Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:27:33 (3590)

2003-02-06 15:27:33# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, hætti, um skattastefnu núv. ríkisstjórnar á fyrirtæki á landsbyggðinni. Förum aðeins yfir það.

Skattkerfisbreytingar gagnvart atvinnurekstri: Lækkun tekjuskatts úr 30% í 18%, lækkun á eignarsköttum, á móti kemur hækkun á tryggingargjaldi. Hvaða áhrif hafði þessi skattkerfisbreyting, sem hv. þm. Halldór Blöndal tók þátt í að styðja, á atvinnurekstur á landsbyggðinni? Atvinnurekstur á landsbyggðinni hagnast ekkert á þessari skattkerfisbreytingu, hv. þm. Halldór Blöndal. Eigum við að fara aðeins yfir í Norðurlandskjördæmi eystra? Þar mun þetta leiða til þess að fyrirtæki í Norðurlandskjördæmi eystra munu borga hærri skatta eftir þessa skattkerfisbreytingu hæstv. ríkisstjórnar sem hv. þm. Halldór Blöndal studdi en þau gerðu áður. Þetta eru borðleggjandi staðreyndir í gögnum sem komið hafa frá ríkisskattstjóra.

Hæstv. ríkisstjórn sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur stutt hefur verið iðin við að leggja landsbyggðarskatta á atvinnufyrirtæki og almenning í landinu. Það er sorglegt að þingmaður af landsbyggðinni, eins og hv. þm., skuli taka þátt í þessum gjörningi gegn landsbyggðinni.

Eigum við að rifja upp fleiri skatta? Eigum við að rifja upp flugmiðaskattinn sem átti að setja á sem okkur þingmönnum Samfylkingarinnar tókst að reka ríkisstjórnina til baka með? Eigum við að fara aðeins yfir það hvernig þungaskatturinn hefur hækkað? Mér gefst ekki tími til þess núna. Ég skal gera það á eftir vegna þess að við höfum gögn um það frá því að hv. þm. var samgrh. Eigum við að fara aðeins yfir þessi gögn? Það er sama hvar er farið, herra forseti, hæstv. ríkisstjórn hefur verið duglegust við að lækka skatta á stórfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu en hefur íþyngt fyrirtækjum á landsbyggðinni. Í okkar kjördæmi, í Norðurlandskjördæmi eystra, kemur þetta þannig út að atvinnurekstur þar mun borga hærri skatt en áður.