Skráning skipa

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:04:17 (3849)

2003-02-13 15:04:17# 128. lþ. 79.1 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér í 3. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa. Í raun og veru er efni þess það að heimila þurrleiguskráningu íslenskra fiskiskipa.

Herra forseti. Áður en þetta mál verður afgreitt héðan frá hv. Alþingi held ég að rétt sé að fara nokkuð vel yfir það, aðdraganda þess og hvaða sjónarmið hafa komið fram í málinu. Ég tel, herra forseti, og vil láta það koma í ljós nú í upphafi máls míns, að með lögfestingu þeirra ákvæða sem hér er verið að leggja til sé verið að vinna mikið óhappaverk. Mörg rök hníga að því að svo sé.

Herra forseti. Ég held að ég geri best til þess að varpa nokkru ljósi á þetta mál að byrja að vitna örfáum orðum í umsögn meiri hluta sjútvn. frá 14. mars 2002. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Verði þetta frumvarp að lögum verður bæði auðveldara og ódýrara fyrir íslenskar útgerðir að sækja á erlend mið en nú er.``

Þessi fullyrðing er sett fram, herra forseti. En mér er ekki kunnugt um það að á neinum stigum þessa máls hafi verið lögð fram dæmi sem sanna þennan málflutning, sem sanna að málin séu þannig í pottinn búin að þá verði miklu auðveldara og ódýrara fyrir íslenskar útgerðir að sækja á erlend mið en við núverandi ástand.

Ég hygg nefnilega að besta leiðin til þess að sækja á erlend mið og sú hagkvæmasta fyrir íslenskar útgerðir sé ekki að fara þessa þurrleiguleið heldur þegar íslenska ríkið gerir beina samninga um veiðiheimildir við önnur ríki, eins og hefur verið gert t.d. við Norðmenn og Rússa um veiðar uppi í Barentshafi. Ég tel algjörlega ósannað að það fyrirkomulag sem á að taka upp með þessu frv. færi okkur og útgerðunum verulega hagsmuni.

Herra forseti. Í þessari umsögn meiri hluta sjútvn. segir einnig, með leyfi forseta:

,,Ákveði Alþingi að veita heimild í lögum til þurrleiguskráningar verður að tryggja að með því sé ekki unnið gegn heildar- og langtímahagsmunum Íslands.``

Einnig segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Leiða má að því líkur að kostnaður útgerðarinnar vegna veiðanna sé minni sigli skipið undir erlendum fána ...``

Ég endurtek: ,,Leiða má að því líkur``. Ég ætla sem sagt að halda því fram að það sé ósannað að svo sé. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með beinum dæmum í öllum þessum málflutningi að þessar fullyrðingar fái staðist, séu sannaðar, enda orðar meiri hluti sjútvn. textann með þessum hætti, þ.e. að leiða megi að því líkur. Það er sem sagt ekki sannað mál.

Á undan segir, með leyfi forseta:

,,Spyrja má hvað valdi því að íslenskar útgerðir kjósi fremur að stunda veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum undir fánum erlendra ríkja en undir íslenskum fána.``

Síðan kemur þessi setning sem ég vitnaði til áðan.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,... og þá einkum launakostnaður því íslensk lög og íslenskar reglur og þar af leiðandi íslenskir kjarasamningar gilda ekki um þessi skip.``

Þarna er verið er að vitna til kostnaðarins. Það er sem sagt eingöngu verið að færa fram þau rök að launakostnaður íslenskra sjómanna náist niður og að íslenskir kjarasamningar gildi ekki.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

,,Hagsmunir sjómanna og heildarhagsmunir þjóðarinnar fara því saman í þessu efni ...``

Herra forseti. Ég ætla að endurtaka þessa setningu:

,,Hagsmunir sjómanna og heildarhagsmunir þjóðarinnar fara því saman í þessu efni og þessa hagsmuni ber að vernda.``

Herra forseti. Þessa hagsmuni ber að vernda, segir hér og svo kemur, með leyfi forseta:

,,Það er álit nefndarinnar, verði frumvarpið samþykkt, að það verði að vera skýrt að þurrleiguskráning sé óheimil fari hún á einhvern hátt gegn hagsmunum Íslands og að þeir hagsmundir séu ávallt teknir fram yfir stundarhagsmuni einstakra útgerða.``

Herra forseti. Hér segir að hagsmunir Íslands séu teknir fram yfir stundarhagsmuni íslenskra útgerða.

