Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:02:26 (3309)

2003-02-03 16:02:26# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei verið í nokkrum vafa um það að mjög erfitt er að átta sig á því hversu mikið magn af fiski er í sjónum og ég hef alltaf verið efasemdamaður um það að fiskifræðingarnir hafi nákvæmar tölur um það jafnvel þótt þeir hafi á stundum komið á haustin og sagt okkur nokkuð nákvæmlega hversu veiðistofninn væri stór í hinni og þessari greininni. Ég hef kannski sagt það áður að okkur hefur nú ekki tekist að telja þannig svo tæmandi sé hreindýrin sem þó eru uppi á fastalandi. Við erum því vissulega í miklum erfiðleikum með að telja fiskana í sjónum.

Ég held að þessi ákvörðun hæstv. ráðherra muni ekki á neinn hátt skaða okkur hvað varðar fiskimiðin almennt. En hins vegar held ég að ákvörðunin dragi kannski fram með mjög skýrum hætti að þegar á þarf að halda og aðstæður eru þannig í samfélaginu, er hægt að taka stærri sneið af kökunni úr sjónum sem er sú auðlind sem við jafnan gerum út á. Hæstv. ráðherra hefur tekið þá ákvörðun nú að auka heimildir í nokkrum tilteknum tegundum sem hann nefndi hér.

Það sem er kannski sérstætt við þessa ákvörðun nú er e.t.v. sú röksemdafærsla sem notuð er. Vitaskuld átta sig allir á því að þetta er fyrst og fremst vegna þess að gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart erlendri mynt og að kosningar eru í vor og af þeim sökum er þessi ákvörðun tekin.

En af því hæstv. ráðherra nefndi það áðan í umræðunni að hann byggði núorðið mikið á fiskifræði sjómannsins, sem hefur nú ekki átt mikið upp á pallborðið, þá væri kannski ágætt, virðulegi forseti, að hann upplýsti okkur um hvaða sjómaður þetta var sem hann talaði við.