Almannatryggingar

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 17:28:34 (3746)

2003-02-11 17:28:34# 128. lþ. 76.15 fundur 169. mál: #A almannatryggingar# (sjúkraflug) frv., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Það er á þskj. 169 og er 169. mál. Þetta frv. til laga var áður flutt á 125., 126. og 127. löggjafarþingi en varð aldrei útrætt. Á þessum tíma hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar og tel ég að kominn sé tími til að gera enn eina á margstöguðum lögum og koma þessu frv. til afgreiðslu á þessu þingi. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,6. málsl. i-liðar 36. gr. laganna orðast svo:`` --- Herra forseti. Þessi grein er um sjúkraflutninga. --- ,,Séu liðnar 36 klst. eða meira frá innritun sjúklings greiðist flutningskostnaður milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.``

2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Greinargerðin er stutt og les ég hana, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Frumvarp þetta hefur verið flutt á síðustu þremur löggjafarþingum en aldrei orðið útrætt. Frumvarpinu fylgdi svohljóðandi greinargerð: ,,Samkvæmt gildandi lögum greiðir Tryggingastofnun ríkisins kostnað við sjúkraflug ef sjúklingur er fluttur beint að heiman frá sér en sé hann fluttur af sjúkrahúsi greiðir viðkomandi stofnun flutninginn. Þetta fyrirkomulag hefur þann galla að minni sjúkrahús veigra sér við að innrita sjúklinga sem gætu þurft á sjúkraflugi að halda vegna þess að kostnaðurinn gengur nærri fjárhag lítilla stofnana. Það ýtir undir að sjúklingar séu strax sendir á sjúkrahús í Reykjavík eða á Akureyri í stað þess að gangast undir rannsókn heima fyrir til að ganga úr skugga um hvort sjúkraflug reynist nauðsynlegt. Einnig leiðir þetta til ónákvæmrar skráningar í þeim tilfellum þegar sjúklingur nýtur aðhlynningar á litlu sjúkrahúsi áður en til flutnings kemur. Sú breyting sem hér er lögð til mundi koma minni sjúkrahúsunum til góða, bæta nýtingu þeirra og draga úr sjúkraflugi.````

Ég hef furðað mig á því að þetta frv. hafi ekki fengið brautargengi á hinu háa Alþingi þar sem það mun leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Það mundi aldrei verða til kostnaðarauka, eingöngu til sparnaðar ef á þarf að halda. Það mundi gera rekstrarumhverfi og þjónustu við sjúklingana markvissari en er í dag. Þetta ákvæði á eingöngu við þau sjúkrahús sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri og eingöngu á stöðum þar sem nota verður sjúkraflug. Það gefur augaleið að þetta á ekki við sjúkrahúsið á Selfossi, Keflavík eða Akranesi, þetta á eingöngu við þau sjúkrahús sem eru það fjarri að nota þarf sjúkraflug til að koma fólki á milli, þ.e. flug í staðinn fyrir venjulegan sjúkrabíl.

Ef þetta frv. verður að lögum er hægt að nýta þessa 36 klukkutíma til að athuga hvort bráir af sjúklingi eða hvort eitthvað er að sem heimamenn geta ráðið við og læknað. Ef ekki gefur þetta svigrúm til að meta sjúklinginn og senda hann áfram ef í ljós kemur að hann þarf á frekari meðferð að halda.

Í dag er, eins og fram kemur fram í greinargerðinni, öruggast fyrir stofnunina ef eitthvað tvísýnt er með sjúklinginn að innrita hann ekki á stofnunina heldur senda hann beint. En ef menn vilja aðeins skoða hlutina og sjá hvort ekki fari á betri veg þann tíma sem sjúklingur er í læknismeðferð og hjúkrun inni á stofnuninni þá fellur óneitanlega alltaf til einhver kostnaður. Sá kostnaður er þá stofnuninni óbættur. Þetta eru hreinlegri vinnubrögð sem leiða í flestum tilfellum til þess að hægt er að meta með meiri yfirvegun hvort á sjúkrafluginu þurfi að halda, í stað þess að panta sjúkraflugvél strax til að vera alveg öruggur um að kostnaðurinn falli ekki á viðkomandi stofnun.

