Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:05:26 (3256)

2003-01-30 16:05:26# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði í lok ræðu sinnar að haft hefði verið mikið samráð við hagsmunaaðila. Hverjir eru hagsmunaaðilar í þessu máli, eftir þeim orðum sem hæstv. ráðherra viðhafði? Eru það þeir sem núna eru í orkuframleiðslunni eða eru það fjórðungssamböndin úti um landið sem hafa oft verið með framsetningu um hagsmuni einstakra byggðarlaga eða landshluta? Og þá kemur náttúrlega spurning í framhaldi af því: Hvernig á að tryggja sem jafnast orkuverð um allt landið og hvaða kjör fær fólkið? Þetta er náttúrlega meginspurningin. Mig langar að vita nákvæmlega hvernig þessu samráði var hagað. Hverjir voru þessir hagsmunaaðilar?