Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:08:41 (3604)

2003-02-06 16:08:41# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hún hefur verið töluvert málefnaleg hjá hv. þm. Það sama verður ekki sagt um hinn þingmann Sjálfstfl. sem um þetta mál fjallaði.

Herra forseti. Nú er komið að lokum umræðunnar um þessa þáltill. sem ég er 1. flm. að, um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Hún fjallar um, herra forseti, eins og hv. þm. nefndi í lokin, að skipa nefnd til að fara í gegnum þetta mál. Ég var mjög hugsi yfir því í byrjun hvað ég ætti að gera. En ég vil taka fram að mín hugmynd er ekki klár og kvitt, þ.e. hvernig hún á að koma fram. Ég er opinn fyrir öllum góðum hugmyndum um hvernig skuli leysa þessi mál. Ég hef kynnt mér þetta í þaula. Ég hefði gjarnan viljað leggja þetta fram núna eftir að vera búinn að fá allar þær miklu upplýsingar sem ég hef fengið eftir að þessi tillaga kom hér fram og þá miklu umræðu sem hún hefur fengið í þjóðfélaginu.

Hvað á að gera? spyrja hv. þm. Sjálfstfl. Hvað á að gera, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, ef flutningabíll með vagn sem keyrir sex sinnum í viku fram og til baka til Bolungarvíkur allar vikur ársins greiðir 14 millj. í þungaskatt? Auðvitað fara þessar 14 millj. beint út í verðlagið. Hvað á að gera? 40--50% af tekjum flutningafyrirtækjanna fara til ríkisins.

Hvað á að gera? Hv. þm. Halldór Blöndal spyr: Á að skipta þungaskatti niður í einhverja flokka eftir landshlutum? Ég hef staldrað töluvert við ákveðna hugmynd á seinni stigum. Hún er ekki frá mér komin heldur frá hagsmunaaðila, einum af þeim fjölmörgu sem við mig hafa talað um þetta. Tillagan er þessi: Leggjum af megnið af allri skattheimtu ríkisins á flutningastarfsemi í landinu. Það getur enginn bannað okkur það. Þar með krefjumst við þess að kerfið láti það koma fram í lækkuðum flutningskostnaði. Þetta er ágætisleið sem ber að huga að. Ég skal svo á eftir koma að því hvernig framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fallist á svona ívilnanir til handa Svíum.