Mig langar, herra forseti, að lesa upp bréf frá Stefáni Þórarinssyni sem stílað er á heilbrrh. vegna þessarar tillögu. Það er orðið ársgamalt en stendur alveg fyrir sínu og hljóðar svo:

,,Vegna þess að ég varð þess áskynja að verið var ...``

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. að minnast þess að þegar um beinar tilvitnanir er að ræða þá þarf leyfi forseta til.)

Herra forseti. Ég er meðvituð um að mér ber að biðja um leyfi og ég biðst afsökunar ef ég hef ekki gert það. Ég ætla þá að vitna í bréfið, með leyfi forseta. Ég ætla að lesa það og láta það vera mín lokaorð. Það er svohljóðandi:

,,Vegna þess að ég varð þess áskynja að verið var að taka upp á Alþingi lög um almannatryggingar vil ég fá að vekja máls á atriði í þeim lögum sem kemur sér illa fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og þeim mun verr sem þær eru minni og lengra frá Reykjavík. Hér á ég við það ákvæði að heilbrigðisstofnun skuli borga flutning sjúklings á milli stofnana. Þetta ákvæði hefur það í för með sér eins og það er að litlar stofnanir með lítinn rekstur veigra sér við að taka við sjúklingi ef hætta er á því að það þurfi að senda hann áfram á stærri stofnun.

Sjúkdómar byrja oft með óljósum hætti og í upphafi veikinda verður oft ekki skilið með neinni vissu á milli alvarlegra eða flóknari tilfella og hinna sem reynast minni háttar og eru á færi minni stofnana að hjálpa fólki með. Tryggingastofnun ríkisins borgar flutninginn ef sjúklingurinn kemur að heiman í flugið, annars verður sjúkrahúsið eða hjúkrunarheimilið sem tekur við honum að borga sjálft af sínum rekstrartekjum. Það er þeim mun tilfinnanlegra sem rekstrareiningin er minni og vegalengdin frá stóru sjúkrahúsunum er meiri.

Afleiðing þessa er að sjúklingar eru sendir oftar en ella í burtu með sjúkraflugi til Reykjavíkur eða Akureyrar strax í upphafi veikinda, fremur en að reynt sé fyrst að glíma við veikindin í heimabyggð. Núverandi reglur ýta undir þetta eða undanbrögð við skráningu. Þetta fyrirkomulag ýtir þannig undir bráðasjúkraflutninga og sjúkraflug og vinnur gegn því að beðið sé t.d. birtingar, betra veðurs, niðurstöðu rannsóknar, þess hver framvindan verður fyrstu tímana og þannig gegn því að lítil sjúkrahús og hjúkrunarheimili á landsbyggðinni séu nýtt eins og hægt væri.

Ég geri það því að tillögu minni að 36. gr. laga um almannatryggingar verði breytt þannig að Tryggingastofnun ríkisins greiði flutning milli stofnana fyrstu 36 klukkustundir innlagnar, þurfi til hans að koma.``

Undir þetta ritar, eins og ég sagði áðan, Stefán Þórarinsson, yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Þar sem reglurnar eru á þann veg að Tryggingastofnun ríkisins greiðir flutning sjúklings beint að heiman er það í langflestum tilfellum svo að ekki er búið um sjúklinginn í sjúkrabörunum og farið með hann út í flugvél heldur komið við á heilbrigðisstofnuninni. Það þarf ýmislegt til undirbúnings fyrir flutning með flugvél. Oft þarf að setja upp vökva áður en farið er af stað og búa sjúklinginn sem best til ferðarinnar. Það er langheppilegast að gera á heilbrigðisstofnuninni sjálfri frekar en inni á heimilinu og því er komið við þar.

Ég hef áður lesið þetta bréf þegar ég flutti þetta frv. síðast en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Ég leyfði mér því að lesa bréfið upp aftur.

Eftir þessa umræðu óska ég eftir að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.