Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:08:50 (3386)

2003-02-04 17:08:50# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:08]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skildi þau þannig hvað varðar jarðgöngin að fyrir lægi að fjármagn væri til nýrra jarðgangaverkefna eftir 2008 og það væri hans skoðun að ráðast bæri næst í jarðgöngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar á eftir þeim göngum tvennum sem eru að fara af stað. Ég fagna því vegna þess að ég tel að ef það er réttur skilningur minn á afstöðu ráðherrans megi segja að það sé pólitísk samstaða milli stjórnarflokkanna um það mál. Því fyrr sem menn festa þá pólitísku samstöðu í ályktun Alþingis því betra og ég hvet til þess að menn hugi að því að gera það við afgreiðslu þessara þingmála.

Ég vil segja varðandi jarðgangaáætlun, herra forseti, að það er allt umdeilanlegt þá gert er. Ég velti fyrir mér því sem ákveðið var fyrir nokkru um Siglufjarðargöng. Menn ákváðu að fara þá leið að ráðast í göng um Héðinsfjörð. Þau göng munu kosta um 7 milljarða kr. Hinn valkosturinn sem ég tel að hafi verið í stöðunni er stutt göng frá Siglufirði í Fljót sem kosta um 2,5 milljarða kr. Mismunurinn á þessum tveimur lausnum er um 4,5 milljarðar kr. (Gripið fram í.) Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvort hann telji að munurinn á þessum tveimur lausnum sé slíkur að hann réttlæti þennan kostnaðarmun.