Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:24:44 (3561)

2003-02-06 14:24:44# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Svo er guði fyrir að þakka að það er ákaflega líklegt að sá flokkur sem hv. þm. Halldór Blöndal er enn þá í muni ekki vera við landstjórnina eftir þrjá mánuði. Þá getum við a.m.k. treyst því að við taki ríkisstjórn sem gerir eitthvað annað en bara að drepa málum á dreif eins og sú ríkisstjórn sem hv. þm. styður.

Spurningar hv. þingmanns til mín voru tvær. Hvað þyrfti að skoða og hvenær ætti að hætta að skoða það.

Herra forseti. Ég skal þá upplýsa hann um hvað það er sem ég tel að þurfi að skoða. Ég tel að það þurfi að skoða þróun vöruverðs og rekstrar og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni sl. tíu ár, þ.e. þau ár sem flokkur hv. þingmanns hefur verið við stjórnvöl. Ég tel að það eigi að kanna hvernig þessir þættir hafi helst haft áhrif á vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni annars vegar og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það þurfi að kanna sérstaklega og meta áhrif þungaskattsins á vöruverð og hvernig það hefur haft áhrif á vöruverð, þá sérstaklega á landsbyggðinni. Ég tel að það eigi að kanna með hvaða hætti þungaskattur hefur haft áhrif á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Síðan tel ég auðvitað sérstaklega að það þurfi að skoða ummæli hv. þm. Halldórs Blöndals ásamt félaga hans, hæstv. forsrh., en þeir hafa ítrekað haldið því fram að flutningskostnaður hafi farið minnkandi á þessu kjörtímabili. Ég er að segja það, herra forseti, að sú skoðun er ekki lengur í gangi vegna þess að skýrslan sem ríkisstjórn þessara manna hefur lagt fram sýnir að þeir höfðu rangt fyrir sér í því efni.

Herra forseti. Þegar við vorum í umræðum hér fyrir fjórum mánuðum, hvað sögðu talsmenn stjórnarliðsins þá? ,,Það þarf ekki að bíða lengur eftir þessum málum vegna þess að það er að koma skýrsla. Þið þurfið ekki að hafa neinar skoðanir eða vera uppi með neinn tillöguflutning í þeim vegna þess að það er að koma skýrsla.`` Nú er skýrslan komin. Fjallið tók jóðsótt, og hvað fæddist? Það er rétt að hv. 1. þm. Norðurl. e. svari því. En það var mús.