Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:44:59 (3407)

2003-02-04 18:44:59# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:44]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Það er hárrétt sem kom fram í ræðu hæstv. samgrh. að hér er í raun um risavaxið verkefni að ræða, sérstaklega þegar maður lítur til tölunnar 240 milljarða til næstu 12 ára. Það er eflaust tala sem alltaf má deila um og það er greinilegt á ræðum þingmanna hér í dag að við viljum öll hafa þessa tölu hærri og allir eru með sín óskaverkefni. Ég er kannski engin undantekning frá því.

[18:45]

Ég ætla engu að síður að reyna að mestu að fara yfir vegamálin en mig langar til rétt í byrjun að fá svör frá hæstv. ráðherra varðandi hafnamál. Við sjáum að í grunnnetinu eru taldar upp hafnir eins og Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðhöfn. Og eðli málsins samkvæmt þó að ég viti að í raun eru þessar hafnir lögum samkvæmt ekki að fá neinn stuðning í dag og það er í rauninni ekki það sem ég er að kvarta undan heldur eingöngu það að enn þá eru takmarkanir við gjaldtöku aflagjaldsins. Við erum enn þá að miða við þennan ramma, 1,03%, plús eða mínus 0,02%, sem setur til að mynda Hafnarfjarðarhöfn ákveðnar skorður.

Í gegnum aflagjaldið minnir mig að tekjur Hafnarfjarðarhafnar séu í kringum 40% þannig að það skiptir þá höfn verulegu máli að fá frelsi til að geta annaðhvort hækkað eða lækkað sitt aflagjald í samræmi við þá samkeppni sem er á markaðnum. Það er ekki eingöngu Reykjavíkurhöfn sem er helsta samkeppnishöfn Hafnarfjarðarhafnar, og við vitum að hún getur að vissu leyti niðurgreitt aflagjöld sín vegna þess að hún er stærsta vöruflutningahöfn landsins og þar af leiðandi getur hún boðið upp á lægri aflagjöld. Og það væri kannski verðugt verkefni fyrir Samkeppnisstofnun og yfirvöld að fara yfir það, en einnig þá aðstöðu að aðrar samkeppnishafnir Hafnarfjarðarhafnar fá greitt samkvæmt samgönguáætlun, og þá er ég að vísa til Vestmannaeyjahafnar og hafnasamlagsins við Eyjafjörð þar sem m.a. Akureyri er inni í. Mér þætti því ágætt ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins inn á þetta, ég veit að þetta var í frv. til laga um hafnir í fyrra sem síðan var ekki afgreitt. Og einnig hver sýn hans á þessi mál er.

Síðan langar mig að koma inn á sjóvarnirnar. Einhverra hluta vegna þegar kemur að sjóvörnum á suðvesturhorninu er ekki mikið fjármagn sett í þær, ég veit ekki nákvæmlega hverjar skýringarnar eru. En ég sé m.a. að undirbúningur við Hvaleyrina er áætlaður 0,6 millj. 2003 og mig langar að heyra það frá ráðherra hvort fyrirhugaðar séu í þessum undirbúningi einhverjar áætlanir um mat á umhverfisáhrifum, hvort skipulagsstjóri úrskurði um þetta mál, því þetta skiptir Hafnfirðinga miklu máli og brotið verður meira og meira með hverju ári. Ég held að grípa verði til aðgerða á þessu svæði fyrir 2006 og eftir þetta ár, 2003. Og með það fjármagn sem lagt er í Hvaleyrina, 0,6 millj., þá kemur til með að vanta stuðning við sjóvarnir á því svæði.

Að öðru leyti sé ég að gert er ráð fyrir að Reykjavíkurflugvöllur verði miðstöð og framtíðaruppbygging flugmála hér á þessu svæði og ég fagna því. Það væri ágætt ef hægt væri að fara aðeins yfir áætlanir núverandi meiri hluta Reykjavíkurborgar að koma flugvellinum burt samkvæmt mjög sérstakri atkvæðagreiðslu sem framkvæmd var ekki alls fyrir löngu um framtíð flugvallarins. Við munum það, a.m.k. Hafnfirðingar, að það átti að drita þessu hlutverki Reykjavíkurflugvallar vítt og breitt um svæðið. Það mátti bara alls ekki vera í Reykjavík. Það var eiginlega nokkurn veginn prinsippið. Við áttum að fá eitthvað af fluginu til okkar, mig minnir æfingaflugið og kennsluflugið, og síðan voru ákveðnir aðilar, m.a. talsmenn meiri hluta Reykjavíkurborgar, sem töluðu um Álftanes. Ef hæstv. ráðherra gæti aðeins farið inn á framtíð Reykjavíkurflugvallar og uppbyggingu hans sem miðstöðvar.

