Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 14:54:27 (2986)

2003-01-23 14:54:27# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir ræðu hennar. Ég hef hins vegar aðeins öðruvísi áherslu á útfærslu í sambandi við gagnagrunna og ávísun lyfja.

Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í verkefni inni á Landspítala þar sem við ræddum um og gerðum úttekt á því hvernig hjúkrunarfólk ætti að nálgast upplýsingar um ástand sjúklinga, um lyfjanotkun þeirra o.fl. Við fengum mjög hreina og klára niðurstöðu úr þeirri úttekt. Ég vona að skýrslan sé enn aðgengileg á Landspítalanum. Niðurstaðan varð sú að það ættu að vera mörg hlið í þessari leit að upplýsingum um sjúklinga, þ.e. ef sjúklingur kæmi inn á stofu og bæði um lyf eða væri með verki o.s.frv. mætti spyrja ákveðinna spurninga. Það mætti spyrja: Hefurðu ofnæmi fyrir einhverju lyfi? Ertu á ákveðnum lyfjum o.s.frv.? Eða: Hvernig er ástand þitt? Ef sjúklingur kæmi inn á sjúkrahús og væri lagður inn, í versta tilviki ekki með ráði eins og hv. þm. Katrín Fjeldsted nefndi dæmi um, mætti nálgast nauðsynlegustu upplýsingar og síðan, ef á þyrfti að halda, þá með ákveðnu leyfi yfirlæknis spítalans, fara frekar inn í gagnagrunninn. Upplýsingar um sjúkling væru það viðkvæm mál að meira að segja inni á sjúkrahúsi væri ekki ástæða talin til þess að fara nema í gegnum ákveðin hlið inn í svona gagnagrunna. Könnunin er að vísu nokkurra ára gömul en ég býst við að hún sé enn við lýði.