Í þessu frv. er því miður verið að taka stundarhagsmuni einstakra útgerða e.t.v. fram yfir hagsmuni Íslands vegna þess að verið er að taka niður launakjör sjómanna. Það er verið að færa Ísland undir hentifánahagsmuni. Við erum að verða hentifánaríki að þessu leyti.

Ég spyr enn, herra forseti: Hvar eru dæmin um þær útgerðir þar sem hagsmunir Íslands, íslenskra sjómanna og einstakra útgerða fara saman að þessu leyti? Miðað við umsögn meiri hluta sjútvn. liggur það alveg skýrt fyrir að í þeirri umsögn meiri hlutans voru menn að túlka þetta með þeim hætti að þessir hagsmunir yrðu að fara saman, þ.e. hagsmunir Íslands, hagsmunir íslenskra sjómanna og einstakra útgerða, til þess að menn treystu sér til að mæla með þessu frv. enda er ekki hægt að lesa það út úr umsögn meiri hluta sjútvn. að menn hafi beinlínis mælt með þessari lagasetningu.

Svo segir neðar í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Þegar um alþjóðleg hafsvæði er að ræða verðum við að gera þá kröfu að þær veiðar sem við stundum gangi ekki gegn skynsamlegum stjórnunar- og verndunarsjónarmiðum.``

Hvernig skyldu menn skilja þetta ef þeir skoðuðu nærtæk dæmi hér í kringum okkur, þ.e. að þær veiðar sem við hyggjumst stunda gangi ekki gegn skynsamlegum stjórnunar- og verndunarsjónarmiðum? En það kemur skýring, herra forseti, í þessari umsögn meiri hluta sjútvn. á þessari setningu. Hún er svona, með leyfi forseta:

,,Sem ábyrg fiskveiðiþjóð verðum við að tryggja að þessi sjónarmið séu í heiðri höfð jafnvel þótt aðrar þjóðir`` --- takið eftir --- ,,telji sér það ekki skylt.``

Hér segir að sjónarmið um verndun og ábyrgar fiskveiðar verði tryggð, í heiðri höfð af okkur Íslendingum jafnvel þó að aðrar þjóðir telji sér það ekki skylt.

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls bað ég um að hér yrðu nefnd einhver dæmi, að sá maður sem hefur knúið það fram að þetta mál skyldi tekið hér til endanlegrar afgreiðslu, þ.e. hæstv. samgrh., kæmi með dæmin hér á borðið, legði þau fyrir okkur, sýndi okkur fram á hvaða dæmi væru sýnileg fram undan um að íslenskar útgerðir gætu farið að veiða og uppfyllt þau skilyrði sem hafa verið sett hér inn í lagatextann, að því er meiri hluti samgn. telur, um að hagsmunir Íslands séu í fyrirrúmi, að hagsmunir íslenskra sjómanna séu í fyrirrúmi og að hagsmunir einstakra útgerða séu í fyrirrúmi, og uppfylli jafnframt það skilyrði, herra forseti, að veiðar okkar, hvar svo sem við hefjum þær, innan eða utan lögsögu annarra ríkja, úr skiptum stofnum eða óskiptum, teljist ábyrgar af okkar hálfu. Meira að segja er sett svo strangt skilyrði um þetta að menn telja að við verðum að hafna því að taka þátt í slíkum veiðum jafnvel þó að aðrar þjóðir telji sér það ekki skylt.

