Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 14:01:58 (3715)

2003-02-11 14:01:58# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg að bæði fjölbreytni atvinnulífs á næstu árum og varanlegur hagvöxtur meðal þjóðarinnar muni hvíla á menntuninni, sérstaklega á iðn- og tæknimenntun. Því er ekki að undra þó að Samtök atvinnulífsins hafi lýst þungum áhyggjum yfir þeirri þróun sem hefur orðið í menntamálum á síðustu árum, þ.e. að iðn- og tæknimenntun hefur stöðugt átt undir högg að sækja og vegur hennar farið síminnkandi í menntunarlífi þjóðarinnar.

Hv. þm. Hjálmar Árnason, sem jafnframt er aðili að þessari ríkisstjórn, lýsti því hér áðan að ekkert hefði gerst sl. 20 ár. Varla getur maður eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sem styður þessa ríkisstjórn sem setið hefur nú a.m.k. um 12 ára skeið tekið sterkar til orða. Þó að Framsókn hafi ekki verið þar allan tímann hefur lítil breyting orðið á.

Ég held að það þurfi alveg gjörbreytta skólastefnu. Staðreyndin er sú að flest barna okkar ætla að ljúka framhaldsskóla. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að fara í framhaldsskóla. Staðreyndin er hins vegar sú að innan við helmingur nemenda lýkur framhaldsskólanum þannig að þeir eru að verja þarna tíma sem ekki nýtist og lenda auk þess í skipbroti. Nemendum sem ekki eiga greiða leið í gegnum framhaldsskólann er refsað með fallsköttum.

Sú staðreynd að sjö af hverjum tíu nemendum sem ljúka svokölluðu iðnnámi koma úr sveit segir okkur líka að það er einmitt úti um hinar dreifðu byggðir landsins sem þarf að efla og styrkja iðnnámið og starfsnámið. En því miður, þessu er öfugt farið. Þeir skólar úti um land sem bjóða nám á þessu stigi eiga stöðugt undir högg að sækja og það er röng stefna.