Efling fjarnáms

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:24:43 (3493)

2003-02-05 15:24:43# 128. lþ. 73.9 fundur 534. mál: #A efling fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvort í bígerð sé að auka framboð á fjarnámi við skóla landsins, sérstaklega með tilliti til aukins framboðs á námi fyrir atvinnulausa.

Herra forseti. Aukið framboð á fjarnámi hefur valdið straumhvörfum fyrir fjölda fólks. Ýmis dæmi má nefna um slíkt nám. Má til telja Kennaraháskóla Íslands, Verkmenntaskólann á Akureyri og ýmsa fjölbrautaskóla. Mikil aðsókn er að fjarnámi skólanna sem gert hefur fjölda manns kleift að sækja sér nám og réttindi til þeirra. Þetta er fólk sem ella hefði ekki átt þess kost sökum búsetu-, fjárhags- eða fjölskylduaðstæðna.

Eftir að tölvueign og aðgengi að slíkri tækni varð jafnalmenn og raun ber vitni felst mikill fjársjóður í fjarnámi hvers konar og opnar það nýjar gáttir fyrir mikinn fjölda fólks. Fjarnám, endurmenntun og annað tækifæri í námstilboðum fyrir þá sem hafa horfið frá námi eða eru án atvinnu eru á meðal mikilvægustu framfaramála innan menntakerfis okkar um þessir mundir. Atvinnuleysi hefur bitnað sérstaklega á þeim sem litla menntun hafa og búa ekki við sérhæfingu eða fagþekkingu á vinnumarkaði. Annað tækifæri í menntun á byggjast á aðgengilegu grunnnámi, framhaldsnámi, starfsnámi eða námstilboðum fyrir þá sem vilja bæta við sína fyrri menntun. Þannig jöfnum við tækifærin og búum til öfluga veitu inn í atvinnulífið og greiðum þeim leið sem hafa misst atvinnu sína inn á vinnumarkaðinn að nýju.

Herra forseti. Það er mikilvægt að skjóta frekari stoðum undir fjarnámið hvort heldur er í grunnnámi, á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Þá þarf að tryggja að slíkt nám sé aðgengilegt og ódýrt og komi í veg fyrir að skólarnir nýti sér mikla eftirspurn eftir fjarnámi sem sérstaka tekjulind og mismuni þannig fólki eftir efnahag. Undanfarið hefur verið vakin athygli á því hve skólagjöld við fjarnám Fjölbrautaskólans við Ármúla hafa hækkað mikið. Þar hafa skólagjöldin fyrir fjarnámið á vorönn 2003 hækkað úr 4.250 kr. í 23 þús. kr. eða um 441% fyrir einstaklinga sem eru 20 ára og eldri. Þannig er rukkað fyrir sjálfsnám á netinu eins og um kvöldskóla sé að ræða. Þarna er verið að láta nemendur í fjarnámi borga fyrir leigu á húsnæði, hita, rafmagn, þrif á kennslustofum, viðhald og kennara sem kennir tíma sem þeir hafa ekki aðgang að.

Í þessu ljósi beini ég þeirri spurningu, eins og áður sagði, til hæstv. menntmrh. hvort í bígerð sé að auka fjarnám við skóla landsins og sérstaklega með tilliti til aukins námsframboðs fyrir þá sem eru atvinnulausir.