Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:18:09 (2994)

2003-01-23 15:18:09# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál sem er viðamikið og flókið eins og öll málefni sem varða gagnagrunna eru yfirleitt. Og þau eru viðkvæm mál, ég tek undir það.

En tilgangurinn með frv. er eins og kom fram í orðum hv. 16. þm. Reykv., að koma í veg fyrir misnotkun ávana- og fíkniefna og einnig til þess að afla upplýsinga um lyfjaneyslu, ópersónugreinanlegra upplýsinga sem hægt er að nota m.a. í baráttunni við aukinn lyfjakostnað í landinu, en sá þáttur í heilbrigðisþjónustunni vex gríðarlega og ég verð að segja að það er sá þáttur sem ég hef áhyggjur af að verði lítt viðráðanlegur á næstu árum ef þróunin verður áfram eins og hún hefur verið.

Tilgangurinn með frv. er einnig sá að koma í veg að saklausir menn í læknastétt liggi undir ámæli um að ávísa lyfjum ótæpilega til fíkniefnaneytenda. Það er ekkert skemmtilegt fyrir læknastéttina að liggja undir slíku ámæli og það er því í þágu læknastéttarinnar að frv. nái fram að ganga. Ég verð var við það að læknar vilja gjarnan stuðla að því að svo verði. En þetta er í stuttu máli tilgangurinn með frv.

Hv. 14. þm. Reykv. spurði um notkun Tryggingastofnunar ríkisins á gagnagrunninum. Í ábendingum sem hafa komið frá Persónuvernd um málið er lagt til að kannaðar verði í samráði við landlækni lyfjaávísanir og ávísanir lækna vegna eftirlits með lyfjakostnaði. Þetta er ein af þeim tillögum sem ég beini til heilbr.- og trn. að skoða og aðrar tillögur sem kveða skýrar á um persónuverndina og gerð verði grein fyrir þeim þegar fulltrúar ráðuneytisins verða kallaðir fyrir nefndina en ég tel rétt að nefndin fari vandlega yfir þessi mál, eins og ég veit að hún gerir.

Hv. 6. þm. Reykv. spurði um aðgang starfsmanna að persónugreinanlegum upplýsingum. Eins og kom fram í framsöguræðu minni, ég ætla að endurtaka það til að taka af allan vafa, þá er gert ráð fyrir að persónuupplýsingar séu dulkóðaðar í gagnagrunninum og engum aðgengilegar --- ég undirstrika það --- engum aðgengilegar nema í einstöku tilvikum þegar rökstuddur grunur um misferli liggur fyrir. Ekki er gert ráð fyrir að það sé neinn almennur aðgangur að þeim upplýsingum. Ég vil undirstrika það því að það er afar mikilvægt atriði að enginn misskilningur sé varðandi þetta.

Ég held að ég orðlengi ekki um þetta að sinni. Ég veit að heilbr.- og trn. tekur þetta mál til vandlegrar skoðunar. Ég tel mikilvægt að það verði afgreitt. Þetta mál fór m.a. á skrið í framhaldi af mikilli umræðu um misnotkun ávana- og fíkniefna á síðasta vori og eins og kom fram í framsöguræðu minni var unnið mjög hratt og vel að málinu og frv. byggt á skýrslu nefndar þar um. Ég tel áríðandi að frv. verði að lögum eftir vandlega skoðun. Ég vona að tími gefist til þess að skoða málið vel.

Í tillögum Læknafélagsins var einnig rætt um afeitrunarstöð. Við höfum verið að skoða þau mál líka þó að það komi ekki inn á þetta frv., það er sérmál, en ég tel að það sé mál sem við verðum að skoða og leggja niður fyrir okkur en tillögur í því eru ekki tilbúnar enn.

Varðandi verkjateymið á Landspítala þá tel ég að skoða verði það mál sérstaklega og það er á döfinni hjá okkur í ráðuneytinu að fara yfir það hvernig það væri hægt og hvað það mundi vera umfangsmikið að koma slíkri starfsemi á fót.