Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:46:53 (3825)

2003-02-13 11:46:53# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um fjarskipti.

Miklar breytingar hafa orðið í fjarskiptum á undanförnum árum. Tímamót urðu hér á landi er lögbundinn einkaréttur ríkisins til þess að reka fjarskipti var afnuminn 1. janúar 1998. Þá jókst fjöldi fjarskiptafyrirtækja umtalsvert og neytendum bauðst aukið úrval þjónustu á lægra verði, einkum á útlandasamtölum og í farsímaþjónustu.

Er Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti eftir umsóknum um leyfi til að reka GSM-farsímaþjónustu í 1800 MHz tíðnisviðinu í byrjun ársins 2000 reyndist mikill áhugi og var fjórum umsækjendum úthlutað tíðnisviði og rekstrarleyfum. Þessi gróska ásamt fjölda farsímanotenda hérlendis vakti athygli erlendis. Farsímanotkun jókst mjög mikið og fjarskiptafyrirtæki fjárfestu í farsímakerfum og búnaði. Þar að auki var talið að notkun farsíma ætti enn eftir að aukast með tilkomu þriðju kynslóðar farsíma sem bjóða upp á aukinn gagnaflutningshraða og ýmsa nýja notkunarmöguleika sem ekki væru mögulegir með GSM-tækni.

Á árunum 2000 og 2001 voru í Evrópu og víðar haldin útboð á tíðnum fyrir þriðju kynslóðar farsíma. Mikil bjartsýni ríkti og greiddu fjarskiptafyrirtæki í mörgum tilvikum verulegar fjárhæðir fyrir tíðniúthlutunina. En í kjölfarið komu erfiðleikar í ljós, mörg fjarskiptafyrirtæki höfðu skuldsett sig um of. Einnig hefur komið í ljós að tæknileg þróun þriðju kynslóðar farsímatækja og kerfa hefur ekki gengið eins og væntingar stóðu til. Fjárfestar hafa í kjölfar þessa haldið nokkuð að sér höndum við fjárfestingar í fjarskiptastarfsemi og lánastofnanir orðið varfærnari. Ýmislegt virðist þó benda til breytinga. Sem dæmi má nefna að undirbúningur fyrir rekstur þriðju kynslóðar farsímakerfa er á lokastigi í Bretlandi. Fjarskiptafyrirtækið Hutchison ætlar að hefja rekstur í mars en fjögur önnur sem hafa til þess leyfi ætla að hefja starfsemi undir lok ársins.

Framangreind þróun hefur sett mark sitt á íslensk fjarskiptafyrirtæki sem sum hver hafa orðið að draga saman seglin. Þannig hafa tvö þeirra fyrirtækja sem á árinu 2000 fengu leyfi til að reka GSM-farsímaþjónustu í 1800 MHz tíðnisviðinu ekki hafið slíka starfsemi og önnur fyrirtæki dregið úr fjárfestingum sínum í fjarskiptaþjónustu. Viðhorf til fjarskipta og ávinnings fjárfestinga í þeirri atvinnugrein er orðið raunsærra en áður. Ein afleiðing þessa er fækkun fjarskiptafyrirtækja. Ber þar hæst að nokkrir helstu keppinautar Landssíma Íslands hf., þ.e. Íslandssími hf., Halló -- frjáls fjarskipti hf. og Tal hf., hafa sameinast og eru því aðeins tvö fjarskiptafyrirtæki hér á landi sem bjóða alhliða fjarskiptaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja. Fjöldi fjarskiptafyrirtækja býður sérhæfðari þjónustu. Því er nauðsynlegt að regluverk fjarskipta sé þannig úr garði gert að möguleikar séu fyrir nýja aðila að koma inn á fjarskiptamarkaðinn og keppa við þá sem fyrir eru.

Gildandi fjarskiptalög tóku gildi hinn 1. janúar 2000 ásamt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Með þeirri löggjöf voru gerðar grundvallarbreytingar sem stuðla áttu að aukinni samkeppni í fjarskiptum auk þess að tryggja aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu í gagnaflutningum. Opnað var fyrir númeraflutning og notendum gert mögulegt að halda símanúmeri sínu ef þeir vilja skipta um fyrirtæki sem verslað er við, ákvæði um reikisamninga þegar uppbygging eigin nets er talin óraunhæf var innleitt, fjarskiptafyrirtækjum var heimilaður aðgangur að heimtaug fyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild. Allt voru þetta mikilsverð nýmæli sem hafa nú þegar auðveldað innkomu nýrra fyrirtækja á markaðinn og aukið útbreiðslu fjarskiptaþjónustu, bæði gagnaflutningsþjónustu og farsímaþjónustu um allt land. Máli mínu til stuðnings vil ég nefna eftirfarandi dæmi:

