Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:50:15 (3633)

2003-02-06 18:50:15# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:50]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að leggja eigi niður þjóðgarða. Hins vegar hef ég haft ákveðnar efasemdir um þá stefnu sem hefur verið undanfarin ár að fjölga þjóðgörðum enn meir en verið hefur. Og þá er það fyrst og fremst einmitt út af þeirri stefnu eða stefnuleysi að halda ekki betur utan um þá þjóðgarða sem þegar eru starfandi. Ég hef haft efasemdir um að bæta eigi við þjóðgörðum meðan ekki er nægilega vel séð um þá sem þegar eru starfandi í dag.

Varðandi áskriftargjaldið, eins og hv. þm. leggur það fram, þá er það nú hálfhlægilegt. En ég hafði nú samt sem áður hugsað þetta í víðara samhengi að með því móti væri verið að skapa ákveðna menningu og ákveðna stefnu í kringum þau ferðalög sem fjölskyldan fer um landið, að hún sækist sérstaklega eftir að sjá þau náttúruundur sem landið hefur upp á að bjóða og þetta væri m.a. ákveðin stýring á því.