Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:48:47 (3006)

2003-01-23 16:48:47# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:48]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held satt að segja að veiðar í vísindaskyni gangi ekki þannig fyrir sig að þeir sem eiga hvalbátana eða hrefnubátana ákveði hvað á að veiða mikið. Veiðar í vísindaskyni hafa yfirleitt verið unnar samkvæmt vísindaáætlun frá Hafrannsóknastofnun en það má vel vera að það megi einhvern veginn möndla þetta í samráði við þessa veiðimenn. Ekki hef ég mikið á móti því.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég hins vegar að við eigum að hefja þessar vísindaveiðar strax í sumar og ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það mætti lýsa því yfir sem fyrst.

Það er auðvitað rétt að vissu marki sem hann segir að það hefur verið vandræðagangur í þessu máli alla tíð síðan við stöðvuðum veiðarnar. Síðan hafa setið margar ríkisstjórnir en það er hins vegar ekki rétt að það sé andstaða við málið í ríkisstjórninni. Ég minni á að þegar tillaga okkar var samþykkt vorið 1999 tóku margir ráðherrar þátt í atkvæðagreiðslunni og greiddu atkvæði með tillögunni. Ég held að það sé ekki rétt að áfellast ríkisstjórnina.

Ég get samt alveg tekið undir það að því fyrr sem við gefum yfirlýsingu um að við ætlum að hefja veiðar í vísindaskyni í sumar, því betra.