Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:08:00 (3555)

2003-02-06 14:08:00# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég varpaði fram þeirri spurningu til flokksbróður míns í Samfylkingunni, hv. þm. Kristjáns Möllers, hvort hann teldi að skýrsla sú sem kom fram á síðustu dögum um flutningskostnað fæli í sér einhverjar leiðir til þess að lækka vöruverð og flutningskostnað í landinu. Það er ákaflega mikilvægt, finnst mér, að hv. þm. Kristján Möller, sem er mestur sérfræðingur í þessum sölum í þessu máli, er þeirrar skoðunar að ekkert hafi komið fram í þessari skýrslu sem sé líklegt til þess að draga úr vöruverði á landsbyggðinni.

Herra forseti. Flokkur minn, Samfylkingin, hefur lagt ofurkapp á að lækka vöruverð til þeirra sem búa á landsbyggðinni. Við erum talsmenn sanngjarnrar byggðastefnu og við viljum að landið haldist í byggð. Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna, herra forseti, að eitt af því sem menn telja hvað erfiðast við það að búa úti á landi sé hátt vöruverð. Við þurfum auðvitað að grafast fyrir um orsakir þessa. Er það vegna þess, herra forseti, að kaupmenn úti á landi skari eld að eigin köku og taki óhóflegan hagnað af starfsemi sinni? Er það vegna þess að ríkið taki óhóflegan skatt og leggi óhóflega mikil gjöld á flutninga og starfsemi á landsbyggðinni? Herra forseti. Maður hefði vænst þess að svara við þessu væri leitað í skýrslunni. En ég tek undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller að þessi svör er ekki að finna í skýrslunni. Það er athyglisvert að í þeirri þáltill. sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt um rannsókn á orsökum hás vöruverðs á landsbyggðinni, og sem hv. þm. Kristján Möller hefur haft frumkvæði að að flytja ítrekað í þessum sölum, er leitað svara við þessu. Hv. þm. Kristján Möller hefur lagt það á sig sem ríkið hefði auðvitað átt að gera, þ.e. hann hefur gert ítarlega kostnaðarkönnun í fjölda verslana á landsbyggðinni og hann hefur fyrir sitt leyti svarað þeim tveimur spurningum sem ég varpaði hér fram. Hv. þm. hefur t.d. sýnt fram á það með tölum sem hægt er að sannreyna í greinargerð með þessari þáltill. þingmanna Samfylkingarinnar að smásalar á landsbyggðinni, kaupmenn á landsbyggðinni, eru ekki að skara eld að eigin köku. Þeir iðka ekki óhóflega álagningu. Þeir taka ekki of mikið fyrir þjónustu sína. Nei, þvert á móti, framlegð þeirra er oft og tíðum mjög lítil og hún er stundum minni en það sem nemur flutningskostnaðinum.

Herra forseti. Það er Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur sýnt fram á það að orsaka hás vöruverðs er ekki að leita hjá þeim sem stunda verslun á landsbyggðinni. Sömuleiðis hefur hv. þm. og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sýnt fram á það svart á hvítu að þungaskattur er verulega íþyngjandi fyrir þá sem búa á landsbyggðinni. Þungaskatturinn leiðir til þess að þeir sem eiga heima fjarri Reykjavík, sem oft og tíðum er uppskipunarhöfnin fyrir þær neysluvörur sem landsbyggðin þarf á að halda, þ.e. hann leiðir til þess að vöruverð á landsbyggðinni er allt of hátt. Sömuleiðis hefur hv. þm. Kristján Möller með útreikningum sem eru lagðir fram hér í þáltill. þingmanna Samfylkingarinnar sýnt fram á það með hvaða hætti virðisaukaskattur er líka íþyngjandi, herra forseti. Það er auðvitað sanngjarnt að þegar menn standa frammi fyrir könnunum hæstv. ríkisstjórnar sem sýna það svart á hvítu að það er vöruverð sem dregur úr þrótti landsbyggðarinnar, sem ýtir fólki af landsbyggðinni, hljóti þeir að kanna og grafast fyrir um orsakir þessa háa vöruverðs.

