Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:22:38 (3411)

2003-02-04 20:22:38# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi símakerfi á þjóðvegum landsins. Það liggur fyrir að GSM-símadreifingin og GSM-uppbyggingin hefur verið mjög hröð á Íslandi þegar litið er til margra annarra landa. Það hefur tekist býsna vel til. Engu að síður er það svo að á vegakerfinu, þjóðvegakerfinu í þessu stóra landi, næst ekki alls staðar GSM-símasamband. Ég hef margsinnis lýst því sem skoðun minni í þessum ræðustól að auðvitað er það æskilegt en jafnframt geysilega dýrt. Hins vegar teljum við, þar á meðal bæði ég sem samgrh. og Vegagerðin hefur lýst vilja sínum til þess, vert að láta vinna að lausnum til þess að koma upp símasambandi á heiðum. Ég tel að það sé eðlilegt, og að þessu er unnið. Verið er að skoða þá möguleika, hvaða leiðir eigi að fara, og ég tel að í samstarfi símafyrirtækjanna og Vegagerðarinnar verði að finna þarna lausn. Það er vilji fyrir því af minni hálfu. Þetta er svar við þeirri spurningu.

Hvað varðar fyrirvara einstakra þingmanna eru þeir ekki með öðrum hætti en venjulegt er hvað varðar stuðning við þáltill. Að sjálfsögðu vinna þingmenn í þinginu í þingnefndum að því að reyna að koma sínum málum fram og gera breytingar á frv., það er fullkomlega eðlilegt og á við um vegáætlun eins og allar aðrar áætlanir. Ramminn er klár. Fjárveitingarnar eru klárar. Það eru hinar stóru ákvarðanir. Til þess er vísað.

Hvað varðar Suðurstrandarveginn er alveg ljóst að í þessari áætlun er tekin ákvörðun um að hægja á áformum um uppbyggingu Suðurstrandarvegarins til þess að geta náð mikilvægum áföngum í uppbyggingu Reykjanesbrautarinnar, bæði í gegnum þéttbýli hér og á leiðinni suður eftir. Þetta er sú ákvörðun sem er tekin með opnum huga til þess að hraða lausn á framkvæmdum á þeirri leið.