Staða almannavarna

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:38:23 (3515)

2003-02-06 10:38:23# 128. lþ. 74.91 fundur 409#B staða almannavarna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er komin upp afskaplega sérkennileg staða svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í fjárlagafrv., sem lagt var fram venju samkvæmt á fyrsta degi þingsins, var boðuð breyting sem gekk síðan aftur í frv. hæstv. dómsmrh. 12. des., tveimur dögum fyrir jólaleyfi þingmanna. Hæstv. ráðherra dómsmála lætur sig hafa það að koma fram í fjölmiðlum og standa frammi fyrir þingheimi og kvarta yfir því að málið skuli ekki afgreitt. Hún kemur fram með frv. um málið einum og hálfum degi áður en þingi er frestað og kemur svo og kvartar og kveinar yfir því að þingmenn hafi ekki afgreitt málið.

Hæstv. forseti. Hún lét þess og getið að hér væri ekki neitt óeðlilegt á ferðinni enda þótt fjárlög hafi verið afgreidd líkt og að breytingin hafi átt sér stað. Hún segir að hún hafi gengið frá þessu máli, í fjölmiðlum og aftur núna, við fjmrn. og Fjársýslu ríkisins. Ekki eru það þeir aðilar sem setja landinu lög. Ekki ganga þeir frá fjárlögum. Nei, það er hv. Alþingi.

Ég bið hæstv. ráðherra að gera þinginu betur grein fyrir því hvaða breytingar hafa verið gerðar á fjárlögum í samráði við Fjársýslu ríkisins og fjmrn. og með hvaða heimildum þingsins. Svona getur þetta ekki gengið.

Hér hef ég aðeins vikið að formsatriðum málsins, herra forseti. Efnisatriði málsins eru síðan önnur. Mitt mat er það sem ég lýsti strax á haustdögum þegar þessar breytingar voru boðaðar að flas væri ekki til fagnaðar í þessum efnum. Menn eiga auðvitað að setja þetta frv. ráðherra til hliðar og einbeita sér að heildarendurskoðun þessara mála og gefa sér góðan tíma til hennar. En þessi ríkisstjórn og þessi ráðherra hefur ekki tíma til þess því að það eru bara 90 dagar til kosninga, sem betur fer.