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Möller, Einar Már Sigurðarson, Margrét Frímannsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað gert þetta að umræðuefni á hinu háa Alþingi. Það er alveg ljóst að þarna er snöggur blettur á feldi ríkisstjórnarinnar. Hér er um að ræða mál sem gæti reynst ríkisstjórninni erfitt í kosningum. Hæstv. forsrh. hefur mælt úr þessum stóli um nánast hvaða mál sem tekið er upp að það sé kosningamál. Einu get ég lofað, herra forseti, þingmenn Samfylkingarinnar munu gera hátt vöruverð á landsbyggðinni að kosningamáli á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst. Ríkisstjórnin sagði að þessi skýrsla um flutningskostnað sem menn hafa beðið eftir í 15 mánuði ætti að fela í sér svörin, þessi skýrsla ætti að sýna fram á leiðir til þess að draga úr flutningskostnaði, til þess að draga úr háu vöruverði á landsbyggðinni. Hvað kemur í ljós, herra forseti? Niðurstöður skýrslunnar sem raktar eru hér á nokkrum blaðsíðum hafa ekki að geyma nokkurt einasta ráð, meira að segja er þar slegið á ákveðnar hugmyndir sem hv. þm. Kristján Möller hefur þó reifað hér. Þar er t.d. slegið á þann möguleika að kanna það að hafa mismunandi þungaskatt, hlutfallslega minni eftir því sem fjær dregur frá uppskipunarhöfninni. Það er slegið á það. Það er einungis eitt sem kemur fram í niðurstöðum þessarar skýrslu sem ég vil vekja sérstaka eftirtekt á, herra forseti. Það hefur verið dregið fram í þessari umræðu að tveir þingmenn Sjálfstfl., m.a. hv. 1. þm. Norðurl. e., hafa haldið því fram að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafi flutningskostnaður lækkað. M.a. sjálfur hæstv. forsrh. hefur haldið þessu fram. Ég vil því spyrja hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrst hann er kominn hér í salinn: Hvaða röksemdir hefur hann fyrir því að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafi flutningskostnaður lækkað? Má ég benda hv. þm. Halldóri Blöndal á það að í niðurstöðum skýrslunnar sem ég er hér að rekja er þetta gersamlega hrakið. Þar er frá því greint, herra forseti, að í landflutningum hafi átt sér stað mikil samþjöppun og hún hafi gert það að verkum að í dag eru einungis tveir flutningsaðilar með næstum alla landflutninga á Íslandi. Niðurstaðan í skýrslunni er þess vegna sú að fákeppni er ráðandi í þessum flutningum. Hvaða ályktun draga skýrsluhöfundar síðan af þessu, herra forseti? Þeir draga eftirfarandi ályktun sem hrekur allt það sem hæstv. forsrh. og hv. þm. Halldór Blöndal hafa sagt um lækkun flutningskostnaðar á þessu kjörtímabili. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

[14:15]

,,Samfara þessu hafa gjaldskrár flutningsaðila hækkað verulega umfram þróun neysluvöruvísitölu.``

Herra forseti. Annars staðar segir í niðurstöðum þessarar skýrslu, með leyfi forseta:

,,Almennt voru viðmælendur sammála um að greiddur flutningskostnaður færi enn vaxandi og að hann hefði hækkað umfram almenna verðlagsþróun að undanförnu.``

Herra forseti. Þetta er það eina marktæka sem er að finna í þessari skýrslu og það vill svo til að það hrekur þær fullyrðingar sem hv. 1. þm. Norðurl. e. og hæstv. forsrh. hafa verið með hérna um að í þeirra tíð, tíð þessarar ríkisstjórnar, hafi flutningskostnaður lækkað.