Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:01:55 (3862)

2003-02-13 16:01:55# 128. lþ. 79.8 fundur 226. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Hér er um að ræða endurflutta till. til þál. frá tveimur síðustu þingum. Tillagan varð í hvorugt skiptið útrædd en fékk hér reyndar allmikla umfjöllun í bæði skiptin, sérstaklega á síðasta þingi. Þá urðu um þessa tillögu allmiklar umræður og ég leyfi mér að segja að hún hafi fengið góðar undirtektir. Reyndar var það tækifæri notað til að fara út í allmikla umræðu um stöðu vestnorræns samstarfs almennt en það er jú stór hluti þessarar tillögu að Alþingi álykti að fela ríkisstjórn landsins að gera sérstakar tillögur um einmitt eflingu vestnorræns samstarfs.

Tillagan felur einnig í sér að móta það sem hér er valið að kalla íslenska nærsvæðastefnu, og er sennilega nýmæli að taka svo til orða. Það hefur færst í vöxt í nálægum löndum og víða í heiminum, hygg ég, að menn hafa mótað sérstakar áherslur í utanríkisstefnu landa sem taka til svæðisbundins samstarfs og nærsvæða þeirra. Þekkist þetta bæði hjá einstökum ríkisstjórnum og hjá fjölþjóðasamtökum. Þannig hafa, svo dæmi sé tekið, samstarfsaðilar eins og Norðurlandaráð mótað ýmsar áherslur sem flokka mætti undir nærsvæðastefnu eða nærsvæðapólitík. Reyndar var sjálfu grundvallarskipulagi Norðurlandaráðs breytt í þá veru fyrir nokkrum árum að taka sérstaklega mið af uppbyggingu samstarfs við nágrannaríkin, þá einkum og ekki síst Eystrasaltsríkin. Evrópusambandið hefur mótað ýmiss konar nærsvæðastefnu. Þannig hefur Evrópusambandið mótað ákveðnar áherslur í samskiptum sínum við norðursvæði. Bæði alríkisstjórnin í Kanada og í Bandaríkjunum hafa mótað sérstakar norðursvæðastefnur og þannig mætti áfram telja.

Hugsunin að baki þessu er auðvitað sú að á tímum sívaxandi alþjóðasamstarfs og hnattvæðingar þurfi líka að hyggja að samstarfi á svæðisbundnum grundvelli og það hefur víða orðið reynslan að um leið og heimurinn allur rennur að hluta til saman sem markaðssvæði og pólitískt samstarfssvæði vex frekar en minnkar mikilvægi ýmiss konar svæðisbundinnar samvinnu. Tillagan er mjög víðtæk og ef ég hleyp yfir helstu töluliðina eru þeir í fyrsta lagi að áætlun um aðgerðir til þess að efla vestnorrænt samstarf og móta íslenska nærsvæðastefnu feli í sér að efla vestnorrænt og fjölþjóðlegt samstarf við norðan- og norðvestanvert Atlantshaf með frumkvæði af Íslands hálfu sem landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum tengipunkti slíks samstarfs og að mótuð verði í því skyni íslensk nærsvæðastefna.

Það má nefna í þessu sambandi, herra forseti, að haldnar hafa verið stórar ráðstefnur í tvígang, fyrst á Íslandi og síðan í Færeyjum, þar sem gerð hefur verið tilraun til þess að safna saman eyþjóðum og strandsvæðum við norðanvert Atlantshaf. Þátttakendur hafa bæði verið sjálfstæð fullvalda ríki eins og Ísland, heimastjórnar- eða sjálfstjórnarsvæði eins og Grænland og Færeyjar, héruð eða fylki í Norður- og Vestur-Noregi, á norðurströnd Skotlands, svæði eins og Hjaltlandseyjar, Suðureyjar, Nýfundnaland og fleiri slíkir aðilar.

