Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:19:19 (3832)

2003-02-13 12:19:19# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að GSM-farsímanotkunin er eiginlega orðin mjög snar þáttur í lífi fólks og í daglegu viðskiptalífi líka. Hún er farin að snerta samkeppnishæfni, búsetu og atvinnulíf hvarvetna á landinu. Tökum ferðaþjónustuna sem dæmi eða samgöngurnar. Ég er ekki að segja að við eigum að byggja hana upp fjarri mannabyggðum en vil að það verði sett sem markmið að þetta væri í byggð og á aðalþjóðvegum landsins. Nú þegar er farsímanotkunin í raun orðin hluti af öryggis- og neyðarkerfinu en ekki viðurkennd. Þar liggur kannski vandinn, þ.e. að það væri mun nær að viðurkenna nú þegar og staðfesta og skilgreina hana sem hluta af öryggiskerfi landsins, en ekki láta hana vera óbeinan hluta af því eins og nú er.

Ég veit líka að uppbygging farsímakerfisins hefur einmitt strandað á arðsemiskröfu til sendanna. Mér hugnast ekki --- og vil inna ráðherrann frekar eftir því hvort hann sé virkilega þeirrar skoðunar að rétt sé að fela Vegagerðinni að reka GSM-farsímasenda á þjóðvegunum þar sem Landssíminn telur það ekki arðbært. Á að fela einstökum skíðasvæðum, einstökum ferðamannastöðum eða einstökum björgunarsveitum að reka GSM-farsímasenda þar sem það er ekki arðbært að mati Landssímans miðað við þær arðsemiskröfur sem hann setur? Hvers vegna ekki að stíga bara skrefið til fulls og segja: Þetta er hluti af alþjónustukvöð til fjarskipta því þetta er orðinn svo snar þáttur, mikilvægur þáttur og einnig í öryggis- og neyðarkerfinu, en að sjálfsögðu tilbótar við það kerfi sem fyrir er. Ekki veitir af í okkar strjálbýla landi.

Ég vil leggja áherslu á það, herra forseti, og mitt mat er að þetta á að vera hluti af þessu heildarkerfi, þ.e. GSM-farsímanotkunin.