Efling fjarnáms

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:27:44 (3494)

2003-02-05 15:27:44# 128. lþ. 73.9 fundur 534. mál: #A efling fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Fyrirspurnin hljóðar svo:

,,Er í bígerð að auka framboð á fjarnámi við skóla landsins, sérstaklega með tilliti til aukins framboðs á námi fyrir atvinnulausa?``

Mjög mikil aukning og gróska hefur verið í framboði á fjarnámi á undanförnum árum á öllum skólastigum, einkum á framhaldsskólastigi og á háskólastigi. Árið 1999 voru 833 nemendur í fjarnámi á háskóla- og framhaldsskólastigi en árið 2002 voru þeir orðnir 4.069 þannig að segja má að sprenging hafi orðið á þessum vettvangi. Margir aðilar koma að framboði á fjarnámi. Símenntunarmiðstöðvar um allt land hafa séð um að miðla háskólanámi til sinna svæða í samvinnu við háskóla í landinu og einnig hafa þær séð um framboð á ýmsum námsleiðum og styttra námi og tryggt að það væri aðgengilegt í fjarkennslu. Sífellt fleiri framhaldsskólar bjóða nú fram fjarkennslu og nánast allir bóklegir áfangar framhaldsskólans eru nú boðnir fram í fjarnámi.

Menntmrn. hefur gengist fyrir því að háhraðaneti sem tengir saman alla framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar í landinu hefur verið komið á og eru miklar vonir bundnar við að það auki fjarnám verulega og geri það auðveldara á allan hátt. Þannig má segja að ráðuneytið hafi haft forgöngu um í samvinnu við framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar að gera fjarnám að aðgengilegum kosti fyrir fólk hvar sem það býr á landinu og telur ráðuneytið að þetta hafi nú þegar jafnað aðstöðu fólks til náms og muni gera það enn frekar í framtíðinni. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að Íslendingar hafa gengið lengra í þessum efnum en nokkur önnur þjóð, þ.e. að gera nám aðgengilegt í gegnum fjarskipti til íbúa, ekki síst til dreifðra byggða.

Eins og fram hefur komið hefur fjarnámið stóraukist á síðustu árum og ráðuneytið hefur stuðlað með þessum hætti að eflingu þess. Háskólanámssetur á Egilsstöðum er í undirbúningi en það mun gera fjarnám á háskólastigi auðeldara fyrir íbúa þess héraðs og bæta aðstöðuna þar. FS-netið er hluti af þeim aðstæðum sem hafa verið skapaðar til þess að auka slagkraft fjarnámsins. Þetta kemur sér vel við þær aðstæður sem hv. þm. gat um áðan sem eru um stundarsakir á vinnumarkaði.

Það er rétt að geta þess að sérstakar aðgerðir vegna aukins atvinnuleysis eru ekki á dagskrá, enda eru aðgerðir í skólamálum jafnan langtímaaðgerðir og breytingar í skólastarfi slíkar að þær þurfa nokkurn tíma til að skila sér. Hins vegar eru þær aðstæður sem skapaðar hafa verið í fjarnáminu þess eðlis að þær geta komið að góðum notum þegar tímabundnar atvinnuástæður skapa atvinnuleysi og það er einmitt þannig sem þetta mál er vaxið hér að við vitum að erfiðleikar í atvinnulífinu eru tímabundnir og betri horfur eru svo í atvinnumálunum innan langs tíma.