Íslensk nærsvæðastefna hlyti að sjálfsögðu einkum og ekki síst að miða að því að koma á meiri tengslum og efla samstarf þessara aðila við norðan- og norðvestanvert Atlantshafið sem eru eðlilegir nágrannar og samstarfsaðilar okkar en það hefur ekki verið viðurkennt í miklum mæli sem landfræðilegt eða stjórnmálalegt svæði í þessum skilningi. Fyrst og fremst er það vestnorræna samstarfið sem er þekkt og komið á kortið í gegnum Vestnorræna ráðið, áður vestnorræna þingmannasambandið, og samstarf á sviði ferða- og atvinnuþróunarmála á Vestur-Norðurlöndum. Í anga þess samstarfs taka strandhéruð Noregs einnig þátt, þ.e. í svonefndu NORA-samstarfi en að þessu slepptu eru satt best að segja ótrúlega lítil tengsl milli þess sem maður skyldi ætla að væru eðlilegir samstarfsaðilar eyþjóðanna og strandríkjanna beggja vegna Atlantshafsins. Þannig eru tiltölulega lítil reglubundin eða skipulögð samskipti á milli vestnorrænu landanna annars vegar og skosku eyjanna eða Nýfundnalands hins vegar og það hlýtur auðvitað að teljast óeðlilegt í ljósi þess að um næstu nágranna er að ræða og í ljósi þess að mjög margt eiga þessar þjóðir sameiginlegt.

Í öðru lagi er lagt til að fylgja eftir uppbyggingu vestnorrænnar samvinnu sem unnið hefur verið markvisst að síðustu tvo áratugi. Þar hefur ýmislegt áunnist og margt verið vel gert en þar mætti taka betur til hendi. Það væri mikil þörf á því að auka nokkuð fjárveitingar til samvinnu á sviði menningar- og menntamála, atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála, samgöngu- og ferðamála svo að eitthvað sé nefnt.

Í þriðja lagi að efla tengslin við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri, eins og ég vék reyndar að áðan, með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu með Norðvestur-Atlantshafssvæðið í huga.

Þá er vikið að sameiginlegri sögu og menningararfleifð við norðvestanvert Atlantshaf þar sem nefna má landnám Íslendinga á Grænlandi og sögu búsetu norrænna manna þar. Það má nefna sérstök tengsl Íslands og Færeyja, einstakan menningarlegan skyldleika og samstarf þar á milli, samvinnu á sviði atvinnumála og samstöðu og skyldleika þessara þjóða almennt.

Það má nefna norræna arfleifð á skosku eyjunum og Írlandi, Bretlandi og vesturströnd Evrópu. Það má nefna landnám norrænna manna á austurströnd Norður-Ameríku, söguleg tengsl Íslands og Vestur-Noregs, sögur siglinga, landafunda, byggðar og búsetu almennt við strendur norðan- og norðvestanverðs Atlantshafsins. Þá var einnig í þessari tillögu vikið að því að fylgja eftir þeirri miklu kynningu sem varð á vestnorrænni sögu og framlagi Íslands á sviði landafunda og landnáms í Vesturheimi í kjölfar þúsund ára afmælis Vínlandsfundar árið 2000, siglingar skipsins Íslendings til Vesturheims og annarra atburða sem urðu í tilefni af landafundaafmælinu.

Þá má enn nefna að rækta tengsl Íslands við Íslendingabyggðir í Kanada og Bandaríkjunum. Í þeim efnum varð einnig mikil vakning í tengslum við þúsaldarafmælið og opnun sendiskrifstofa Íslands í Ottawa og Winnipeg, og þessu starfi, herra forseti, er ástæða til að fylgja eftir því enginn vafi er á að mikill áhugi er á því, bæði í byggðum vestan hafs og eins á Íslandi, að það sé gert. Nú hefur sem betur fer tekist samkomulag um að efla Vesturfarasetrið á Hofsósi sem að sjálfsögðu er mikilvægur liður í þessari uppbyggingu af okkar hálfu hér heima fyrir, Íslendinga, og enginn vafi er á því að það mun hafa mikið aðdráttarafl og verka sem segull fyrir fólk af íslensku bergi brotið í Vesturheimi.

Þá er enn vert að nefna stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði samgöngu- og ferðamála á þessu svæði. Um það vil ég fara nokkrum orðum, herra forseti. Að vísu hefur nú sé gleðilegi atburður orðið að fyrir utan samkomulag um að halda uppi flugi milli Íslands og Suður-Grænlands sem ríkisstjórnir bæði Íslands og Grænlands hafa styrkt hefur nú tekist samkomulag við grænlenska flugfélagið um að hefja millilandaflug til Akureyrar, að vísu ekki með millilendingu og áframhaldandi flugi til Grænlands eins og upphaflega stóð til heldur fyrst og fremst með beinu flugi frá Kaupmannahöfn, ef ég veit rétt. Þetta er engu að síður ánægjulegur áfangi og til marks um sívaxandi samvinnu þessara aðila á sviði ferðamála.