Vegamálin eru kannski stóri kjarninn og bitinn í þessum samgönguáætlunum, annars vegar til fjögurra ára og hins vegar tólf ára. Það undrar engan því vegamálin eru komin skemmst á veg hjá okkur þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu á síðustu árum og aukin framlög til vegamála og er það vel. Það er mjög gott að menn hafi horfst í augu við miklar þarfir til uppbyggingar á vegakerfinu og bætt úr. Menn vilja meira en þetta er lendingin og við hana verðum við einfaldlega að una.

Við fyrsta yfirlestur á þessari ágætu samgönguáætlun, sem allir hafa sína skoðun á --- ég verð að hæla ráðherra og starfsfólki hans fyrir afskaplega vel unna samgönguáætlun, þær báðar sem hér eru til umræðu. Hún er mjög skýrlega sett upp og markmiðin eru afskaplega vel mótuð og fram sett.

Ég vil byrja á að fara aðeins yfir markmiðið um að ferðatími til og frá höfuðborgarsvæðinu verði aldrei meiri en þrjár og hálf klukkustund. Ég held að það sé markmið sem allir geti tekið undir. Menn hafa, m.a. í nýútkomnum byggðaskýrslum, sagt að lykillinn að því að halda byggð í landinu svo vel sé, sé að efla tengingar við höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina.

Í samgönguáætluninni kemur fram að akstur utan þéttbýlis hefur aukist hvorki meira né minna en um 250% frá 1980 og bílum hefur fjölgað úr 80 þús. í 180 þús. bíla. Þetta eru tölur sem gefa til kynna hversu risavaxið verkefnið er og hversu gríðarlega það hefur þanist út á síðustu missirum og því er afskaplega mikilvægt að vandað sé vel til verka þegar svona umfangsmiklar áætlanir eru settar fram.

Herra forseti. Á bls. 17 í áætluninni til 2014 finnst mér í rauninni kristallast sá munur sem er á þörfum landsbyggðarinnar annars vegar og hins vegar kröfum sem við gerum á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því að verið er að draga fram að þarfirnar hér og úti á landi eru mismunandi. Þar segir m.a. að fjárfestingum í vegakerfinu sé að stærstum hluta ætlað að uppfylla lágmarkskröfur sem gera verður til grunnnetsins á landsbyggðinni og hins vegar að auka afkastagetu vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Og eftir að hafa hlustað á ræður þingmanna í dag finnst mér velflestir hafa skilning á því að efla þurfi grunnnetið og styrkja það af fremsta mætti en einnig að menn skilji að það verði bætt úr samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Þarfirnar eru mismunandi, eins og ég sagði, og við verðum að sýna gagnkvæman skilning á þessum málum.

Því miður var það ekki svo á sínum tíma þegar fram kom þáltill. frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, sem var í rauninni fín þáltill., en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi.`` --- Það er ekki sagt nákvæmlega hvaða landshluta heldur segir, herra forseti, ,,á Íslandi``. Síðan segir: --- ,,Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð í landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna.``

Þetta var held ég að flestra mati afskaplega tímabær tillaga og menn fóru í það eftir að hún var samþykkt á hv. Alþingi að vinna þá vinnu. En viti menn, þegar sú jarðgangaáætlun lítur dagsins ljós er eins og suðvesturhornið sé klippt af Íslandi, ekki er stakt orð um jarðgangamál eða stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu hafa komið til tals og ég hefði talið eðlilegt t.d. við tillögur að gerð Sundabrautar að jarðgöng þar undir hefðu verið tekin með inn í jarðgangaáætlunina eða jarðgöng undir Hlíðafót, þannig að við hefðum það bara svart á hvítu hvert arðsemismatið er við slíkar framkvæmdir og kostnaður.

Á þeim forsendum m.a. lagði ég fyrr á þessu þingi fram tillögu um að gerð verði úttekt á mögulegum jarðgangakostum, brúarmannvirkjum og öðrum stórframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. En síðan hafa mætir menn bent á að einhvern tíma í framtíðinni, og vonandi náinni framtíð, gætum við einfaldlega bætt inn í jarðgangaáætlunina framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. En eins og ég gat um áðan eru þarfirnar á höfuðborgarsvæðinu mismunandi, við þurfum vissulega jarðgöng og við þurfum líka stærri framkvæmdir eins og Sundabraut sem við höfum verið að tala um. Það eru hugsanlega önnur stór brúarmannvirki á þessu svæði, tvöfaldanir, hugsanlega þrefaldanir til þess að anna umferðarálagi og fleira mætti telja.

