljóst að það verður aldrei sátt um þetta kerfi nema það verði stokkað upp frá grunni. Byggðirnar og landsvæðin verða að hafa heimildir til veiða, hafa veiðirétt. Það er grundvallaratriði. Við getum ekki búið við að markaðslögmálin ráði einvörðungu og hægt sé að svipta fólk lífsbjörginni frá einum degi til annars. Vinnan í kringum nýtt fiskveiðistjórnarkerfi bíður væntanlega nýs þings sem kjörið verður í vor.