Í flugi frá Íslandi til Narsarsuaq á Suður-Grænlandi verður notuð færeysk flugvél þannig að í þessu samgöngu- eða ferðamálastarfi öllu þéttast vestnorrænu þjóðirnar allar saman en enn stendur það út af og háir stórkostlega samskiptum, uppbyggingu ferðaþjónustu og hvers konar pólitískri samvinnu, viðskiptalegri samvinnu á þessu svæði, að ekkert reglubundið áætlunarflug er milli höfuðstaðanna þriggja, Þórshafnar í Færeyjum, Reykjavíkur og Nuuk. Þar stendur flugleiðin milli Íslands og Nuuk út af og því fylgir óheyrilegur kostnaður og mikil óþægindi, og tími er því samfara að komast þar á milli. Það má geta þess til gamans, herra forseti, að það lætur nærri að kostnaðurinn við að fljúga um Kulusuk og Syðri-Straumsfjörð eða Kangerlussuaq á Grænlandi og áfram til Nuuk frá Reykjavík sé um 150--180 þús. kr. með flugvélaskiptum og millilendingum. Velji menn hins vegar að fara sömu leið á dýrasta fargjaldi gegnum Kaupmannahöfn, þ.e. fljúga fyrst frá Íslandi til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Syðri-Straumsfjarðar og síðan yfir til höfuðstaðar Grænlands, Nuuk, er það væntanlega í flestum tilvikum eins til tveggja daga ferðalag hvora leið og kostnaðurinn er af stærðargráðunni 200--215 þús. kr., ef ég veit rétt hvað fargjald snertir. Það liggur í augum uppi að það er ekki beinlínis til að greiða fyrir samskiptum og samvinnu, hvort sem heldur er í viðskiptalífinu, á menningarsviðinu, pólitískt eða hvað það nú væri. Þarna þarf að taka til hendi og er dapurlegt til þess að vita að sumpart strandar þetta á skorti á samstarfsvilja flugrekstraraðila. Það er spurning hvort stjórnvöld geta eitthvað lagt af mörkum þar.

Að síðustu, herra forseti, kveður tillagan á um að mótuð verði stefna um fjárveitingar til framangreindra verkefna þessara tölusettu markmiða sem talin eru upp í tillögunni. Það er lagt til að mótuð verði áætlun um fjárveitingar til framangreindra verkefna til fjögurra ára í senn sem verði svo lögð fyrir Alþingi og endurskoðuð með reglubundnu millibili.

Herra forseti. Ég vonast til þess að þessi tillaga fái skoðun af svolítið meiri alvöru en tekist hefur á tveimur síðustu þingum þar sem hún hefur í hvorugt skipið orðið útrædd. Ég hef ástæðu til að ætla að um efnisatriði tillögunnar sé í öllum aðalatriðum mikil samstaða á þingi. Það réð ég m.a. af góðum undirtektum við málið á síðasta þingi þegar það var til umræðu. Mér þykir þess vegna ástæða til að ætla að ef menn gæfu sér tíma til þess að skoða málið kynni að vera góð samstaða um að grípa til aðgerða af þessu tagi. Ég held að það væri tvímælalaust til bóta og þarft í mótun íslenskrar utanríkisstefnu að fara yfir og kortleggja það sérstaklega hvernig við högum samskiptum okkar við næstu nágranna í austri og vestri og þá ekki aðeins vestnorrænu þjóðirnar, nágranna okkar í Færeyjum og Grænlandi, heldur einnig nálæg svæði og reyndum að sinna því hlutverki okkar vel að vera á margan hátt hinn eðlilegi landfræðilegi tengipunktur slíkrar samvinnu. Það liggur t.d. í hlutarins eðli að að mörgu leyti liggur það beint við og væri öllum þjóðunum fremur hagstætt að gera Ísland að miklu meiri miðpunkti flugsamgangna í norðvestanverðu Atlantshafinu heldur en er í dag. Þannig gæti umferð frá Grænlandi í stórum stíl legið um Ísland, t.d. um Keflavíkurflugvöll sem að mörgu leyti byði þá upp á áframhaldandi flug í allar áttir til Evrópu og Vesturheims. Umferð frá Færeyjum og vestur um haf lægi auðvitað miklu betur við að tengjast Íslandi og áfram áætlunum til þriggja, fjögurra, fimm áfangastaða í Vesturheimi á degi hverjum heldur en að halda fyrst í austurátt til Kaupmannahafnar og fljúga síðan til baka yfir hafið og þá gjarnan rétt norður af Íslandi.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.