Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:39:39 (3404)

2003-02-04 18:39:39# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég benti á Sundabrautina sem dæmi um að menn væru með kannski óraunhæfar hugmyndir um framkvæmdir og að þær færu fyrr af stað heldur en þær gera og að þær tækju kannski styttri tíma. Ég er ekki með neinar og ætla ekki að vera með neinar sérstakar ásakanir um það hvernig á því stendur að menn hafa ekki lagt í þessa stóru framkvæmd. En það liggur náttúrlega í augum uppi að sú stóra framkvæmd fer ekki af stað fyrr en eftir að stóri kúfurinn fyrir austan er búinn því þetta er mjög dýr framkvæmd og ég geri ekki ráð fyrir því að menn ætli sér að bæta henni inn í mestu átökin sem verða í kringum Kárahnjúkavirkjun.

Varðandi þetta með brúna sem borgarfulltrúar R-listans hafa meiri áhuga á en göngum þá er það nú einfaldlega þannig í þeim reglum sem hafa verið viðhafðar, að velji sveitarfélag dýrari leið í gegnum sitt sveitarfélag en góða leið sem Vegagerðin bendir á þá veit ég ekki betur en að það sé í raun hægt að gera viðkomandi sveitarfélagi reikning fyrir því og það verði þá að taka þátt í þeim mismun sem þarna verður á framkvæmdunum. Vel kann að vera að renna muni tvær grímur á borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar ef þeir þurfa að horfa fram á að leggja meira til þessarar framkvæmdar en bara að vilja fá hana í gegn. En það kemur auðvitað í ljós síðar.