Hvað snertir Sundabrautina þá er ég sammála því sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að nú liggja fyrir nokkrar tillögur að legu Sundabrautar og ég held að það væri afskaplega ábyrgðarlaust af þingheimi að velja í fyrsta lagi ekki arðsömustu framkvæmdina og hins vegar ekki nokkuð hagkvæmustu framkvæmdina um leið, þegar menn líta til þess að margir, m.a. meiri hluti borgarstjórnar í Reykjavík, vilja að farin verði hábrúarleiðin sem er miðað við 10% arðsemismat og kostar 10 milljarða a.m.k.

En síðan er önnur tillaga sem er kölluð leið 3, sem er um 7 milljarðar og munurinn verður aldrei minni en 3 milljarðar á þessum framkvæmdum, og sú leið hljóðar upp á 14% arðsemismat. Þarna er því um gríðarlega hagsmuni að ræða og þegar kemur að því að við hér á höfuðborgarsvæðinu getum valið um arðbæra kosti þá finnst mér það ábyrgðarhluti ef við veljum ekki arðsömustu leiðina, sérstaklega við eða ég sjálf, sem hef gólað um það að við eigum að reyna að velja sem arðsamastar leiðir á landsbyggðinni líka. Ég tel það vera ábyrgðarhluta ef við ætlum ekki að líta á bæði arðsemismatið og kostnaðinn. 3 milljarðar a.m.k. í mismun, hvað þýðir það fyrir okkur hér á höfuðborgarsvæðinu? Það þýðir m.a. þrenn mislæg gatnamót. Mér finnst þetta vera ábyrgðarhluti ef Reykjavíkurborg ætlar að fara að ákveða miklu dýrari framkvæmd en er í rauninni þörf á að gera, hugsanlega til þess að bjarga einhverjum skipulagsmálum í miðbæ Reykjavíkur, en það er önnur saga.

Ég vil rétt í lokin, af því að ég sé, herra forseti, að tíminn er á þrotum, fagna því að farið er inn á umferðaröryggi nokkuð skilmerkilega í þessari samgönguáætlun. Ég veit að það hefur verið afskaplega gott samstarf milli Vegagerðarinnar og lögreglunnar sem skiptir þá sem aka um á vegunum mjög miklu máli. En ég hvet til þess að það samstarf verði aukið enn frekar og um leið að embættismenn bæði dóms- og kirkjumrn. og samgrn. fari í nánara samstarf bæði þegar svona samgönguáætlun er samin og líka þegar umferðaröryggisáætlun er samin. Við gerðum okkur far um það í allshn. á síðasta vetri að kalla til m.a. sérfræðinga á vegum samgrn.

Ég tek eftir því og það virðist vera eða ég hef þann skilning að menn ætli virkilega að leggja m.a. í vegmerkingar og vegbúnað og eru töluverðar fjárhæðir til þeirra mála. En það kom skýrlega fram þegar við vorum að fara yfir umferðaröryggisáætlunina á sínum tíma að samræmi milli veghönnunar og vegmerkinga er oft ekki sem skyldi á Íslandi. Það komu ágætir sérfræðingar á okkar fund og sögðu að ranglega uppsettar vegmerkingar gætu oft valdið slysum. Ég sé á bls. 37 í þessari ágætu samgönguáætlun að áætlað er til þeirra á árunum 2003--2006 1.790 millj. og 2007--2010 1.960 millj. Þarna er um eðlilega vegmerkingu að ræða en ég vil hvetja um leið Vegagerðina og þá sem fara með samgöngumálin að hafa þetta í huga þegar þeir eru að setja upp vegmerkingar. Þær skipta gríðarlega miklu máli varðandi umferðaröryggi eins og fram kom á sínum tíma.

Ég held líka að það sé mjög fýsilegur kostur sem getið er um í samgönguáætluninni og m.a. á veginum frá Reykjavík að Selfossi um Hellisheiðina, að kanna betur og auka þann kost sem við höfum í 2 + 1 vegum. Ég held að það sé kostur sem við komum til með að líta mjög mikið til á næstu árum, m.a. vegna góðrar reynslu annars staðar á Norðurlöndum.