Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:15:49 (3373)

2003-02-04 16:15:49# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það má leggja vegi þvers og kruss en maður verður að forgangsraða. Ég spurði hv. þm. Halldór Blöndal að því hvar hann mundi raða í þessu háfjallahlaupi sínu veginum um Norðausturland sem varð afskiptur við vegagerðina meðfram ströndinni. Það er svo sem ágætur vegur yfir fjöllin milli Norðurlands og Miðausturlands en vegurinn meðfram ströndinni hefur orðið afskiptur. Hvar vill hv. þm. setja þann veg í þessari röð? Vill hann ráðast í þessa háfjallavegi áður en búið er að koma upp vegum í byggð?

Ég vil líka vekja athygli á því að það er ekki sama hver segir hvað og hvernig. Umræða hv. þm. Halldórs Blöndals um að vegirnir verði lagðir helst fram hjá byggð á Norðvesturlandi í Húnavatnssýslum hefur kannski þegar haft þau áhrif að aðilar eins og olíufélögin og aðrir halda frekar að sér höndum um uppbyggingu þjónustuskála og þjónustu á þjónustustöðum eins og Blönduósi. Menn þurfa að gæta orða sinna í þessum efnum, ekki síst þingmenn, þannig að ekki sé valdið ótímabærum ugg og truflun á eðlilegu lífi, starfi og uppbyggingu starfs í héruðunum.

Ég ítreka við hv. þm. Halldór Blöndal: Getur hann ekki verið sammála mér í því að fyrst skulum við leggja vegina í byggð og að íbúar á Norðausturlandi og á Vestfjörðum fái almennilegan veg áður en við förum að rassakastast fram og til baka um hálendið til þess að fá sem stystan veg milli einstakra bæja og byggða?