Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:22:25 (3436)

2003-02-04 21:22:25# 128. lþ. 71.12 fundur 552. mál: #A rannsókn sjóslysa# (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.

Tilgangur frv. er tvíþættur. Annars vegar er lagt til að hlutverk rannsóknarnefndar sjóslysa verði aukið. Verði frv. að lögum ber nefndinni að rannsaka atriði sem telja má að hafi verulega þýðingu fyrir afleiðingar sjóslysa, þ.e. hvaða fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um sjóslys og hvernig leitar- og björgunaraðgerðum hefur verið háttað.

Í gildandi lögum er hlutverk rannsóknarnefndar bundið við orsök sjóslysa en engum óháðum aðila er ætlað að rannsaka leitar- og björgunaraðgerðir. Í ljósi reynslunnar þykir affarasælast að fela rannsóknarnefnd sjóslysa þetta aukna hlutverk. Sambærilegt ákvæði er lagt til í frv. um rannsókn flugslysa, sem ég mælti fyrir fyrr á fundinum.

Hins vegar er markmið frv. að veita ráðherra heimild til þess að fela nefndinni endurupptöku mála ef aðstæður krefjast, t.d. ef nýjar upplýsingar eða gögn berast eftir að rannsókn málsins er lokið. Þetta ákvæði á við í algjörum undantekningartilvikum en reynslan hefur þó sýnt að nauðsynlegt er að hafa svona heimild í lögum.

Frv. felur í sér að öðru leyti almennar breytingar, t.d. er kveðið skýrt á um þagnarskyldu þeirra sem rannsaka sjóslys, hvar aðsetur nefndarinnar skuli vera og kveðið er á um samskipti nefndarinnar við aðra aðila sem að rannsókn sjóslysa kunni að koma. Að lokum er bent á það sem fram kom í framsögu minni fyrr á fundinum og varðar flugslysarannsóknir en þar er um að ræða, eins og fram hefur komið fyrr, sambærilegar breytingar og lagðar eru til hér.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgn.