Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:18:18 (3557)

2003-02-06 14:18:18# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Úr sal er kallað: ,,Við þingmenn Samfylkingarinnar erum jafnaðarmenn.`` Það er alveg ljóst að við viljum grípa til þeirra ráðstafana sem þarf til að jafna aðstöðuna. Eitt af því sem menn nota sem áveitutæki í samfélaginu til þess að flytja fjármuni á milli þjóðfélagshópa er skattkerfið. Það er í eðli sínu ekkert annað en jöfnunartæki þar sem tekið er frá þeim sem hafa hæstar tekjur og veitt til þeirra með einhverjum hætti sem ekki hafa jafnháar tekjur. Þessir áveituskurðir liggja auðvitað þvers og kruss um samfélagið eins og hv. þm. veit og enda í Íbúðalánasjóði í félagslega kerfinu. Hv. þm. bendir réttilega á að þeir sem búa fjærst höfuðborginni greiða, sökum búsetu sinnar, í vissum tilvikum hærri skatta. Í hvaða tilvikum? Þeir greiða hærri þungaskatta sem koma fram í of háu vöruverði og það hefur sömuleiðis verið rakið með hvaða hætti virðisaukaskattur getur lagst þyngra á þessa íbúa landsins.

Ég hef sagt það í þessari umræðu að við þurfum að kanna alla nothæfa möguleika til þess að jafna muninn millum þéttbýlisins og þeirra sem búa úti á landsbyggðinni. Hugsanlega er ein leið fólgin í því t.d. að hafa mismunandi þungaskatt. Þetta er eitt af því sem ég hef reifað hér í umræðunum. Þetta er leið sem við þurfum að skoða, með hvaða hætti væri leyfilegt gagnvart jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar að fara þessa leið. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur áður, eins og raunar þingmenn Samfylkingarinnar, bent á að í sumum löndum fara menn þessa leið. Ég hef sagt það alveg hikstalaust að ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi t.d. að hafa tekjuskattkerfið breytilegt eftir því hvar menn búa, alls ekki, svo að það komi algerlega skýrt fram. En ég vil að það verði skoðað hvort hægt sé að hafa mismunandi þungaskatt sem er þá þannig að hann lækki hlutfallslega eftir því sem fjær dregur uppskipunarhöfn, þ.e. í þessu tilviki Reykjavík.