Lögfesting ISDN-alþjónustukvaðar hefur þegar skilað miklum árangri. Samkvæmt upplýsingum frá Landssíma Íslands hafa yfir 98% landsmanna aðgang að ISDN-gagnaflutningsþjónustu og er unnið að því að uppbygging þjónustunnar nái til allra landsmanna. Því hefur verið haldið fram að innlendir reikisamningar hafi dregið úr útbreiðslu GSM-netsins, það sé ekki lengur nein samkeppni um að setja upp nýja senda og bæta þannig þjónustuna því að allir sitji við sama borð. Þetta er að mínu mati hæpin fullyrðing enda hefur Landssíminn selt öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að neti sínu umfram það sem unnt væri að gera kröfu um samkvæmt gildandi lögum.

Þegar fjarskiptalögin tóku gildi 1. janúar 2000 samanstóð GSM-kerfið af 150 dreifistöðvum. Síðan þá hefur dreifistöðvum verið fjölgað um a.m.k. þriðjung, móðurstöð tvöfölduð og áhersla lögð á að bæta sambandið á vinsælum ferðamannastöðum og á fjölfarnari vegum. Í dag nær GSM-þjónustan til allra þéttbýlisstaða með meira en 200 íbúum og þar með til 98% landsmanna. Ber að fagna þeim árangri þó að vissulega þurfi að bæta úr á ákveðnum stöðum.

Ég hef t.d. að undanförnu beitt mér fyrir því að Vegagerðin auki öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins með því að ganga til samstarfs við símafyrirtækin um uppbyggingu á sendum meðfram þjóðvegum landsins. Er það mál í undirbúningi.

Landfræðileg útbreiðsla og uppbygging nýrra GSM-neta byggist á eðli og megineinkennum markaða fyrir innlent reiki í hverju tilviki fyrir sig. Dreifbýli sem er líklega meira á Íslandi en í nokkru öðru Evrópuríki kynni að valda því að án innlendra reikisamninga mundu samkeppnisaðilar þurfa að leggja í mikinn kostnað við að byggja upp GSM-sellur. Þannig er ljóst að uppbygging nets um allt land gæti orðið nýju farsímafyrirtæki ofraun sem kynni að útiloka stofnun þess strax í upphafi. Þessu til viðbótar má nefna að samkeppnin hefur stækkað farsímamarkaðinn verulega hér á landi sem hefur aftur þau áhrif að uppbygging GSM-fjarskiptanets á dreifbýlu svæði verður arðbærari en ella.

Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika markaðarins frá lögfestingu gildandi laga hefur ýmislegt áunnist og aukinnar bjartsýni gætir. Mikill vöxtur hefur orðið í háhraða internet-notkun. Reglur sem skylda fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á talsímamarkaði til að leigja fjarskiptafyrirtækjum heimtaugar hafa komið af stað framboði á bandbreiðum tengingum fyrir fyrirtæki og heimili sem byggjast á DSL-tækni. Með notkun svokallaðrar DSL-tækni er hægt að hraða internet-samskiptum og notendur geta betur nýtt sér nýja þjónustu á netinu, svo sem hljóm- og myndflutning. Þá gera reglur um númeraflutning og fast forval notendum auðveldara fyrir að skipta um þjónustuveitanda. Frumkvæði löggjafans á þessu sviði hefur haft í för með sér breytta markaðsstöðu þar sem ný fjarskiptafyrirtæki eiga aukna möguleika á að láta að sér kveða í samkeppninni. Auk þess eru vonir bundnar við stafrænt gagnvirkt sjónvarp og innleiðingu þriðju kynslóðar farsíma.

Fjarskipta- og upplýsingatækni hefur mikla efnahags- og þjóðfélagslega þýðingu á Vesturlöndum. Sú þýðing hefur vaxið mjög á síðustu árum og gengur langt út fyrir svið hins hefðbundna fjarskiptamarkaðar. Ein ástæða þessa breytta hlutverks er að nútímaleg fjarskipti hafa átt þátt í hagvexti og aukinni framleiðni auk þess sem nýjar atvinnugreinar sem byggja á fjarskiptatækni hafa komið fram á undanförnum árum. Ísland er hér engin undantekning, enda sýnir ný rannsókn Hagstofu Íslands að tölvur eru notaðar við starfsemi 98% fyrirtækja, alls 92% fyrirtækja hafa internet-tengingu og 64% eru búin að koma sér upp heimasíðu á internetinu. Þá sýndi könnunin að rafræn viðskipti eru orðin nokkuð algeng meðal fyrirtækja. Til marks um það höfðu 44% fyrirtækja pantað vörur eða þjónustu um pöntunarkerfi á heimasíðu annarra fyrirtækja eða einstaklinga í árslok 2001.

