Umsvif deCODE Genetics Inc. í íslensku fjármálakerfi

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:04:13 (3749)

2003-02-11 18:04:13# 128. lþ. 76.18 fundur 186. mál: #A umsvif deCODE Genetics Inc. í íslensku fjármálakerfi# þál., Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:04]

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég er hér með tillögu til þál. um skipun rannsóknarnefndar með vísan til 39. gr. stjórnarskrár, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.``

Með vísan til þessa legg ég til að ályktað verði að kosin verði slík rannsóknarnefnd alþingismanna til þess að rannsaka umsvif bandaríska fyrirtækisins deCODE Genetics Inc. og aðstoðarmanna þess, eins og ég nefni þá í íslensku fjármálakerfi.

Það fer ekkert milli mála að þeir viðskiptahættir sem viðhafðir voru við sölu hlutabréfa í deCODE á Íslandi hafa verið með þeim hætti að það krefst ítarlegrar rannsóknar, og einnegin og ekki síður hvaða ábyrgð íslensk stjórnvöld kunna að bera í sambandi við þau fjármálaumsvif. Það er svo að sjá að með ótrúlegum blekkingum hafi starfsmönnum ýmissa fjármálafyrirtækja, þar með talinna banka, tekist að selja fjölmörgum Íslendingum bréf í deCODE sem verðlítil, svo ekki sé meira sagt, hafa reynst og margur maðurinn sem stendur frammi fyrir eða hefur þegar hlotið gjaldþrot. Slíkar aðferðir voru, eins og ég sagði, m.a. stundaðar af bönkum og bönkum í ríkiseign, og þess vegna er ekki að fara yfir bæjarlækinn eftir vatni að snúa sér sérstaklega til þeirrar stofnunar og í því sambandi að ábyrgð ríkisins verði rannsökuð sérstaklega og kölluð þar af leiðandi til fjárhagslegrar ábyrgðar.

Þeir viðskiptahættir, og margir menn geta borið vitni um, sem viðhafðir voru í sambandi við sölu þessara verðbréfa, ef verðbréf má kalla, voru með þeim hætti að einsdæmi verður að telja í íslensku viðskipta- og fjármálalífi, hvorki meira né minna. Bankar keyptu, segjum t.d. á genginu 18, og þeir seldu fyrir margfalt það verð löngu eftir að ljóst var að hér var allt að hrynja til grunna og hefði þess vegna borið skylda til að hætta sölunni, hvað þá heldur að telja mönnum trú um að þetta yrði að miklum auðæfum innan skamms, eins og sagt var við mann nokkurn sem narraður var til þess að kaupa fyrir 18 millj. kr. á genginu 64 dollarar, og honum talin trú um að það mundu ekki líða margar vikur þar til þetta færi í 100. En þær liðu fáar vikurnar þar til þetta fór í svo til ekki neitt.

Og bankarnir stunduðu lánveitingar til manna til að ná fram þessum kaupum og kröfðust veða, og það er ekkert spurt að því hvernig þetta varð til þegar gengið er að þessum mönnum.

Meginmálið er að þessi rannsókn fari fram til að hindra að þessi saga endurtaki sig eða a.m.k. reyna að leggja drög að því að hindra að slíkt og þvílíkt endurtaki sig.

Ég þarf ekki að orðlengja um þetta mál sem fjölmargir og lunginn úr þjóðinni þekkir og legg þess vegna til, herra forseti, að þegar fyrri umræðu lýkur verði tillögunni vísað til allshn. og síðari umræðu.