Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:16:06 (3583)

2003-02-06 15:16:06# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson skuli víkja að þessu. Ég hafði ekki tíma til að gera það í ræðu minni áðan og fæ þá tækifæri til þess núna.

Menn sem standa fyrir fyrirtækjarekstri á Akureyri, bæði iðnrekendur, menn í sjávarútvegi og aðrir, hafa mjög margir komið að máli við mig rætt um nauðsyn þess að hrundið verði í framkvæmd þeirri vegagerð sem ég hef vakið athygli á, að fara um Stórasand sunnan við Mælifell til Akureyrar og stytta leiðina um 81--82 km, byggja upp sterkan veg fyrir þungaflutninga sem auðvitað mundi lækka flutningskostnað mjög verulega, kannski um 25% ég þori ekki með það að fara. Það eru einmitt ýmsir atvinnurekendur á Akureyri sem telja að það sé eitthvert mesta hagsmunamál atvinnurekstrar Akureyrar nú um stundir að hrinda þessu í framkvæmd.

Auðvitað er rétt hlutfall á milli vegalengdar og kostnaðar í þessu samhengi. Þess vegna var mjög athyglisverð sú spurning sem hv. þm. Kristján Möller vék að mér í gær þegar hann spurði mig úr ræðustól hvort ég teldi að flutningskostnaður yrði minni ef vegalengdin styttist. Þá spurði ég á móti: Heldurðu að flutningskostnaður verði meiri ef vegalengdin er meiri? En auðvitað var það rétt spurning hjá hv. þm. Flutningskostnaðurinn verður minni ef vegalengdin styttist. Það er af þessum sökum sem mjög þýðingarmikið er að stytta leiðina milli Akureyri og Reykjavíkur og bæta með því rekstrarumhverfi og rekstrarskilyrði almenns iðnaðar á Akureyri sem keppir á innlendum markaði. Mér þykir vænt um að hv. þm. skyldi gefa mér tækifæri til að skýra þetta fyrir honum.