Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:54:50 (3545)

2003-02-06 12:54:50# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist sem við ráðherra séum í aðalatriðum sammála um þetta með heilsugæsluna. Þá er auðvitað skaði að ekki skuli vera hægt að búa um þetta með nógu einföldum hætti til að allir skilji sáttir við.

Ég sting strax upp á því að það verði gert með þeim hætti að almenna reglan í lögunum verði sú að þetta verði hlutverk opinberu heilsugæslunnar en það verði heimild til undanþágu frá því ákvæði ef aðstæður eru þannig á einhverjum svæðum að við þær verði ekki ráðið. Verði heilsugæslan t.d. beinlínis ekki í færum til þess að sinna þeim verði hægt að veita heimild til undanþágu en almenna reglan verði sú að heilsugæslan annist þetta. Það er mikilvægt að mínu mati til þess að forðast það að við byggjum upp tvöfalt kerfi. Það er mikilvægt til þess að líta frekar á þetta sem tækifæri til að styrkja heilsugæsluna og efla heilsuvernd sem er eitt af því sem fólk fullyrðir einmitt að þurfi að gera. Það er sem betur fer að vísu víða frjálst samstarf um þessa hluti án þess að menn hafi verið skyldaðir til þess. Ég þekki mörg dæmi þess að tekist hafi ágætt samstarf milli stórra vinnustaða, t.d. fiskvinnslustöðva og heilsugæslustöðva, um heilsuvernd, um jafnvel endurhæfingu, þjálfun og annað í þeim dúr. Ég er algerlega sannfærður um að þetta væri skynsamlegasta fyrirkomulagið.

Að lokum, herra forseti, hvað læknakandídatana varðar held ég að menn eigi að horfa til þeirra möguleika sem í því væru fólgnir að bæta starfsaðstæður ungra lækna í starfsnámi til að fá fleiri til að taka að sér störf á heilbrigðisstofnunum innan lands. Eitt vandamál sjúkrahúsa og sérhæfðra heilbrigðisstofnana á Íslandi er að það vantar þetta vinnuafl. Það fer að langmestu leyti beint til útlanda eftir að skyldum var aflétt.