[15:15]

Ætli það verði ekki að skilja þetta þannig, herra forseti, að þar sem ráðgjöf hefur verið gefin út um veiðar á stofnum og ekki hefur verið farið eftir henni í ákvörðunum stjórnvalda --- við skulum segja sem svo að Alþjóðahafrannsóknaráðið hafi gefið ráðgjöf um veiðar úr einstökum stofnum, fiskifræðingar í Noregi og Rússlandi hafi lagt til ákveðna veiðitölu í Barentshafi, sem þeir hafa reyndar gert undanfarin þrjú ár, og það hafi verið samþykkt á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins að það væri rétt ráðgjöf og eftir henni bæri að fara, svo ákveða þjóðirnar Rússland og Noregur sameiginlega að auka veiðarnar í Barentshafi verulega umfram ráðgjöfina, sem reyndar hefur átt sér stað í nokkur ár. Síðan held ég að það sé nokkuð vitað, herra forseti, að veiðin fer oft talsvert fram úr jafnvel þeim leyfða afla í Barentshafinu og þá kemur auðvitað spurningin, herra forseti: Verður ekki að skilja þessi viðvörunarorð í meirihlutaumsögn sjútvn. og þá texta sem settir hafa verið hér inn í frv. um að sjútvrh. telji að veiðarnar sem íslensku skipin ætla að fara að stunda undir þurrleigufána séu ábyrgar og valdi ekki skaða, séu ekki að mynda veiðireynslu fyrir fánaríkin, sem þau gera náttúrlega yfirleitt í öllum tilvikum þegar við flöggum skipunum undir fána annarra ríkja, og að jafnvel þó að öðrum þjóðum þyki þær veiðar sem í boði eru eftirsóknarverðar beri okkur sem ábyrgri fiskveiðiþjóð að taka afstöðu á þann hátt að hefja ekki slíkar veiðar, taka ekki þátt í þeim?

Herra forseti. Ég held að ég hafi dregið hér fram í máli mínu að í fyrsta lagi sé ekki verið að vernda íslensk kjör. Kjör íslenskra sjómanna eru beinlínis lögð til hliðar. Og ef einhver atvinnutækifæri felast í þessari lagabreytingu er beinlínis verið að ætlast til þess að íslenskir sjómenn vinni á lægri launum en þeir þiggja á sömu skipum í dag við sams konar veiðar, herra forseti, þótt á öðrum hafsvæðum séu. Það liggur því alveg fyrir að sá ávinningur sem íslenskum sjómönnum er ætlaður í þessu er sá að fara á lakari kjör, jafnvel þó að menn starfi verulega fjarri heimilum sínum.

Það liggur líka fyrir, herra forseti, að þegar við förum að veiða á þurrleiguskráningu undir fána annarra ríkja erum við að vinna inn veiðireynslu í öllum tilvikum fyrir þau ríki sem við erum búin að skrá skipin undir. Þar þjónum við ekki hagsmunum Íslands í neinu tilviki svo mér sé kunnugt um, a.m.k. ekki hér í Norður-Atlantshafinu.

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, eins og frv. er uppbyggt, en að þurrleiguskráningin muni eingöngu vinna gegn hagsmunum Íslands. Þegar maður hefur spurt hér um dæmi, eins og ég óskaði reyndar eftir í 2. umr., koma akkúrat engin svör, herra forseti. Þar sem þau svör hafa ekki komið óska ég eftir því, herra forseti, að hæstv. samgrh. eða sjútvrh. mæti hér til þessarar umræðu og geri okkur grein fyrir því með svörum við þessum spurningum í hverju hagsmunirnir liggja. Ég fer fram á það að annar hvor þeirra verði beðinn að mæta hér.

(Forseti (GÁS): Það er von á hæstv. samgrh. hingað innan tíðar. --- Forseti veit ekki hvort það verður kannski alveg á næstu sekúndum.)

En mér er þá ekki alveg ljóst, herra forseti, hvort ég á að halda áfram ræðu minni.

(Forseti (GÁS): Forseti býður hv. þingmanni upp á það að gera hlé á ræðu sinni ef hann kýs það.)

Já, ég held að ég geri stutt hlé á ræðu minni, herra forseti.