Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:55:57 (2977)

2003-01-23 13:55:57# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Um 1980 veiddum við hátt í 400 þús. tonn af þorski. Upp úr árinu 2000 erum við að veiða u.þ.b. 200 þús. tonn af þorski, þ.e. helmingi minna. Það munar um 200 þús. tonnum. Það þarf ekki mikla spekinga til að sjá að slíkt hefur gífurlega mikil áhrif úti um allt, ekki síst í sjávarplássum landsins. Ofan á þetta bætist síðan veruleg tækniþróun, stærri fiskiskip og aukin afkastageta nýrra veiðarfæra. Við slíkar aðstæður skiptir í rauninni engu máli hvers slags fiskveiðikerfi við notum þegar aðgangur að auðlindinni er takmarkaður. Vandinn er augljós: Of fáir fiskar í sjónum og fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt hefur ekki mikil bein áhrif á þann vanda. Við hljótum þess vegna að nálgast þetta umræðuefni út frá grunnpunktinum sem er fiskveiðiráðgjöf.

Nú hefur það komið fram í máli vísindamanna hérlendis og erlendis að hugsanlega kunni sú vísindaráðgjöf sem vísindamenn okkar byggja á, með fullri virðingu fyrir þeim, að vera röng, að forsendur séu ekki réttar. Það er þess vegna eðlilegt að nálgast þessa umræðu út frá fiskveiðiráðgjöfinni.

Byggðakvóti er auðvitað engin allsherjarlausn. Hann er aðeins aðgerð til þess að draga úr áhrifum, hefur tekist misvel en ég hygg að þar sem best hefur tekist til, eins og á Djúpavogi og á Þingeyri þar sem útgerð hefur lagt á móti byggðakvóta, hafi það verulega hjálpað til en það er auðvitað engin heildarlausn. Ég ítreka að áhersla okkar hlýtur fyrst og fremst að vera á fiskveiðiráðgjöfinni, síðan getum við farið að deila um þá aðferð sem við viljum nota til þess að veiða.