Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:01:42 (3621)

2003-02-06 18:01:42# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að lýsa andstöðu minni við þessa tillögu. Eins og nú standa sakir fer því víðs fjarri að hægt sé að tala um að sæmilegt aðgengi sé til þjóðgarða ef við a.m.k. tölum um þá þjóðgarða sem eru á Norðurlandi, Jökulsárgljúfur, Öskju --- sem er að vísu ekki þjóðgarður --- Ásbyrgi og Dettifoss, þá er aðgengi á þessa staði ekki slíkt að hægt sé eða verjandi að leggja þjónustugjald á þá sem þangað fara. Hið sama má raunar segja um Dimmuborgir og Mývatnssveit almennt, vegna þess að þjónusta við ferðamenn er þar mjög af skornum skammti. En á hinn bóginn háttar svo til þar að sveitarfélagið hefur tekið sig fram um að hafa þar fallegan reit, Höfða, yndislegan reit, sem seldur er aðgangur að yfir sumartímann og væri auðvitað fráleitt ef ríkið færi að keppa við það sveitarfélag um aðgang að því svæði sem þar er, líka vegna þess að mér er ekki kunnugt um að umhvrn. né stofnanir þess hafi lagt neitt á sig til þess að reyna að taka vel við ferðamönnum eða skýra svæðið fyrir þeim sem þangað koma.

Ég hef haft áhuga á því á undanförnum árum að leggja heitt vatn að Ásbyrgi til þess að fólk sem þar er í tjöldum eða á leið um geti farið í sund og notið hvíldarinnar eins og við Íslendingar viljum helst gera það, en fengið litlar undirtektir. Yfirleitt er það þannig að þeir fjármunir sem við verjum til þjóðgarða og náttúruverndar hafa lítið snúið að því að bæta aðgengi að slíkum stöðum. Meðan ég var samgrh. gekk ég fram í því að reyna að bæta aðgengi í Dimmuborgum og að leirhverunum í Námafjalli. Það kom af stað verkefninu ,,Fossar í fóstri`` við Dettifoss, og auðvitað ástæðulaust að skattleggja vegfarendur með þessum hætti til umhvrn.

Nú er það svo að hugmyndir um þjóðgarð, Vatnajökulsþjóðgarð, eru umdeildar og ég hef ekki séð þær hugmyndir. En ég hef aldrei skilið hvers vegna menn telja það eiga saman að Öræfasveit eigi að vera í þjóðgarði með Kelduhverfi, mér þykir mjög undarlegt þegar ég heyri slíkar hugmyndir og sé satt að segja ekki hvað er sameiginlegt með þeim. Í mínum huga kemur til greina að friða svæðið norðan Vatnajökuls, ég hef alltaf litið svo á að það yrði þá sjálfstæð eining og byggð upp með þeim hætti að það yrðu sveitarfélögin þar fyrir norðan sem bæru ábyrgð á vernd og gæslu svæðisins. Þar yrði komið upp öflugum rannsóknarstöðvum sem væru sjálfstæðar og í engum tengslum við sambærilegar stofnanir í Reykjavík til að tryggja að eðlilegt fjármagn berist þangað og til að tryggja að þær rannsóknir sem þar verði unnar séu unnar af fólki sem þar starfar og þar býr og er í sátt við aðra þá sem eiga þar heima. Við erum nú að byggja bæði upp Akureyri og Austurland og engin ástæða til að ætla annað en að þau svæði verði í framtíðinni fær um að stjórna sínum málum, þar á meðal þessum fögru sveitum og þeim víðáttum sem þarna eru, en við erum á hinn bóginn víðs fjarri því að geta lagt skatta á þá sem þangað koma.

Það er verið að reyna að byggja upp ferðaþjónustu á þessum stöðum vanburða, og eins og hæstv. forseti veit er það nú svo t.d. um þjóðgarðinn niður með Jökulsá á Fjöllum að það má þakka fyrir ef hægt er að aka um hann í júlímánuði, algjörlega vonlaust að ætla sér að komast niður með Jökulsá að vestan fyrr en þá eftir miðjan júní, alls ekki í maímánuði í venjulegu veðurfari. Við erum því að tala um hugmyndir sem gætu kannski átt rétt á sér eftir áratug eða tvo en eins og nú standa sakir og eins og vegáætlun lítur núna út er ekki við því að búast að þeir menn sem búa á þessum svæðum sjái eitthvert réttlæti í því að skattleggja eigi ferðaþjónustu á þessum svæðum til Reykjavíkur. Það er auðvitað algjörlega út í hött.

Ekki má gleyma því að þeir skattpeningar sem eru lagðir á eiga að fara til landsmanna allra. Búið er að verja verulegum opinberum fjármunum til þess að styrkja og styðja aðgengi að ferðamannastöðum hér um slóðir sem ekki hefur verið gert á þessum afskekktari stöðum. Ég held þess vegna að tillagan sé vanhugsuð og að sumu leyti sé þar um að kenna ókunnugleika.

Ef ég tæki t.d. Herðubreiðarlindir og Öskju þá hefur ríkið ekkert komið að því nema með litlum styrkjum að byggja upp þá aðstöðu sem þar er. Það hefur verið mestan part Ferðafélag Akureyrar og þeir sem þar starfa og örðugt að sjá hvers vegna ríkið ætti svo að hlaupa til og geta skattlagt menn til sín. Hið sama er að segja um Vesturdal eða Hljóðakletta, það er erfiður vegur þangað upp eftir og ég tala nú ekki um ef maður reynir svo að komast áfram upp að Dettifossi. Það er fjöldi fólks sem beinlínis segist ekki leggja bíla sína í slíka ófæru og kýs fremur að aka hjá. Fyrst er að reyna að tryggja það að menn komist sæmilega á þessa staði, síðan geta menn velt fyrir sér að skattleggja þá.