Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:32:00 (3819)

2003-02-13 11:32:00# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:32]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Þetta mál hefur alloft verið vakið í umræðum þingmanna á hv. Alþingi, oftast með fyrirspurnum en nú sem utandagskrárumræða. Ég tel raunar að allir þeir hv. þm. sem hafa vakið máls á þessu hafi haft rétt fyrir sér og að þeir hafi allir saman dregið fram réttmætar ástæður til þess að huga að breytingum á þeim skatti sem við ræðum nú.

Þó er rétt að geta þess að það lággjaldaflugfélag sem hætti flugi til Keflavíkurflugvallar og bar fyrir sig há afgreiðslugjöld það greiddi á Keflavíkurflugvelli aðeins um fjórðungi meira en á næstdýrasta flugvelli sem það sama flugfélag notaði.

Vel að merkja, gjöld fyrir þjónustuna til annarra fyrirtækja, ekki skattarnir, voru fjórfalt hærri, sérstaklega gjald til annars flugfélags. Ég held raunar að það þurfi að taka heildarmynd þessa kostnaðar til athugunar. En við verðum líka að gæta okkar í því að flytja fjármuni með þessum hætti á milli starfsemi sem er ekki sú sama.

Keflavíkurflugvöllur er eitt langstærsta hlið okkar að umheiminum og umheimsins að Íslandi. Það er langstærsta hlið íslensku ferðaþjónustunnar fyrir allt landið til þess að sækja sér viðsipti, sækja sér gesti og ferðalanga. Mikill meiri hluti þeirra sem koma hingað um Keflavíkurflugvöll fara ekki um innlenda flugvelli heldur eingöngu um vegakerfið. Og hvers vegna í ósköpunum ættu þeir þá líka að greiða fyrir aðra flugvelli sem þeir nota ekki einu sinni? Það finnst mér stærsta spurningin. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að beita sér fyrir heildstæðri endurskoðun í þessu máli (Gripið fram í.) og vek athygli á því að einn samstarfsráðherra hans í ríkisstjórninni hefur nýlega svarað því til að þetta beri að taka til athugunar í því ljósi og í þeim tilgangi að lækka gjöld á millilandaflug vegna þess að ekki verði unnt að hækka gjöld á innanlandaflug.