Þessu til viðbótar má nefna að tekjur hefðbundinna fjarskiptafyrirtækja hér á landi hafa um nokkurt skeið numið meira en 20 milljörðum kr. Þá eru ótalin fjölmörg fyrirtæki sem teljast starfa á sviði upplýsingatækni. Talið er að landsframleiðsla fjarskipta- og upplýsngatæknigeirans nemi meira en 80 milljörðum kr. á ári. Margir hafa talið, þar á meðal sérfræðingar Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunar Evrópu, að ef ný samskiptatækni, svo sem internetið og þráðlaus fjarskipti, hafi aukið vöxt á síðari hluta 10. áratugarins þá skipti næstu skref í átt að breiðbandsaðgangi lykilmáli, langt út fyrir svið fjarskiptanna.

Heildsöluverð milli fjarskiptafyrirtækja á samtengingu í farsímanetum hafa verið til umfjöllunar hjá fjarskiptaeftirlitsstofnunum í Evrópu undanfarin missiri. Nýlega ákvað breska eftirlitsstofnunin Oftel að lækka heildsöluverð farsímafyrirtækja um 40% og kemur lækkunin til framkvæmda á næstu þremur árum með 15% lækkun í ár. Þrátt fyrir þá lækkun sem Oftel hefur fyrirskipað er sambærilegt heildsöluverð lægra hjá Landssíma Íslands en það verður í Bretlandi eftir lækkunina.

Á Norðurlöndum hefur heildsöluverð fyrir samtengingu í farsímanetum einnig verið til skoðunar og í Noregi og Svíþjóð hefur það leitt til lækkunar. Hér á Íslandi höfum við nýlegt dæmi þar sem Íslandssími hefur kvartað til Póst- og fjarskiptastofnunar yfir því að Landssími Íslands innheimti of hátt heildsöluverð af farsímanetum í krafti stærðar sinnar á markaði. Sú kvöð hvílir á Landssímanum, sem fjarskiptafyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild, að heildsöluverðið skuli vera á kostnaðarverði auk hæfilegrar álagningar en ekki er um sömu skyldur að ræða varðandi Íslandssíma þar sem félagið hefur ekki verið útnefnt með umtalsverða markaðshlutdeild.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Það skiptir neytendur miklu máli að heildsöluverð sé rétt auk þess sem það er grundvöllur þess að ný fyrirtæki geti komið inn á þennan markað.

Leikreglur fjarskiptamarkaðar eru enn sem komið er um margt frábrugðnar leikreglum almennrar atvinnustarfsemi. Sem dæmi um það má nefna sérreglur sem lúta að samtengingu, kostnaðargreiningu á gjaldskrám fjarskiptafyrirtækja, reglur um opinn aðgang að netum og alþjónustu. Fleiri dæmi mætti telja svo sem umsjón stjórnvalda með tíðnimálum og úthlutun númera. Þessi sérsjónarmið stafa af því að fjarskiptamarkaður var fyrst fyrir fáum árum leystur undan vernd einkaréttarins.

Þrátt fyrir að stutt sé frá lögfestingu gildandi fjarskiptalaga leiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum til þess að nauðsynlegt er að endurskoða fjarskiptalöggjöfina og þess vegna er mælt fyrir þessu frv. hér. Hin nýja fjarskiptalöggjöf ESB sem er innleidd með þessu frv. leysir af hólmi flestar þær gerðir sem fyrir eru um fjarskiptamál. Efni gerða er sameinað og þeim fækkað töluvert með það að markmiði að draga úr flóknu regluverki fjarskipta og færa það jafnframt í átt til samkeppnisréttar.

[12:00]

Eins og áður sagði hafa höfuðmarkmið fjarskiptalaga frá því að lögbundinn einkaréttur ríkisins til fjarskiptastarfsemi var afnuminn einkum verið tvenns konar, annars vegar að efla virka samkeppni og hins vegar að tryggja að allir landsmenn eigi kost á ákveðinni lágmarksfjarskiptaþjónustu. Sérstök fjarskiptalöggjöf er talin nauðsynleg til að þeim markmiðum verði náð. Til að stuðla að því að fjarskiptamarkaðurinn þróist í átt til almenns samkeppnismarkaðar og tryggja fjarskiptaþjónustu fyrir alla landsmenn eru eftirfarandi breytingar m.a. lagðar til á þeim lögum sem nú eru í gildi til að auðvelda aðgang fyrirtækja að fjarskiptamarkaðnum:

1. Ekki er lengur krafist rekstrarleyfis til að stunda fjarskiptastarfsemi en í staðinn munu fjarskiptafyrirtæki starfa eftir almennum heimildum.

