Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:26:22 (3737)

2003-02-11 16:26:22# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðustu orð hv. þm. eru alveg rétt að því leyti til að ef menn hefðu viljað stjórna fiskveiðum eingöngu með kvótakerfi þá þurfti náttúrlega aldrei að tína öll þessi kvikindi þar inn eins og skötusel og sólkola og fleiri tegundir. Það var algjör óþarfi til að stýra heildarmynd nýtingar auðlindarinnar hér við land og í raun þurftu þetta kannski aldrei að vera nema þrjár tegundir, svona burðarás í veiðum hverrar flotaeiningar. Ef menn hefðu farið í að skipta flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka þá hefðu þeir auðvitað getað stýrt veiðunum með fáum fisktegundum í hverju munstri. Sennilega hefðu fjórar fisktegundir algjörlega nægt til þess að stjórna t.d. togaraflotanum. Það hefðu þá verið karfi, grálúða, þorskur og ufsi, þ.e. ef menn á annað borð vilja hafa ufsa inni í kvóta, sem ég dreg nú mjög í efa því að hann er flökkutegund eins og hefur margsýnt sig.

Síðan langar mig aðeins, herra forseti, að víkja að því sem hv. þm. nefndi, þ.e. að við gætum ekki verið að skamma útgerðarmenn. Í raun og veru er maður ekkert að skamma útgerðarmenn. Þeir eru hins vegar notendur kvótans og þeir fara misjafnlega með hann. En það vald fengu þeir frá Alþingi. Það var héðan sem þeir fengu þá heimild að gera nánast hvað sem þeim sýndist við kvótann. Það hefur aftur orðið til þess í mörgum tilvikum að fólk hefur misst atvinnu sína. Það er þess vegna sem þetta er umdeilanlegt og það er þess vegna sem mönnum svíður það að einn aðili í þorpinu --- aðeins einn vegna þess að hann átti hlut í bát. Svo gerðu einhverjir tveir, þrír menn út bátinn með honum og þrír, fjórir unnu í landi. En það var bara þessi eini sem átti bátinn sem fékk veiðireynsluna. Allir hinir sem voru búnir að vinna áratugum saman hafa ekkert um það að segja og um leið og hann selur gerir það þá eignalausa þar að auki.