Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:21:09 (3359)

2003-02-04 15:21:09# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hv. þm. nefndi um almennt gildi góðra samgangna fyrir landsmenn alla. En ég hjó eftir því að hv. þm. vék að framkvæmdum sem tengjast Kárahnjúkum og Fjarðaáli. Hann hvatti til að vegna þeirra framkvæmda yrði farið í flýtiframkvæmdir í öðrum landshlutum, m.a. til að koma til móts við of miklar sveiflur og þar fram eftir götunum.

Það er rétt að minna á það sem hér kom fram og á fundi hv. iðnn., m.a. frá talsmanni ASÍ, varðandi ákvörðun um aðrar framkvæmdir og annars staðar, ruðningsaðgerðir má segja, að ekki væri ástæða til að taka ákvörðun um slíkt fyrr en framkvæmdir hefjast. Eins og hv. þm. veit eru framkvæmdir ekki hafnar og enginn veit í dag hvernig skilyrði verða í efnahagslífinu árið 2005 og 2006 þegar framkvæmdir standa sem hæst.

Hins vegar ályktaði hv. þm. svo út frá þessu að framkvæmdum í samgöngum í einu til tveimur kjördæmum ætti að ljúka á næstu fimm árum. Þá er hv. þm. að tala um að flytja nokkra milljarða króna úr hinum kjördæmunum yfir í þessi tvö. Ég skil þau sjónarmið sem eru á bak við það að flýta framkvæmdum. Það vilja þingmenn allra kjördæma en ég hlýt að spyrja hv. þm. Vinstri grænna: Úr hvaða kjördæmum vill hann taka fé til þessara flýtiframkvæmda.