2. Við mat á því hvort fyrirtæki hafi umtalsverða markaðshlutdeild er beitt reglum samkeppnisréttarins um mat á markaðsráðandi stöðu í stað þess að miða við 25% markaðshlutdeild eins og gert er í núgildandi lögum.

3. Staðfestur er formlegur samruni fjarskipta og útvarps sem leiðir til þess að reglur um dreifingu útvarps er að finna í frumvarpinu.

4. Heimild er veitt til þess að gera dreifingu ákveðinna útvarpsdagskráa að skyldu.

5. Ítarlegri ákvæði en áður eru um vernd notenda fjarskiptaþjónustu.

6. Tryggður er réttur notenda til lágmarksþjónustu í talsíma- og gagnaflutningi í alþjónustu auk þess sem stefnt er að því að bæta fyrirkomulag jöfnunarsjóðs sem annast greiðslur fyrir alþjónustu sem ekki stendur undir sér.

7. Skilmálar um aðgang að netum og þjónustu eru endurskoðaðir.

8. Settar eru markvissari reglur um samnýtingu á aðstöðu.

Með hliðsjón af framansögðu hlýtur markmið okkar að vera að Ísland verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra, góða og aðgengilega fjarskiptaþjónustu. Atvinnufyrirtæki, menntastofnanir og heimilin í landinu eiga stöðugt meira undir góðri flutningsgetu fjarskiptakerfanna. Okkur hefur miðað vel eftir að nýju fjarskiptalögin skylduðu símafyrirtækin til að veita öllum sem þess óskuðu að lágmarki ISDN-tengingu eins og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Lækkun kostnaðar við gagnaflutninga skiptir einnig miklu máli. Með samningi samgrn. og Símans var stigið mikilvægt skref í átt að jöfnun gagnaflutningskostnaðar um landið allt. Eitt af því sem ég hef lagt ríka áherslu á í ráðherratíð minni er að jafna sem frekast er unnt gagnaflutningskostnað um landið allt. Nýverið skilaði af sér nefnd sem ég skipaði til þess að fara yfir gagnaflutningskostnað almennt. Í tillögu þeirrar nefndar er lagt til að endurgreiddur verði í ADM-kerfinu mismunur sá sem notendur greiða vegna fjarlægða. Með samþykkt þeirrar tillögu yrði stórt skref stigið í þá átt að fjarskiptakostnaður á Íslandi verði sá sami. Þá verður með sanni hægt að segja að öll almenn fjarskiptaþjónusta svo sem hefðbundinn talsími og farsími, ISDN, ADSL og ADM og þar með IP-þjónusta verði seld á sama verði um landið allt.

Næstu skref sem stefna ber að er að tryggja breiðband um landið allt sem gæfi öllum færi á tveggja megabæta tengingu. Uppbygging þessarar þjónustu verður að miðast við að sami kostnaður verði við gagnaflutninga óháð vegalengd. Þar mun tæknin hjálpa okkur svo og þeir hagsmunir fjarskiptafyrirtækjanna að nýta sem best fjárfestingu sem þegar er fyrir hendi í ljósleiðurum og búnaði. Breiðbandsþjónusta um land allt er stefnumörkun sem mun verða einhver mikilvægsta byggðaaðgerð sem við getum ráðist í.

Mikill árangur hefur náðst. Fjarskiptanotkun Íslendinga er með því mesta sem gerist í heiminum. Auk þess er kostnaður með því allra lægsta sem þekkist. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku greindi blaðið Computer World frá því að á Íslandi eru hlutfallslega flestir notendur tengdir háhraðasítengingu af öllum löndum í Evrópu. Þessi frétt vakti mjög mikla athygli. Alþingi og stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja réttlátar leikreglur í fjarskiptamálum, leikreglur sem stuðlað geta að aukinni velferð og hagsæld í þjóðfélaginu. Ég er sannfærður um að þetta frv. og frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, sem ég mun mæla fyrir síðar í dag, stuðla að því að svo megi verða.

Ég vil að lokum geta þess að frv. var sent út til umsagnar og hefur verið unnið í samráði og samvinnu við hagsmunaaðila og hlutaðeigandi ríkisstofnanir.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.