Íslenskar orkurannsóknir

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:32:13 (3265)

2003-01-30 16:32:13# 128. lþ. 69.5 fundur 545. mál: #A Íslenskar orkurannsóknir# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:32]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það hefði kannski verið eðlilegt að ræða saman þessi tvö frv. sem hæstv. ráðherra mælti hér síðast fyrir þar sem hér er augljóslega um tvær hliðar á sama peningi að ræða, ef svo má að orði komast. Það sem hér er verið að gera er út af fyrir sig fullkomlega eðlilegt og skynsamlegt, þ.e. að skilja sundur stjórnsýslueiningu og rannsóknareiningu Orkustofnunar. Það má því velta fyrir sér hlut ríkisins í rannsóknum sem hæstv. ráðherra kom inn á máli sínu. Auðvitað er það svo og hefur verið að á ýmsum sviðum hafa verið að verða til rannsóknarteymi ef það eru nógu margir til þess að við gætum verið burðug í rannsóknum. Og inni á Orkustofnun hafa einmitt orðið til slíkir hópar manna sem hafa mikilvæga og dýrmæta sérþekkingu. Þar var samt komið sögu að ekki gekk lengur að þarna væri um eina og sömu stofnunina að ræða og þurfti að aðskilja. Og mér finnst fullkomlega eðlilegt, herra forseti, að menn skyldu velta dálítið vöngum yfir því hvaða rekstrarfyrirkomulag eða rekstrarform yrði á þessari stofnun. Þegar maður les frv. yfir, ákvæði þess og greinargerð, veltir maður því líka fyrir sér hversu lengi þessi stofnun getur staðið miðað við þær forsendur sem henni eru gefnar núna. Þá á ég einfaldlega við það, herra forseti, að enda þótt menn reyni hér, og kunni augljóslega ágætlega til verka, að koma málum þannig fyrir að ekki ættu að verða árekstrar við markaðinn segir mér svo hugur að ekki muni líða ýkja mörg ár þar til þrýstingur verður kominn á það að rekstrarformi þessarar stofnunar verði breytt, einhverjum þáttum hennar úthýst og þeir settir á markað með einum eða öðrum hætti. Það er þróunin í þessum efnum og nokkuð sem kannski er ekki gott að standa gegn og er þá væntanlega liður í því að rannsóknarumhverfið er alltaf að verða burðugra og þar myndast samkeppni með virkum hætti.

Það var ýmislegt sem vakti upp spurningar við lestur þessa frv. sem ég geri ráð fyrir að við getum fengið svör við í iðnn. Það var líka ýmislegt sem vakti athygli eins og það að á þessari rannsóknastöð verður, og hefur þá verið á Orkustofnun, ein stærsta jarðfræðistofnun landsins og um leið ein öflugasta rannsóknastofnun í heimi. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og merkilegt, herra forseti, og ástæða til að halda því til haga. Rannsóknasviðið þekkir auðvitað markaðinn. Það hefur tekið þátt í samkeppni á markaði og það er auðvitað á grundvelli þeirrar reynslu sem málum er svo komið sem nú er.

Mér finnst líka merkilegt að svona mikil áhersla skuli vera lögð á það í frv. að varðveita þann mannauð sem þegar er til innan stofnunarinnar og verður auðvitað til í samspili þeirra einstaklinga og þeirrar þekkingar sem þar er. Það er ekki á hverjum degi, herra forseti, þegar hið opinbera breytir rekstrarformi eða skilur upp stofnanir að menn horfi á mannauðinn þeim augum sem hér er gert. Oft finnst manni fyrst og fremst köld tæknihyggja vera að verki en það er gott að sjá það, og var svo sem viðbúið, að á Orkustofnun kæmu menn auga á mikilvægi mannauðs. Þó að okkur þyki náttúruauðlindirnar giska merkilegar og þær séu viðfangsefni stofnunarinnar yrðu þær rannsóknir ekki merkilegar ef sú þekking og sá mannauður sem þar er væri ekki til staðar.

Það er sömuleiðis tekið fram hér og vakin athygli á því að vatnamælingar eru ekki á samkeppnismarkaði. Þarna er í rauninni heimastöð vatnamælinga á Íslandi og verður væntanlega hvergi annars staðar, nema þá að búin verði til stofnun sem ríkið styrkir þá með einhverjum hætti til þessara þátta. Þannig er þetta auðvitað, herra forseti. Hér er afskaplega mikilvæg starfsemi. Eigi að síður hef ég þá tilfinningu, eins og ég sagði áðan, og fékk þá tilfinningu við lestur frv. að þó að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu nú að hafa rekstrarformið það sem það er kunni önnur sjónarmið að gilda eftir ekki svo langan tíma vegna breyttra aðstæðna á markaði.

Mér finnst spennandi að koma til með að takast á við þetta frv. Þetta eru afskaplega áhugaverðir hlutir sem hér eru að gerast og mun ég ekki lengja umræðuna frekar. Mér sýnist að iðnn. hafi hér orðið nokkur verkefni fram til vorsins þar sem eru þau frv. sem til hennar verður vísað væntanlega eftir þennan fund, ég tala nú ekki um þetta litla frv. sem var hér til umfjöllunar á þriðjudaginn.