Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:29:20 (3564)

2003-02-06 14:29:20# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur einkennst af því að menn tala sig heita út af ástandinu og það geta í sjálfu sér allir lýst því. En skýrslan umtalaða, þ.e. afleiðing af henni, ber þess merki í umræðunni að hér er um hápólitískar aðgerðir að ræða. Skýrslan kemur ekki með tillögur vegna þess að þær eru mismunandi eftir því hvaða pólitísku sýn menn hafa á það hvernig þeir ætla að fara í þessi mál. Þá vil ég nú spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar: Er það almenn stefna til jöfnunar úti á landsbyggðinni, t.d. í grunnþjónustu fyrirtækja og þess háttar, að beita niðurgreiðslum úr ríkisstjóði? Samfylkingin styður t.d. hlutafélagavæðingu, hún hefur gert það, eins og á Símanum og öðrum grunnþjónustuþáttum.

[14:30]

Næst á t.d. að fara í orkugeirann. Hér er um gríðarlega íþyngjandi breytingar fyrir landsbyggðina að ræða þegar til lengri tíma er litið. Má t.d. búast við því, í breyttu orkuumhverfi, að það verði tillaga Samfylkingarinnar að beita niðurgreiðslum úr ríkissjóði en ekki jöfnun í rekstri fyrirtækjanna eins og annars staðar er gert? Það er gert með sköttum eða þá með orkugjaldi svo ég nefni dæmi.

Það er mjög mikilvægt að fá fram hina pólitísku sýn á hvernig menn ætla að tækla þessi mál. Hvernig á að fara í það ná þessum jöfnuði? Það verðum við að fá fram. Það er pólitísk spurning.

Spurning mín til hv. þm. er því hvort þetta sé leið Samfylkingarinnar til jöfnunar í heildina tekið, ekki bara varðandi vöruverð heldur grunnþjónustu fyrirtækja og einstaklinga úti á landsbyggðinni líka, bankasarfsemi, póstdreifingu, símaþjónustu, orkufyrirtæki o.s.frv.